Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég hef sjaldan á minni lífsfæddri ævi orðið vitni að jafnómerkilegum og furðulegum málflutningi og þeim er kom hér fram hjá hv. 2. þm. Reykn., þ.e. þingflokksformanni Sjálfstfl. Hann heldur því fram á hinu háa Alþingi að þeir tveir stjórnarandstöðuflokkar sem ásamt Sjálfstfl. eru í stjórnarandstöðu, þ.e. Kvennalisti og Borgfl., eigi nánast að vera einhvers konar hækjur fyrir Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni. Þeim beri að greiða atkvæði og hegða sér nákvæmlega eins og þingflokksformanni Sjálfstfl. þóknast hverju sinni. Hugsið ykkur slíkan fáránlegan málflutning. Við höfum á vorþinginu tekið málefnalega afstöðu til allra mála, vegið þau og metið í okkar þingflokki. Við höfum tekið þá afstöðu sem við höfum komist að í þingflokki okkar án þess að huga að því fyrst hvaða afstöðu hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. vildi að við tækjum. Það hefur ekki varðað okkur neinu. Við höfum tekið þá afstöðu sem við höfum talið skynsamlegasta og besta hverju sinni. Hvort hún hefur farið saman við óskir þingflokksformanns Sjálfstfl. hefur aldrei varðað okkur neinu.