Viðskipti á hlutabréfamarkaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Nokkur orð vegna þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu og vegna þess sem fram kom hjá 1. flm., hv. 1. þm. Reykv., fyrr í umræðunni.
    Hér er vissulega hreyft þörfu máli og það er rétt athugað hjá flutningsmönnum að það er eitt brýnasta viðfangsefnið í íslenskum atvinnumálum að auka eigið fé í íslenskum fyrirtækjum og þar er virkur hlutabréfamarkaður áreiðanlega ein mikilvægasta leiðin að því marki. Um þetta er ég sammála flm. og get þess vegna tekið undir meginefni tillögunnar þótt ég telji að ekki sé hyggilegt að setja þessu svona ákveðinn búning, þ.e. að semja skuli tillögur um ráðstafanir sem tilbúnar verði fyrir næsta reglulegt Alþingi. Hér er ekki um slíkar einstakar ákvarðanir eða aðgerðir að ræða heldur miklu fremur þróun sem fer fram víða og á mörgum sviðum. Að þessu mun ég víkja nokkuð hér á eftir.
    Í framsöguræðu 1. flm. kom að mínu áliti því miður fram nokkur misskilningur. Flutningsmaður virtist standa í þeirri trú að í málefnasamningi þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar væri ekki fjallað um þau málefni sem flm. þessarar tillögu bera fyrir brjósti. Það er gott að fá þetta tækifæri til að leiðrétta þennan misskilning því að í málefnasamningi stjórnarinnar segir einmitt um fjármagnsmarkaðinn, sem virðist hafa farið fram hjá hv. 1. þm. Reykv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum endurbótum á skipulagi og starfsháttum á fjármagnsmarkaði þannig að hann gegni betur og á ódýrari hátt þýðingarmiklu hlutverki sínu í greiðslumiðlun og í miðlun fjármagns frá sparifjáreigendum til lántakenda.``
    Virkur hlutafjármarkaður er einmitt einn þátturinn í þessum umbótum á fjármagnsmarkaðinum og að þeim hefur vissulega verið unnið því sannleikurinn er sá, gagnstætt því sem hv. 1. þm. Reykv. hélt fram, að ýmsar ráðstafanir hafa þegar verið gerðar til þess að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði hér á landi og fleiri ráðstafanir eru í undirbúningi. En þessar ráðstafanir þurfa auðvitað að koma í réttri röð. Ég er flutningsmönnum þessarar þáltill. sammála um það að virkur og heilbrigður hlutabréfamarkaður er mikilvægur fyrir atvinnulífið því á slíkum markaði geta atvinnufyrirtækin aflað sér eigin fjár sem er þeim ódýrara en lánsfé á erfiðleikatímum. Þetta mun auðvitað styrkja atvinnulífið þegar á móti blæs. Ég er líka þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem skráð hafa hlutabréf sín á verðbréfaþingi muni þannig fá aukið aðhald í rekstri sem bæði þeim og því fólki sem hefur afkomu sína af starfseminni er nauðsynlegt.
    En eins og ég sagði þá skulum við taka hlutina í réttri röð. Ég ætla þá í fyrsta lagi að minna á að á þessu þingi hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir lögfestingu frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þetta frv. er nú orðið að lögum, nr. 20/1989. Þar er að mínu viti lagður grunnurinn að síðari uppbyggingu á fjármagnsmarkaði og sem ég mun víkja nokkuð að hér á eftir.

    Í þessum lögum er í fyrsta sinn settur rammi um starfsemi verðbréfafyrirtækja sem geta tekið það að sér að vera viðskiptavaki, það er tekið á vandamáli sem myndast hefur vegna svokallaðra innherjaviðskipta og þar er tekið á viðskiptum forstöðumanna fyrirtækja. Þar eru gerð glögg skil á stjórn verðbréfasjóða og miðlaraviðskiptanna og þar er verðbréfafyrirtækjunum líka veitt ákveðin staða í sambandi við útgáfu markaðsverðbréfa, þar á meðal hlutabréfa almenningshlutafélaga. Yfir þetta hlýtur hv. flm. að hafa sést þegar hann flutti sitt mál um daginn.
    Ég tel reyndar að þessi lög marki á vissan hátt vegamót í hagsögu landsins, en traust verðbréfafyrirtæki eru einmitt forsenda heilbrigðra viðskipta með hlutabréf. Þetta var einmitt ein af þeim tillögum sem gerðar voru í skýrslu breska fyrirtækisins Enskilda Securities sem samin var að beiðni Seðlabankans og Iðnþróunarsjóðs og fram kom í fyrra og vitnað er til í greinargerð með þáltill.
