Skógrækt á eyðijörðum í ríkiseign
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 802 um skógrækt á eyðijörðum í ríkiseign. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Hreggviður Jónsson, Guðmundur H. Garðarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Árni Gunnarsson og Geir Gunnarsson. Tillögutextinn er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta kanna hvaða eyðijarðir í ríkiseign er hægt að afhenda Skógrækt ríkisins til að efla og styrkja skógrækt í landinu. Niðurstöður könnunarinnar skulu kynntar Alþingi eigi síðar en 1. nóv. 1989.``
    Í greinargerð segir eftirfarandi:
    ,,Ari fróði segir í Íslendingabók um aðkomu fyrstu landnámsmanna: ,,Í þann tíð var landið viði vaxið milli fjalls og fjöru.`` Þannig leit Ísland út í augum þeirra er fyrstir námu hér land. Nú er öldin önnur og má heita að Ísland sé allt að því skóglaust land, a.m.k. í samanburði við önnur Evrópulönd.
    Það er skoðun flutningsmanna að Ísland þurfi ekki að vera eins nakið og bert og raun ber vitni.
    Tillaga þessi er lögð fram sem liður í að efla skógrækt í landinu. Gert er ráð fyrir því að landbrn. geri á því úttekt hvaða jarðir í eigu ríkisins, sem komnar eru í eyði, henti til skógræktar. Lögð skal á það áhersla að skógræktarfélög verði höfð með í ráðum, helst þó þannig að þar sem starfandi eru skógræktarfélög fari þau með málið.
    Eðlilegt er þó að slíkt sé undir yfirstjórn Skógræktar ríkisins, enda segir í lögum um skógræktina frá 1907 að hlutverk hennar sé m.a. ,,að rækta nýjan skóg, þar sem henta þykir, að leiðbeina um meðferð skógar og hvaðeina er að skógrækt lýtur``. Því hlýtur það að teljast eðlilegt að Skógrækt ríkisins hafi yfirumsjón með þessum málaflokki.
    Í fróðlegri grein sem Sigurður Blöndal skógræktarstjóri ritaði í Þjóðviljann 5. apríl sl. og bar yfirskriftina ,,Skógur og skógrækt á Íslandi`` segir m.a.: ,,Um síðustu aldamót hófu nokkrir Danir tilraunir í skógrækt á Íslandi með innfluttum trjátegundum. Í mörgum Evrópulöndum, m.a. Danmörku, hafði slíkt verið reynt lengi og víða með góðum árangri. Hér virtist þetta sérlega freistandi þar eð í landinu var aðeins ein tegund sem myndaði samfellda skóga. Þessar tilraunir stóðu í rúman áratug, en var þá hætt vegna þess að þær þóttu ekki bera nógu góðan árangur. Samt er það nú svo að núna standa einstök tré og litlar þyrpingar sem fögur minnismerki um þessa viðleitni hugsjónamanna og eru mikilsverðar fyrir þá sem fást við skógrækt nú. Þessi stefna var svo tekin upp aftur á fjórða áratug aldarinnar, eftir að Hákon Bjarnason varð skógræktarstjóri.
    Síðar varð mönnum svo ljóst að íslenskt gróðurríki, sem hefur innan sinna vébanda ákaflega fáar tegundir, gefur ranga mynd af gróðurskilyrðum. Hér geta miklu fleiri tegundir vaxið en þær sem gátu borist til landsins af sjálfsdáðum. Auk þessa hafði um helmingur þeirra lifað af ísöld.
    Eftir síðustu heimsstyrjöld hófst þessi innflutningur

svo af miklum krafti og stendur enn.
    Skógrækt ríkisins hefur flutt inn og reynt yfir 100 tegundir trjáa frá meira en 1000 stöðum víðs vegar á jörðinni. Um tíu þeirra eru nú ræktaðar í nokkrum mæli og fimm mynda stofninn í skógrækt á Íslandi í dag: lerki frá Rússlandi og Síberíu, sitkagreni og skyldar tegundir frá Alaska, stafafura frá Alaska, alaskaösp frá Alaska og blágreni úr Klettafjöllum Norður-Ameríku.``
    Síðar í sömu grein skilgreinir skógræktarstjóri mismunandi tilgang skógræktar á eftirfarandi hátt: ,,Skógur er ræktaður í mismunandi tilgangi og eftir því eru honum gefin mismunandi heiti: verndarskógur, nytjaskógur, útivistarskógur, skjólbelti.
