Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það varðar náttúrlega fyrst hamingjuóskir, en hér hefur komið fram hjá hv. 2. þm. Reykn. að þeir hafi valið og að sjálfsögðu verðum við að óska þeim til hamingju með það. Þeir völdu Kvennalistann og okkur finnst það kannski ekkert skrýtið. Við tökum að sjálfsögðu á móti þeim hamingjuóskum sem stjórnin hefur fengið með að hafa fengið Borgfl. á sama lista í þessum kosningum sem fóru fram hér áðan.
    En þar sem hér hefur komið fram við umræðuna mjög hörð krafa um meiri vinnu í nefndum langar mig að fá það upplýst af hálfu forseta hver sé réttur þingmanna til þess að óska eftir því að nefndarfundum sé frestað. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu að fundir standi í Sþ. eða í deildum. Í öðru lagi af þeirri ástæðu að þingmaður sé boðaður á tvo eða þrjá nefndarfundi samtímis, sem gerir það að verkum að hann getur að sjálfsögðu ekki sinnt viðveruskyldu nema hjá einni nefnd. Ég vil gjarnan að þetta verði alveg sérstaklega tekið fyrir og að forsetar komist að niðurstöðu um það hvort ekki sé verið að brjóta á almennum þingmönnum sem eiga seturétt í ákveðnum nefndum þegar þar eru haldnir fundir án þess að þeir eigi nokkra möguleika til að mæta af framangreindum ástæðum.