Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það verður kannski hálfgert spennufall í þessari áköfu umræðu því að ég ætla ekki að víkja að neinu af þeim atriðum sem hafa valdið mestum deilum fyrr í þessari umræðu. Á einum tímapunkti hennar var opnað fyrir fyrirspurna- og kvörtunardeildina. Fór ég þá að leita í skjölum mínum og fann þar að lokum beiðni um skýrslu frá forsrh. um framkvæmd ályktana Alþingis á sl. fjórum árum, sem er 282. mál Sþ. á þskj. 500 og var lögð fram 16. febr. sl. Beiðnin er undirrituð af þingmönnum úr öllum þingflokkum og við henni hefur ekki borist neitt svar. Ég býst við að það sé ofætlan að hún fáist rædd á þeim fáu dögum sem eftir eru af þinghaldinu, en ég vildi mega vænta þess að skýrslan birtist engu að síður eða a.m.k. kæmi eitthvert svar við þessari beiðni. Ég vildi nota tækifærið til þess að inna hæstv. forsrh. og hæstv. forseta eftir því hvort þessari beiðni verður ekki svarað.