    Auðvitað skarast þetta meira og minna. Þannig er allur skógur verndarskógur í þeim skilningi að hann er besta vernd jarðvegs fyrir vatns- og vindrofi. Allur skógur er einnig vernd fyrir þann undirgróður sem er hluti af vistkerfinu á hverjum stað. Nefna má það dæmi að ýmsar jurtir vaxa aðeins í skógi sem samsettur er af ákveðnum trjátegundum. Ef skógurinn hverfur hverfa þessar tegundir líka. Af því að skógurinn er efsta hæðin í margbrotnu vistkerfi ræður hann svo miklu um þýðingarmikla vaxtarþætti eins og skjól, loft- og jarðvegsraka, samsetningu jarðvegs og ljósmagn.
    Þannig skapar allur skógur skjól, bæði utan skógar að vissu marki og alltaf innan hans.
    Hins vegar er ekki allur skógur nytjaskógur. Með þessu hugtaki er átt við skóg sem framleiðir efnahagsleg verðmæti. Til þess eru sumar trjátegundir betri en aðrar. Ákveðnar kröfur eru gerðar um vöxt og vaxtarform eftir því hvaða afurðir á að fá úr skóginum. Þannig eru t.d. þær fimm trjátegundir, sem voru fyrr í þessari grein og nú eru mest ræktaðar hérlendis, heppilegastar í ræktun nytjaskógar.
    Um útivistarskóg gegnir öðru máli. Í slíkum skógi eru litlar kröfur gerðar um vöxt og vaxtarform trjánna. Skógur, sem er ekki nema 4--5 metra hár, getur verið ágætur útivistarskógur og trén mega alveg eins vera bogin eða kræklótt
eins og með þráðbeinan bol. Fjölbreytni í tegundum er þýðingarmikið atriði í útivistarskógi. Þangað sækja menn skjól, kyrrð, angan, litskrúð og einhverja stemningu sem allt þetta felur í sér. Óhætt er að fullyrða að víðast hvar á Íslandi, þar sem fólk býr, sé hægt að rækta skóg sem hefur gildi fyrir útivist. Sama verður ekki sagt um nytjaskóg. Aðeins lítill hluti landsins býður slík vaxtarskilyrði að ræktun hans sé fýsileg.
    Skjólbelti eru svo enn ein tegund skógræktar sem hefur sérstaka þýðingu í landbúnaði fyrir grasrækt, akuryrkju, garðrækt og húsdýr. Ræktun skjólbelta er síðasta stig ræktunarbyltingarinnar í íslenskum landbúnaði sem enn er að mestu eftir að hrinda í framkvæmd.``
    Skógræktarstjóri endar síðan grein sína á eftirfarandi hátt:
    ,,Skógrækt ríkisins er lögum samkvæmt ætlað að hafa yfirstjórn skógræktarmála svo sem tíðkast í

flestum löndum. Á vegum þeirrar stofnunar hefur hingað til verið efnt til allvíðtækrar skógræktar á nokkrum stöðum á landinu og nokkur af kunnustu birkiskóglendum landsins eru í eigu eða umsjá hennar.
    Skógræktarfélög landsins eru yfir 40 talsins og mynda landssambandið Skógræktarfélag Íslands. Til samans eru þau stærsti skógræktaraðili landsins og njóta sum þeirra verulegs stuðnings sveitarfélaga sem hafa falið þeim skógræktarstarfið innan sinna vébanda. Skógræktarfélög Reykjavíkur og Eyfirðinga eru langstærstu dæmin um þetta. Meginmarkmið skógræktarfélaganna er ræktun útivistarskóga.
    Hafin er nú nokkur skógrækt á bújörðum bænda með styrk frá ríkinu og undir yfirstjórn Skógræktar ríkisins. Þetta er eingöngu nytjaskógrækt. Margir einstaklingar stunda skógrækt sér til hugarhægðar, einkum við sumarbústaði. Margir þeirra ná undraverðum árangri og óvæntum, oft við skilyrði sem virðast öndverð. Nokkrir einstaklingar hafa lagt út í umfangsmikla skógrækt fyrir hugsjónina eina að fegra land sitt. Má sjá hjá þeim sumum glæsilegan árangur.
    Loks er þess að geta að nokkur fyrirtæki hafa byrjað skógrækt á landi sem er ætlað starfsfólki þeirra til útivistar.``
    Á Alþingi 1983--1984 svaraði þáverandi landbrh. fyrirspurn Kristófers Más Kristinssonar um eyðijarðir. Í því svari kemur fram að ríkissjóður á mörg hundruð eyðijarðir um allt land. Flutningsmenn þessarar tillögu telja það vel þess virði að kannað verði hverjar af þessum eyðijörðum henta til skógræktar.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikil prýði er af skógi vöxnu landi í samanburði við þær óhirtu eyðijarðir sem nú eru því miður orðnar allt of margar.``
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en ég þegar hef haft, en óska þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. atvmn. og síðari umræðu.