Byggðastofnun
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég hefði talið nauðsynlegt að flytja ítarlegt mál bæði um Byggðastofnun og byggðamál en þar sem mjög er liðið á þingtíma ætla ég ekki að flytja langa ræðu en koma þó inn á ýmislegt það sem hæstv. forsrh. kom ekki inn á nema mjög lítillega. Ég vil vekja athygli á því að starfsemi Byggðastofnunar þarf að vera miklu meiri og markvissari en hún er. Það sem fyrst og fremst háir því að ekki er meira að gert er skortur á fjármunum og þar hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum. Það sést í þessari skýrslu hvernig framlag ríkisins hefur farið sífellt lækkandi á undanförnum árum og aldrei verið minna en nú. Eins og þróun atvinnumála er, og þá alveg sérstaklega á landsbyggðinni, hefur verið bráðnauðsynlegt að stórauka framlög til Byggðastofnunar. Byggðastofnun hefur litla fjármuni aðra en afborganir og vexti af þeim lánum sem hún hefur lánað og sem innheimtast tiltölulega illa vegna slæms árferðis í atvinnugreinum. Byggðastofnun hefur aftur mjög litla peninga til að spila úr og því verður að reyna að haga lánveitingum með þeim hætti að rýra sem minnst eiginfjárstöðu sjóðsins.
    Það má segja að nokkuð þokkalega hafi tekist að halda eiginfjárstöðunni. Endurskoðað eigið fé Byggðastofnunar í ársbyrjun hefur verið eitthvað um 1200 millj. kr. eða 18% af útlánum. Ástæða er til að taka þessa niðurstöðu til mjög alvarlegrar athugunar. Nokkur undanfarin ár hefur hvað eftir annað verið varað við því hversu viðkvæmur fjárhagur stofnunarinnar er fyrir ástandinu í sjávarútvegi. Ég nefni sjávarútveginn sérstaklega vegna þess að um 2 / 3 af útlánum Byggðastofnunar eru í sjávarútvegi, þó að það séu einnig háar upphæðir í öðrum atvinnugreinum vegna áhættulána. Eigið fé var nokkuð slæmt þegar þessi stofnun tók til starfa haustið 1985. Staðan batnaði síðan verulega á árunum 1986 og 1987 en það haust snerist dæmið við og staðan hefur verið að versna síðan þar til í lok síðasta árs að nokkuð rétti við. Nú hefur þó aftur hallað undan fæti. Vandi undanfarinna missira hefur þó ekki horfið við það eins og alkunna er. Enda þótt tekist hafi að varðveita verðgildi þeirra fjármuna sem stofnunin fékk til ráðstöfunar á árinu 1985 hafa gríðarlegar lántökur veikt fjárhagsstöðuna að undanförnu. Við sem eigum sæti í stjórn þessarar stofnunar sjáum fram á stóraukna erfiðleika í þessum efnum.
    Í stefnuyfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstjórnar segir að hún ætli að efla Byggðastofnun. Því miður hefur hún ekki sýnt það enn sem komið er því framlag ríkisins til Byggðastofnunar var óbreytt að krónutölu á fjárlögum þessa árs miðað við það sem var á fjárlögum ársins á undan. Hins vegar má segja að núv. ríkisstjórn hafi með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs, sem hefur nú fengið ýmis ummæli hjá mönnum --- en ég hef varast að kasta nokkurri rýrð á þá starfsemi og viðurkenni fúslega að mikil þörf var fyrir að ganga þar til verks. Síðar kom aftur stofnun Hlutabréfasjóðs. Það sem ég set fyrst og fremst út á í aðgerðum núv. hæstv. ríkisstjórnar er að

vera að slíta í sundur þessa starfsemi og hafa hana í raun og veru í þrennu lagi. Þá er ég ekki á neinn hátt að gera lítið úr Byggðastofnun eða Atvinnutryggingarsjóði. Hins vegar er ég æði hræddur um að Hlutabréfasjóðurinn, eins og hann stendur nú, komi að sáralitlum notum nema hann fái fjármagn til að spila úr. Við sjáum að það er ákaflega slæm staða í fjölmörgum atvinnufyrirtækjum og eiginlega í öllum atvinnugreinum.
