Viðskipti á hlutabréfamarkaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um þessa þáltill. og fyrir þá stuðningsyfirlýsingu sem hann hefur gefið með sínum orðum, þótt hann telji að óþarfi sé að í þáltill. standi að tillögurnar skuli vera tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi. Ég skil það svo að hæstv. ráðherra sé tilbúinn til þess að stuðla að framgangi þessarar till. þótt skammur tími sé til stefnu og gæti þá hv. hlutaðeigandi nefnd breytt till. til samræmis við óskir ráðherra ef hann telur tímann af of skornum skammti.
    Það kom fram í mínu máli, sem var talsvert ítarlegt þegar ég flutti framsöguræðu mína með þessari till., að margt hefði áunnist á íslenska fjármagnsmarkaðnum og nefndi ég þar sérstaklega til sögunnar frelsið, þ.e. vaxtafrelsið. Ég veit að um það erum við sammála, ég og hæstv. ráðherra, að það hefur leitt til mikilla bóta á fjármagnsmarkaðnum enda hefur hæstv. ráðherra verið manna fremstur í flokki við að skýra það út fyrir almenningi bæði í sinni núv. stöðu og eins áður en hann tók við ráðherraembætti. Það kom enn fremur fram í mínu máli að lög um verðbéfasjóði og verðbréfaviðskipti voru auðvitað nauðsynleg lög, enda studdi Sjálfstfl. þá löggjöf meðan hún var í smíðum og telur hana af hinu góða. Ég man eftir því að í umræðu um það mál sagði hæstv. ráðherra að strax í kjölfar þess að þau lög, nr. 20/1989, yrðu samþykkt mundi hann beita sér fyrir því að Íslendingar gætu keypt verðbréf erlendis. Það væri vissulega fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort unnið hefði verið að því máli upp á síðkastið. Þetta var eitt af því sem síðasta ríkisstjórn lýsti yfir að gert yrði í tímans rás. Nú virðist sá tími vera kominn því að hæstv. ráðherra orðaði það svo að slíkt mundi gerast í kjölfar samþykkis á þeim lögum sem hann vitnaði til um verðbréfaviðskipti.
    Ég held, þrátt fyrir upplestur hæstv. ráðherra úr stjórnarsáttmálanum, að engum manni geti dulist að þar er ekki beinlínis vikið að hlutabréfamarkaðnum, þó að með því að toga orðalagið til, eins og hæstv. ráðherra reyndi að gera, megi vissulega fella breytingar á hlutafjármarkaðnum undir það sem þar stendur. Það er ljóst að þar er fyrst og fremst verið að tala um aðra hluti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra virðist vera tilhneiging hjá hæstv. ríkisstjórn til þess að sameina nauðsynlegar breytingar á hlutabréfamarkaðnum þeim hugmyndum sem hæstv. ríkisstjórn hefur um að breyta skattareglum eignatekna, þar á meðal fjármagnstekna. Ég tel að það sé ástæðulaust að bíða eftir því. Það megi margt gera varðandi hlutabréfaviðskipti áður en hæstv. ríkisstjórn hefur komist að því hvernig hún hyggst koma fram með tillögur um eignatekjur og fjármagnstekjur.
    Varðandi skráningu á Verðbréfaþingi Íslands er það ekki alls kostar rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það sé tregða hjá stjórnendum fyrirtækjanna af ástæðum sem hann nefndi. Það er nefnilega ljóst að til að fyrirtæki skrái hlutabréf sín á Verðbréfaþingi Íslands frekar en nú er gert þyrfti að breyta 74. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir

beinlínis að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðasta skráða gengi í árslok. Þetta hefur þá þýðingu að bréfin eru metin til eignar og þar með til eignarskatts á síðasta skráðu gengi en allir vita að það er hægt að kaupa hlutabréf með beinum kaupum án þess að um gengisskráningu bréfanna sé að ræða og þá er stofnverðið, sem er þá um leið grundvöllur skattsins, annað en væri um það að ræða að það sé keypt og skráð á Verðbréfaþingi Íslands.
    Í grg. með till. vík ég að þessu og segi þar að til greina komi að mínu áliti og þeirra sem eru flm. þessarar till. að hafa skattfrádráttarreglurnar í lögunum nr. 9/1984 með þeim hætti að það væri rýmri reglur fyrir þau fyrirtæki sem eru skráð á Verðbréfaþinginu. Þetta sjónarmið helgast m.a. af því að það þarf að vera tiltölulega gott viðskiptaöryggi með hlutabréf sem ganga kaupum og sölum, ekki síst ef markaðurinn verður stærri en hann er í dag og næði jafnvel til erlendra aðila. Á síðustu mánuðum, eins og fram kemur í blöðum sem gefin eru út af þeim aðilum sem skrá hlutabréf, hefur verið vaxandi áhugi erlendis á kaupum á íslenskum hlutabréfum. Auðvitað hlýtur það að vera framtíðin að Íslendingar geti eignast hlut í erlendum fyrirtækjum og útlendingar í innlendum fyrirtækjum, ekki síst þegar við skoðum framvindu mála í Evrópu þar sem einingarnar eru að stækka og þar sem fjármagnsflæði er sífellt að verða frjálsara með hverju árinu sem líður. Ég veit að ég þarf ekki að skýra það út fyrir hæstv. ráðherra. Þau mál þekkir hann betur en margir aðrir.
