Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég er sammála forseta. Ég tel að þessi umræða um kosningabandalög jaðri við það að vera um þingsköp. Ég tel mér þó rétt og skylt að leggja orð í belg en mun verða mjög stuttorð og fer ekki út í söguskýringar á því sem fram hefur komið við þessa kosningu.
    Það er rétt sem fram hefur komið að þegar í ljós kom að ekki var um algera samstöðu stjórnarandstöðunnar að ræða við myndun kosningabandalags við þessar kosningar töldum við kvennalistakonur að rétt væri að hver sjórnarandstöðuflokkur reri þá á sín eigin mið einn og sér. Vorum við þar með tilbúnar til þess að fórna því eina embætti sem okkur gat hugsanlega hlotnast. En aðstæður breyttust eins og fram hefur komið því Borgfl. gekk til samstarfs við ríkisstjórnina. Við endurmátum því aðstæður og eins og í ljós hefur komið hefur hin eiginlega stjórnarandstaða nú myndað nýtt kosningabandalag.