Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég hafði sannarlega ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umræðum, en hér voru bornar fram upplýsingar sem valda því að það er nauðsynlegt að fá skýringu hæstv. forseta á störfum þingsins og nefnda þess.
    Hér skýrði formaður allshn. Sþ. frá því að nefndin hefði lokið störfum. Samt ætti hún 14 mál eftir óafgreidd. Ég vil nú spyrja um það: Eru margar nefndir Alþingis sem hafa lokið störfum? Alþingi á eftir nokkra daga enn af starfstíma sínum, mörg mál eru óafgreidd og nefndir eru að keppast við að vinna. Ég skil það að vísu að hv. þm., sem er formaður þessarar umræddu nefndar, sækist störfin seint ef hann er búinn að halda lokaveislu í öllum þessum nefndum. Voru þær ekki sex eða sjö? Það er ekki neinn smáræðistími sem fer í það. En ég hygg að hv. þm. verði að athuga að hægt væri bara að halda aðra lokaveislu þegar búið er að halda þessa viðbótarfundi sem þarf í nefndinni.
    Þetta var ekki aðalatriðið heldur hitt að það eru mér algerlega nýjar upplýsingar að nefndir þingsins taki ákvörðun um að ljúka störfum á mestu annadögum þingsins. Þá sé bara ákveðið að nú hafi nefndin lokið störfum og fleira verður ekki afgreitt. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á rétti þingmanna í nefndum sem annars staðar að gefa út nál. ef stuðningur er við það innan nefndanna og nefndin fæst ekki kölluð saman. Það er svo annað mál. En skýringu vildi ég gjarnan fá á þessum nýju starfsháttum þingsins.