    Ég ætla til nokkurrar glöggvunar að skýra frá yfirliti sem gert var í Byggðastofnun fyrir árið 1987 og 1988 um rekstur og efnahag fyrir 28 fyrirtæki í sjávarútvegi. Yfirlitið nær til þeirra fyrirtækja sem skilað hafa inn ársreikningi fyrir sl. ár og höfðu meira en 100 millj. kr. í veltu á því ári. Í þessum hópi eru hrein útgerðarfyrirtæki, hrein fiskvinnslufyrirtæki en stærsti hluti veltunnar er hjá blönduðum fyrirtækjum. Rækju- og loðnuverksmiðjur eru ekki í þessum hóp. Milliuppgjör benda til þess að þau fyrirtæki sem enn hafa ekki skilað ársreikningi, eða höfðu ekki gert það fyrir u.þ.b. mánuði síðan, höfðu orðið fyrir sams konar búsifjum árið 1988, þótt staða sumra þeirra hafi verið betri í upphafi. Nettóskuld þessara 28 fyrirtækja hækkaði hvorki meira eða minna en um 2,3 milljarða kr. Það er því ljóst að fjárhagsstaða þessara sjávarútvegsfyrirtækja hefur stórversnað á síðasta ári. Heildarskuldir, að frádregnu veltufé, jukust á árinu 1987 úr 5523 millj. kr. í 7804 millj. kr., eða hvorki meira né minna en 41%. Á sama tíma var verðlagshækkun mæld með lánskjaravísitölu um 19%. Hlutfallið nettóskuld versus tekjur er gjarnan notað til að meta getu fyrirtækja til að standa undir þessum skuldabagga og það hlutfall hækkaði á sl. ári úr 81% í 101%. Nokkur fyrirtæki, sem fengu lán úr Atvinnutryggingarsjóði rétt fyrir og um síðustu áramót, hefðu trúlega fengið synjun ef ársreikningar sl. árs hefðu legið fyrir.
    Í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina og Hlutafjársjóði Byggðastofnununar er lágmarkskrafa gjarnan að nettóskuld sé ekki hærri en 50% af vinnslutekjum og 100% af útgerðartekjum. Til að ná þeirri viðmiðun þarf að lækka nettóskuld þessa hóps um 2,3 milljarða. Miðað við þá afkomu sem verið hefur undanfarin missiri þyrfti að lækka þessar skuldir mun meira. Þrátt fyrir
skuldbreytingar í gegnum viðskiptabanka og Byggðastofnun versnaði lausafjárstaðan verulega. Hreint veltufé, þ.e. skammtímaskuldir að frádregnu veltufé, minnkaði um 1073 millj. kr. á sl. ári, sem sagt úr mínus 1728 millj. í upphafi árs í 2801 millj. kr. í lok ársins. Veltufé deilt með skammtímaskuldum lækkaði úr 0,47 í 0,43, sem er mjög slæm staða, en þetta hlutfall þyrfti að vera ekki lægra en 1,0. Bókfært eigið fé fyrirtækjanna var jákvætt um 151 millj. kr. í ársbyrjun 1988 en í árslok var það orðið neikvætt um 1018 millj. kr. Eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 2% niður í mínus 11% í árslok. Eigendur þessara fyrirtækja hafa í flestum tilvikum ekki bolmagn til að auka eigið fé svo að einhverju nemi.
    Afkoman var slæm. Heildartekjur þessara fyrirtækja

hækkuðu aðeins um 13% á milli áranna 1987 og 1988, eða úr 6814 millj. kr. í 7700 millj. kr. Framlegð, þ.e. það sem reksturinn skilar upp í afskriftir og allan fjármagnskostnað og við nefnum einnig vergt hlutfall fjármagns, var aðeins 10--11% bæði þessi ár. Þetta þýðir í reynd stórfelldan taprekstur. Sjávarútvegur er mjög vélvædd og fjármagnsfrek atvinnugrein og undir eðlilegum kringumstæðum þarf framlegð að vera a.m.k. 15% í blönduðum fyrirtækjum. Vegna mikilla rekstrarskulda frá fyrri árum þyrfti framlegð nú að vera svona nálægt 20%, en það dugar þó engan veginn öllum.
