Viðskipti á hlutabréfamarkaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. að hann taldi þörf á að breyta viðhorfum almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til fjármögnunar fyrirtækja og sérstaklega hlutabréfaviðskipta. Ég get tekið undir þetta með honum og sérstaklega fannst mér að það kæmi skýrt fram í hans ræðu að þetta skilningsleysi á þessum málum hefði staðið æðimikið lengur en þessi stjórn hefur verið að störfum. Ég vil hughreysta þá 1. þm. Reykv. og 14. þm. Reykv. með því að þessi stjórn hefur bara verið tæplega átta mánuði að verkum. Hún hefur þegar lokið því sem er miklu mikilsverðara í þessu máli en fyrri stjórnum hefur auðnast að gera, nefnilega að koma á almennri rammalöggjöf um verðbréf og þar með hlutabréfaviðskipti. Ég er sannfærður um það og vil reyna að sannfæra þá um að framhald muni verða á þessu þannig að hagsmuna almennings sé þó jafnan gætt.
    Þeir beindu báðir til mín spurningu, hv. 1. þm. Reykv. og sá 14., hvort fyrir dyrum stæði að heimila Íslendingum að eignast erlend verðbréf og erlendum mönnum að eignast innlend verðbréf. Svarið er já. Í kjölfar laga nr. 20/1989 verður þessi gluggi opnaður. Hann verður opnaður með gát til þess að menn þurfi ekki að skella honum aftur eins og komið hefur fyrir ýmsar þjóðir sem hafa slegið inn á þessa braut. (FrS: Hverra?) T.d. er kerfi Norðmanna þar ljósast. Ég bið hv. 1. þm. Reykv. að hafa enn nokkra biðlund með mér, bæði í þessum ræðutíma og í starfstíma stjórnarinnar sem á eftir að verða langur eins og hann veit. Það er því alveg óhætt að bíða. Það kemur alltaf nógur tími. ( FrS: Við heyrðum erkibiskup ...) Það kemur alltaf nógur tími. Ég vil svara þeim ágætu fyrirspyrjendum þannig að þetta muni gerast á næstu vikum, þ.e. að þarna verði gætilega opnaðar dyr og með þeim hætti um búið að ekki þurfi að skella þessu í lás strax aftur.
    Það þurfti heldur ekki, svo að ég svari aftur hv. 1. þm. Reykv., að toga neitt til orðin í stjórnarsáttmálanum um mikilvægi þess að bæta virkni fjármagnsmarkaðarins. Þau eru alveg skýr og ótvíræð og ég las þau bara upp og togaði þau ekkert til. Ég er hv. 1. þm. Reykv. sammála um að það er ekki og var ekki ástæða til að bíða eftir samþykkt skattalagabreytinga, þótt þarfar séu á þessu sviði, til þess að hefjast handa um að greiða fyrir skipulegri fjármögnun innlendra atvinnuvega og auðvelda hlutabréfaviðskiptin, enda hefur það þegar verið gert eins og sú lýsing sem ég gaf á aðgerðum þessarar stjórnar á hennar skamma starfstíma gefur órækan vitnisburð um.
    Ég hlustaði með athygli á þau orð sem féllu hjá hv. 1. þm. Reykv. um nokkrar skattalagabreytingar. Þau mál verða til athugunar á næsta þingi. Um tíðar orðræður hans um Hlutabréfasjóðinn, sem settur var með lögum í vetur, vil ég með allri virðingu fyrir hv. 1. þm. Reykv. beina því til hans að hann kunni að alhæfa nokkuð út frá því sem þar er að gerast. Sérstaklega vara ég við alhæfingunum um breytingar

á eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja á þann einfalda hátt sem kom fram í máli hans. Þar er ekki verið að tala um heildina í þessu máli.
    Að endingu vil ég þakka hv. 14. þm. Reykv. sérstaklega fyrir það sem hann sagði hér um lífeyrissjóðina og hlutverk þeirra á fjármagnsmarkaðinum. Þar tek ég undir hvert orð. Það er sannarlega mikilvægt að á þessum lokaða markaði íslenskra hlutafélaga og innlendra atvinnufyrirtækja verði breytingar og að sá sparnaður almennings sem mikilverðastur er í landinu, þ.e. lífeyrissjóðirnir, verði virkjaður til þess að efla íslenska atvinnuvegi.