    Þá vil ég í öðru lagi nefna að það er nauðsynlegt að efla Verðbréfaþing Íslands til viðskipta með hlutabréf. Viðskipti á þessu þingi hafa hingað til eingöngu verið með skuldabréf. En á sl. vori samþykkti stjórn þingsins reglur um skrásetningu hlutabréfa. Því miður hefur ekkert hlutafélag enn verið skráð á verðbréfamarkaðnum og eru vafalaust til þess ýmsar ástæður. Ég tel hins vegar að það sé grundvallaratriði til þess að efla hér hlutabréfaviðskipti að þarna sé um skráningu að ræða með ákveðnum upplýsingaskyldum til að tryggja viðskiptavinina gegn prettum í hlutabréfaviðskiptunum.
    Það er sagt af forsvarsmönnum fyrirtækjanna að þeir hafi ekki viljað skrá sig vegna þess að upplýsingagjöfin hafi vaxið þeim í augun. Ég tel að þarna sé um nokkrar ofsjónir af þeirra hálfu að ræða. Stjórn Verðbréfaþingsins vinnur nú að samningum reglna um útboð hlutabréfa til almennings, en þar er um afar þýðingarmikið atriði að ræða í þessu máli. Þar mun verða höfð hliðsjón af útboðsreglum sem gilda í ríkjum Evrópubandalagsins og eru nú að verða viðmiðunarreglur í Vestur-Evrópu. En það er ekki nóg að búa þessu starfsramma, starfsvettvang og skipulegar reglur ef hugarfarsbreyting verður ekki hjá eigendum og stjórnendum atvinnufyrirtækja. Þeir þurfa að temja sér þá hugsun
að almenningshlutafélagaformið sé einna heppilegasta rekstrarformið fyrir atvinnuvegi hér á landi og ég veit að hv. 8. þm. Reykv. er mér sammála um þetta.
    Þá kem ég í þriðja lagi að því að auðvitað er það rétt, eins og kemur fram í máli 1. flm. þessarar till. og í grg., að ýmis ákvæði skattalaga hafa verið til hindrunar því að almenn viðskipti með hlutabréf geti hafist af krafti. Ég vil benda á að ríkisstjórnin lætur nú einmitt vinna að tillögum um það að samræma skattmeðferð eignartekna hvers konar, þar með af hlutabréfum. Það þarf auðvitað að verða a.m.k. jafnhagstætt fyrir sparifjáreigendur að leggja sinn sparnað í hlutabréf og að varðveita spariféð á annan hátt.
    Þá kem ég loks að nauðsyn þess að fjölga öflugum

viðskiptavinum á hlutabréfamarkaði. Það er löng reynsla erlendis að hlutabréf fyrirtækja gefa að jafnaði hærri arð en skuldabréf þar sem skipulega er á málum haldið. En hins vegar, eins og flestum er ljóst, eru verðmæti þeirra meiri sveiflum háð. Lífeyrissjóðir, sjóðir tryggingafélaga og fleiri aðilar, sem hafa mikilvægar fjárfestingar með höndum, fjárfesta því yfirleitt hluta af sínu fé í hlutabréfum en annan hluta í skuldabréfum, sem er að öðru jöfnu talin tryggari fjárfesting. Þetta tel ég að við séum með sem næsta skref að samræma löggjöf og reglur um lífeyrissjóðina. Ég tel nauðsyn bera til að þeir dreifi sem mest sinni áhættu og ávöxtun fjármuna, m.a. með því að fjárfesta bæði í innlendum og erlendum eignum og í skuldabréfum jafnt sem hlutabréfum. Reynsla annarra þjóða hefur kennt okkur að með því móti er launþegunum best tryggður lífeyrir hjá sjóðunum þegar fram líða stundir.
    Í samþykktum lífeyrissjóðanna sem nú eru í gildi er víða að finna takmarkanir á kaupum hlutabréfa. Ég vil vinna að því að breytingar verði gerðar þannig að í nýjum samræmdum lögum um lífeyrissjóði verði þeim heimilað að festa fé sitt a.m.k. að hluta í hlutafélögum þannig að hér verði um samval að ræða á vegum sjóðanna, þ.e. að þeir velji sitt ,,portfolio``, eins og kallað er á erlendum tungum, með tilliti til bæði arðs og öryggis og eigi kost á því að fjárfesta í því sem auðvitað er undirstaða alls í landinu, þ.e. almennilegum atvinnuvegum.
    Það sem ég hef nú rakið sýnir að það eru í gangi ýmsar ráðstafanir til þess að leggja grunn að hlutabréfamarkaði. Hér er eðli málsins samkvæmt um fjölþættar ráðstafanir að ræða, ekki þó neina allsherjarlausn, en það er verið að vinna að þessum breytingum. Það er mín trú að í framtíðinni verði virkur hlutabréfamarkaður einn af hornsteinum okkar hagkerfis. Ég ítreka þá skoðun mína að fyrsta hleðslan í þessari byggingu hafi verið löggjöfin um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Að lokum vil ég, eins og ég gerði í byrjun máls míns, taka undir meginefni þáltill. en tel ekki nauðsyn á að setja henni tímamörk eins og tillaga er gerð um í þeirri ályktunartill. sem hér liggur fyrir okkur.