    Árið 1988 er það versta sem sjávarútvegur hefur gengið í gegnum á síðustu árum. Óhóflega þungur skuldabaggi á fyrirtækjum í upphafi árs, léleg afkoma og háir vextir lögðust þar á eitt og þessi vandi er þó ekki nýtilkominn. Um nokkurt árabil hefur rekstrartap í sjávarútvegi verið fjármagnað með erlendum lántökum í gegnum viðskiptabankana, Byggðastofnun og nú síðast Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og án þess að á því hafi verið gerðir útreikningar. Þá má gera ráð fyrir því að nettóskuld í hlutfalli við tekjur sé nú helmingi hærri en árið 1982 þegar gripið var til aðgerða vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjávarútvegsins. Það er rétt að undirstrika það að hér er ekki um að ræða vanda einstakra fyrirtækja eins og var á árum áður. Flest sjávarútvegsfyrirtæki eru að sökkva í skuldafenið og þar á meðal mörg fyrirtæki sem fram undir það síðasta hafa verið talin góð fyrirtæki. Gífurlegar skuldir sjávarútvegsfyrirtækja og áframhaldandi taprekstur er mesti byggðavandinn sem þjóðin stendur frammi fyrir. Hlutafjársjóðurinn getur ekki leyst nema lítinn hluta af þessum vanda. Ef afkoman verður áfram svipuð og hún hefur verið undanfarin ár verða flest fyrirtækin gjaldþrota áður en mörg ár líða. Sum þeirra eru það í reynd þótt þau séu enn í gangi. Það er því óhætt að segja að þörf sé á róttækum aðgerðum.
    Ég hef gert hér að umræðuefni þá atvinnugrein sem stofnunin hefur mest lánað til, eða um 2 / 3 af heildarútlánum. Ef við tökum landbúnaðinn, þó að hann sé miklu minni hvað snertir heildarútlán, er staða hans síst betri. Það er t.d. ekki glæsilegt í loðdýraræktinni. Ætli það sé ekki um 50% sem sú atvinnugrein hefur og vantar því 50% á móti til þess að komast á núllið. Í mörgum greinum í iðnaði eru erfiðleikar þó að þeir séu nú ekki eins miklir og í þessum tveimur atvinnugreinum. Margar greinar hafa sótt um lán hjá Byggðasjóði og sér í lagi hefur verið aukning á umsóknum vegna verslunar, en strjálbýlisverslunin er nú mjög hart keyrð. Stjórn stofnunarinnar hefur ekki treyst sér til þess að fara út í þessar lánveitingar.
    Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh. að því, af því að ég hef séð að ríkisstjórnin hefur tekið að sér það verkefni að reyna að láta fara fram athugun á stöðu strjálbýlisverslunarinnar: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í þeim efnum? Ég er ekki að spyrja að því sem stjórnarmaður í Byggðasjóði heldur vegna þeirra sífelldu kvartana og neyðarópa sem koma frá

versluninni í strjálbýli. Hvað er gert til þess að styrkja stöðu hennar og ná henni upp? Það er alveg sama hvort þar er um einstaklingsverslun að ræða eða samvinnuverslun, vandinn er jafnmikill hjá þeim báðum og síst minni í samvinnuversluninni, sem hefur verið stærri og vegið þyngra á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni. Byggðastofnun hefur ekkert fjármagn til að bæta við sig nýjum útlánum. Við höfum bætt við okkur verulegum útlánum í fiskeldi sem eru mikið áhættulán og þar verður að fara varlega. En í versluninni er brýn þörf á að gera úrbætur.
    Mér finnst rétt að geta hér um að á síðasta ári, eins og ég sagði áðan, fékk stofnunin 125 millj. kr. framlag frá ríkinu sem greitt var í fjórum greiðslum er dreifðust nokkuð jafnt yfir árið. Stofnunin greiddi hins vegar í erlendan lántökuskatt vegna skuldunauta sinna, hvort sem hún hefur innheimt þær greiðslur eða ekki, um 67 millj. kr. og einnig 0,25% ríkisábyrgðargjöld af erlendum lánum, sem samkvæmt útreikningi Ríkisábyrgðasjóðs, Framkvæmdasjóðs Íslands og Búnaðarbanka Íslands, eru u.þ.b. 11,3 millj. kr. Þá hafa lántakendur hjá stofnuninni á árinu 1988 greitt í stimpilgjald til ríkissjóðs 26,7 millj. kr. Með öðrum orðum hefur ríkið tekið aftur 105 millj. kr. af þessum 125 millj. kr. Það er því ekki um stóra fjárveitingu að ræða og getur ekki kallast styrkur við starfsemi Byggðastofnunar að fara þannig að.
