Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Það hljómar kannski dálítið einkennilega að vera að biðja um orðið um þingsköp, en ég get eiginlega ekki annað. Ég hef fengið tilefni til þess að koma upp í ræðustól vegna orða sem hér hafa fallið.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes sagði að þingflokksformaður Borgfl. hefði leitað samstarfs við Sjálfstfl., Kvennalista og frjálslynda hægri menn. Það er rétt að því marki að við ræddumst við fyrir um tæplega hálfum mánuði um það hvort áframhald yrði á samstarfi þessara flokka við kosningar í nefndir og ráð. Þá átti eftir að kjósa í þetta tvennt sem nú hefur verið gert. Ég tilkynnti formanni þingflokks Borgfl. nokkrum dögum síðar að þarna yrði ekki um sameiginlegt framboð að ræða af hálfu Sjálfstfl. og ástæðan fyrir því var ósköp einföld. Sjálfstfl. hafði ekki lengur áhuga á því að tryggja þingmönnum Borgfl. eða öðrum borgaraflokksmönnum sæti í nefndum og ráðum vegna þess að það hafði ítrekað komið í ljós að þingmenn Borgfl. hafa stutt ríkisstjórnina þegar ríkisstjórnin hefur sérstaklega þurft á því að halda. Það getur hver sem er gert sér í hugarlund hvort það sé eitthvert áhugamál hjá Sjálfstfl. að vera að hjálpa slíkum flokki að koma mönnum að í nefndir og ráð. Þetta var ástæðan fyrir tilkynningu minni til formanns Borgfl.
    Ég tilkynnti formanni þingflokks Kvennalistans hið sama. Ég sagði hvað okkur hefði farið á milli, mér og formanni þingflokks Borgfl. Þá kom það svar, sem hér hefur komið líka, að Kvennalistinn mundi þá ekki ganga í neitt kosningabandalag við einn eða neinn.
    Síðan varð sú breyting á, og hefur gengið hér um sali þingsins í a.m.k. eina viku, að það stæðu yfir samningaviðræður milli Borgfl. og ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur nú orðið að staðreynd sem ljós er orðin. Það var loks viðurkennt á fundi formanna þingflokka í dag að af þessu samstarfi yrði. Auðvitað breyttist afstaða stjórnarandstöðuflokkanna, sem ég vil svo kalla, þ.e. Sjálfstfl., Kvennalista og frjálslyndra hægri manna, við þessi tíðindi og það var ekkert eðlilegra en einmitt að þeir flokkar, sem eru nú í stjórnarandstöðu, byðu fram sameiginlega.
    Þessu vildi ég koma að til þess að skýra þetta mál frá sjónarmiði sjálfstæðismanna. Meira hef ég ekki um það að segja.