Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég bað um orðið nokkru fyrr en því miður virtist forseti ekki taka eftir því þannig að það kann að vera að atriðið sem ég ætla að gera aðeins að umtalsefni komi dálítið seint inn í umræðuna.
    Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs eru orð hv. 2. þm. Reykn. er hann tók þátt í þeim söguskýringum sem hér voru fram bornar um nefndakjörið og baksvið þess sem hér fór fram núna rétt áðan. Það gleður mig að hv. 2. þm. Reykn. gengur í salinn þannig að ég get haft hann í sjónmáli meðan ég ræði þetta atriði. Ég skal taka það strax fram að hvert atriði sem kom fram í máli formanns Borgfl. var að minni hyggju rétt eins og hér hefur verið staðfest.
    Það kom fram í máli hv. 2. þm. Reykn. að ástæðan fyrir því að þingflokkur Sjálfstfl. hefði tekið þá ákvörðun að hafna samstarfi við Borgfl. og Kvennalista væri ósköp einföld. Hann tók sérstaklega fram að hafna samstarfi við Borgfl. og það væri vegna þess að fulltrúar Borgfl. hefðu kosið með málum ríkisstjórnarinnar. En hann gleymdi einu mikilsverðu atriði þegar hann kvað upp úr með þetta hér í þingsal. Hann gleymdi því atriði sem hann lét fram koma við mig þegar hann greindi frá ástæðunni. Sérstaklega ætti þetta við Kvennalistann, sagði hv. 2. þm. Reykn. við mig, vegna þess að Kvennalistinn hefði nú nýverið stutt ríkisstjórnina með fylgi við húsbréfafrv. félmrh.
    Ég vil láta þetta koma sérstaklega fram vegna þess að afstaðan að þessu leyti virðist eitthvað hafa breyst þegar fram í sótti. Auðvitað var það svo að Borgfl. hlaut að leita eftir stuðningi hvar sem hann gat fengið í þessu sambandi og köpuryrði þeirra félaga og fyrrv. borgaraflokksmanna, sem hér töluðu fyrr, læt ég mér auðvitað í léttu rúmi liggja. En nauðsynlegt er að þetta atriði hjá hv. 2. þm. Reykn. komi inn í þingtíðindi sem söguskýring.