    Nú nýlega skrifaði Byggðastofnun til Seðlabankans þar sem hún kvartar yfir því að stofnunin hafi lagt andvirði erlends láns á gjaldeyrisreikning hjá
Seðlabankanum og að hann hafi tekið 6% lántökuskatt af allri fjárhæðinni, eða 28,4 millj. kr., án samráðs við stofnunina. Eins og eðlilegt er tekur nokkurn tíma að lána út svo háa fjárhæð og hér var um að ræða, eða jafnvirði 7 milljóna SDR. Stofnunin hefur því ekki enn ráðstafað inneign sinni á gjaldeyrisreikningnum að fullu og er nú á þeim reikningum 914.000 bandaríkjadalir og 5200 DM og verða þær fjárhæðir ekki nýttar fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði. Lántakendur hafa af eðlilegu ástæðum dregið að hefja lán sín hjá stofnuninni eftir að sú umræða hófst að fella niður erlendan lántökuskatt.
    Þá mun hafa verið ákveðið af ríkisstjórninni að Byggðastofnun greiddi ekki og innheimti þar af leiðandi ekki 6% lántökuskatt vegna lána til skipasmíðaverkefna innan lands, en þar ákvað ríkisstjórnin og Alþingi samkvæmt lánsfjáráætlun að verja 200 millj. kr. á þessu ári. Frá áramótum hefur stofnunin innheimt þennan skatt af lánum til skipasmíðaverkefna. Þessi skattur nemur því um 2 1 / 2 millj. kr. á tímabilinu frá 1.--10. þessa mánaðar. Ég tel, og þá er mér óhætt að segja að ég mæli þar fyrir munn allra stjórnarmanna í Byggðastofnun, að vegna skipasmíðaverkefnisins eigi að leiðrétta það þannig að stofnunin geti endurgreitt sínum lánþegum það sem hefur verið tekið, eða tæplega 2 1 / 2 millj. kr., og vegna erlendra inneigna sem ekki hafa verið notaðar, eða 11,9 millj. kr. Stofnunin hefur þrátt fyrir þessa leiðréttingu sjálf greitt 9 1 / 2 millj. kr. í lántökuskatt á því tímabili sem skatturinn hefur verið í gildi umfram

það sem hún hefur getað innheimt af nýjum lánum. Þetta þýðir í reynd að Byggðastofnun hefur að hluta á tímabilinu tekið erlend lán til að fjármagna hlutabréfakaup sín, styrkveitingar og lán með bestu kjörum.
    Ég spyr því hæstv. forsrh., hvort hann ætli ekki að beita sér fyrir því að þessi endurgreiðsla eigi sér stað. Nú er í frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga gert ráð fyrir því að lántökuskatturinn verði felldur niður frá 1. júní. Því telja allir stjórnarmenn Byggðastofnunar eðlilegt að þessi endurgreiðsla eigi sér stað en ekki eigi að leggja nýjan skatt á þessa stofnun sem verður að sinna jafnmikilvægum og nauðsynlegum verkefnum og raun ber vitni og maður gæti flutt langt mál um. Ég hef heyrt það áður hjá hæstv. forsrh. að hann hefur talið að þessi lántökuskattur eigi ekki að leggjast á stofnunina og eitt af því sem enn þá réttlætir endurgreiðslu á því sem þegar hefur verið tekið er það misvægi sem hefur verið á milli Byggðastofnunar og Atvinnuútflutningsjöfnunarsjóðs. Þar hefur enginn skattur verið tekinn. Ég er ekki að gagnrýna það, en þarna eiga báðar þessar stofnanir að sitja við sama borð.
    Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þessi mál að þessu sinni þó að full ástæða hafi verið til. En ég vil í lok máls míns minna á það að verkefni Byggðastofnunar eru ótal mörg og mikilvæg. Eins og staðan er í atvinnulífinu í landinu og eins og munurinn er á því að búa úti á landi og hér á þessu svæði er full ástæða til að koma landsbyggðnni myndarlega til hjálpar umfram það sem þegar hefur verið gert. En til þess að ná árangri er ekki hægt að einhver ein stofnun taki að sér björgunarstarfið, stofnun eins og Fiskveiðasjóður. Stærstu bankarnir verða að vera samstiga í sambandi við viðhorfið til Hlutabréfasjóðsins, en ég held að þar sé mjög þungt fyrir fæti og mismunandi sjónarmið. Þó að stjórn Byggðastofnun sé sammála í því að gera sitt hefur stofnunin úr það litlu að spila að hún er aðeins lítið lóð á vogarskálina í þessum efnum. Til þess að ná árangri fyrir atvinnulífið sem víðast hvar um landið verður að vera samstaða þarna á milli.