    Ég vil benda hæstv. ráðherra á að í fjh.- og viðskn. liggja tvö frv. til breytinga á lögum nr. 9/1984 sem, ef samþykkt yrðu, gætu aukið eftirspurn eftir hlutabréfum og þá sérstaklega minni fyrirtækjanna. Þessi frv. voru lögð fram á þingi í trausti þess að þau kynnu að verða til þess að áhugi fyrirtækjastjórnenda yxi á því að stækka hlutafélögin, fjölga hluthöfum og yrði þess vegna hvati til almenningshlutafélaga. Ég er sammála hæstv. ráðherra að enginn maður hefur fyrr né síðar á Íslandi skýrt þetta betur út eða barist meira fyrir þessu en einmitt hv. 8. þm. Reykv. sem í gegnum tíðina hefur skrifað um þetta ágætar greinar og bækur. Þessi frv. sem þarna er um að ræða
eru frv. sem víkja að eftirspurnarhliðinni. Það mætti hugsa sér að gera ýmislegt er varðar framboðshliðina í þessum efnum og auðvitað eru skattareglurnar kannski sá hvati sem helst er hægt að grípa til.
    Ég gagnrýndi enn fremur í minni framsöguræðu mjög ákveðið hvernig hæstv. ríkisstjórn virðist líta til þessara mála almennt. Það eina sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa gert er að koma upp Hlutafjársjóði sem er ætlað það hlutverk að breyta lánum ýmissa opinberra aðila í hlutdeildarbréf Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar, lækka þannig skuldir fyrirtækjanna en sjóðurinn eignast hins vegar hlut í fyrirtækjunum á móti. Þetta er gert með ríkisábyrgð að hluta og er hallærisráðstöfun gerð í því skyni að fyrirtækin verði betur sett til að geta fengið lánafyrirgreiðslu hjá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreinanna, eins og skýrt kemur fram í einu dagblaðinu í dag þegar talað

er við forstöðumann þessa sjóðs og reyndar enn fremur forstöðumann Hlutafjársjóðsins. Með þessu virðist ríkisstjórnin hæstv. líta til hlutabréfakaupa eingöngu í því skyni að bjarga fyrirtækjum sem varla eru ,,solvent``, ef ég má nota það orð. Það er hins vegar ekkert hugsað um það hvernig vinna má í fyrsta lagi að því markmiði að örva kaup og sölu á hlutabréfum sem í gangi eru og hins vegar að fjölga hluthöfum og reyna að auka eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna hér á landi. Veit þó hæstv. ráðherra betur en flestir aðrir að eiginfjárhlutfallið hér á landi hefur sífellt farið lækkandi á undanförnum árum og nú stefnir í það nánast að fyrirtækin byggi allan sinn rekstur á lánsfé. Það veit hæstv. ráðherra að kann ekki góðri lukku að stýra.
    Þessi gagnrýni mín kom fram í minni upphafsræðu og hún stendur enn. Það eru engin svör hjá hæstv. ráðherra að segja að á þessum málum verði tekið þegar tekist verður á um það hvernig eigi að skattleggja eignatekjur og þar með fjármagnstekjur. Við vitum ekkert hvenær það verður gert. Það eina sem við höfum heyrt um það mál er þegar hæstv. fjmrh. hefur staðið hér upp og sagt að það eigi að gilda sérstakar sérreglur um skuldabréf ríkisins í þeim efnum. Það er það eina sem hæstv. ráðherra fjármála hefur sagt um það efni og finnst manni það skjóta nokkuð skökku við ef ríkissjóður á að hafa sérstakan forgang yfir aðra í þessu tilliti. Mín gagnrýni beindist fyrst og fremst að því. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki sýnt þessum málum nægilegan skilning jafnvel þótt hæstv. viðskrh. sé áhugamaður um þetta efni. Þessi gagnrýni mín stendur eftir sem áður enda má benda á verkin því að þau sýna nákvæmlega það hvað gerst hefur. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert annað en að koma þessum nauðsynlegu lögum fram um verðbréfaviðskiptin, sem ég fagna og skal enn þá lýsa því yfir, eins og ég gerði í minni fyrri tölu í dag.
    Þrátt fyrir allt þetta vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið undir þau efnisatriði sem koma fram í þessu frv. Ég viðurkenni að það er nokkuð liðið á þingtímann og því kannski ekki við því að búast að þessi tillaga nái fram að ganga fyrir þinglok. En ég treysti þá á, vegna þessa mikla skilnings sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra, að hann láti nú hendur standa fram úr ermum og sýni í verki skoðun sína á þessum málum þannig að við upphaf næsta þings komi fram frv. sem örvi viðskipti með hlutabréf. Jafnframt skora ég á hæstv. ráðherra og liðsmenn hans, fulltrúa þeirra sem styðja núv. hæstv. ríkisstjórn, að styðja fram komnar brtt. hv. 1. þm. Vestf. við frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga, en þar er að finna brtt. sem mundu gagnast mörgum fyrirtækjum mjög vel í þessum efnum og mundu stuðla að því að auka eftirspurn eftir hlutabréfum í íslenskum fyrirtækjum sem þurfa mjög á því að halda um þessar mundir.