Byggðastofnun
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Þessi skýrsla sem hér liggur fyrir vekur mann til umhugsunar um hvar íslenskt þjóðfélag er á vegi statt. Á undanförnum áratugum hefur orðið gífurleg röskun á búsetu fólks og umfangsmiklar og afdrifaríkar breytingar orðið á þjóðfélagsháttum sem síður en svo sér fyrir endann á né heldur til hvers kunni að leiða.
    Í lögum um Byggðastofnun stendur að hlutverk hennar sé að stuðla að þjóðfélagslegri hagkvæmni í þróun byggðar í landinu. Vissulega má spyrja hvernig henni hafi farist það og þar um er vafalaust meiningamunur. Einnig má spyrja hvernig byggðaþróunin hefði orðið hefðu aðgerðir stofnunarinnar ekki komið til. Því er þó tæpast hægt að svara nú. En hvað sem þessu líður verður því ekki á móti mælt að þróun byggðar í landinu hefur lengi verið þjóðfélaginu óhagstæð og í skýrslunni segir að það gefi tilefni til mjög ákveðinna aðgerða sem ekki eru þó skilgreindar. Skýrslan leiðir í ljós að miklu fé er varið til aðstoðar og fyrirgreiðslu atvinnuveganna og að 580 láns- og styrkbeiðnum var sinnt á sl. ári. Hún staðfestir einnig, sem mörgum er reyndar ljóst, að fjárveitingar til stofnunarinnar á fjárlögum hafa dregist verulega saman á undanförnum árum og lánþegar Byggðastofnunar greiða í lántökuskatt, stimpilgjöld og annan kostnað upphæð sem næstum því jafngildir fjárveitingunni til hennar, eins og hv. 1. þm. Vestf. drap á áðan. Ríkissjóður ber því ekki teljandi útgjöld vegna Byggðastofnunar þegar á allt er litið.
    Það er þó athyglisvert að þrátt fyrir að eigið fé Byggðastofnunar hafi haldið raungildi á starfstíma stofnunarinnar hefur eiginfjárhlutfall stöðugt lækkað og það stafar af því að mikill hluti starfseminnar er fjármagnaður með lántökum. Það er spurning hversu lengi getur gengið að stofnunin gangi á lánum, dýrum lánum. Það er nauðsyn að efnahagur þessarar stofnunar sé traustur, en eins og er hljóta menn að bera kvíðboga fyrir því hvort henni tekst að rækja hlutverk sitt í reyndinni.
    Nauðsyn er að finna nýjar leiðir til að styrkja og efla atvinnulíf á landsbyggðinni, eins og segir í skýrslunni. Stjórnvöld standa frammi fyrir því að ákveða hvort þau vilja veita meira fjármagni til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni eða horfast í augu við það að geta þjóðarbúsins til að fullnýta auðlindir til lands og sjávar minnki og að mismunur á kjörum íbúa á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu fari vaxandi og þar með togstreita milli íbúa þessara svæða. Í rauninni er sú togstreita sem menn tala um að sé milli búa þessara svæða tilkomin vegna mismunar á aðstöðu fólks, bæði til að njóta menntunar og til að njóta þjónustu. Sú aðstaða er víða alls ekkert í námunda við það sem menn gera kröfur til.
    Þegar litið er yfir lánveitingar, styrki og aðra fyrirgreiðslu sem stofnunin hefur veitt er augljóst að langmest fjármagn rennur til fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskvinnslu, sem e.t.v. er ekki að undra slík sem

staða þeirra var á síðasta ári og er raunar enn. Tíminn verður hins vegar að leiða í ljós hvort þessi aðstoð hefur nægt til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra. Mér fannst hv. 1. þm. Vestf. hafa töluverðar efasemdir um það í ræðu sinni áðan og margir óttast að það markmið hafi náðst. Að öðru leyti hefur stofnunin veitt aðstoð til hinna margvíslegustu mála sem koma landsbyggðinni til góða og ég nefni þar t.d. ferðaþjónustu, uppbyggingu smærri fyrirtækja og yfirleitt þeirra fyrirtækja eða atvinnugreina sem telja má að sé einhver vaxtarbroddur í. Hins vegar er staða þeirra atvinnugreina vitanlega ákaflega misjöfn. Byggðastofnun hefur gert töluvert til að styðja uppbyggingu nýrra atvinnugreina.
    Fóðurstöðvar í loðdýrarækt hafa fengið umtalsverða fyrirgreiðslu, svo og fiskeldisstöðvar. Það leiðir hugann að því hve Íslendingum er gjarnt að þjóta af stað í alls kyns fyrirtækjarekstur oft meira af kappi en forsjá. Loðdýrabúin hafa þotið upp um byggðir landsins en berjast nú undantekningarlaust í bökkum og sum eru á gjaldþrotsbarmi. Er ekki komið að því nú að setjast niður og meta þau mál á ný og hvernig framhaldið eigi að verða því ekki er bjart fram undan á heimsmarkaðinum í þessari grein? Það verður að segjast eins og er að þar hafa ýmis umhverfisverndarsamtök lagt sitt lóð á vogarskálina og hafa lagst á móti slíkum búskap, eins og t.d. með því að halda því fram að óeðlilegt og jafnvel ósiðlegt sé að rækta dýr --- loðdýr í búrum. Ýmis umhverfisverndarsamtök eru voldug og hafa mikið fjármagn til að vinna sínum málstað framgang og það má spyrja að því hvort ekki gæti eins farið með loðdýramarkaðinn í heiminum og fór með selskinnamarkaðinn forðum, þ.e. að hann hrynji. Ég held að það sé rétt að gæta að því.
    Um fiskeldið gegnir í raun sama máli og með loðdýrabúskapinn. Menn hafa þotið upp til handa og fóta um stofnun og rekstur slíkra stöðva að því er virðist í algeru skipulagsleysi og án þess að reikna með áhættu. Vafalaust á þessi grein framtíð fyrir sér. En jafnvel á stöðum þar sem nokkurn veginn mátti sjá fyrir fram að rekstur gæti ekki gengið voru þessar stöðvar settar á stofn. Það mundi ekki skaða þó menn færu með meiri gætni í sakirnar. Það vakna hjá manni efasemdir um hvort nógar rannsóknir um arðsemi og hagkvæmni liggi að
baki þegar menn ráðast í slíkar framkvæmdir því að svo er mönnum gjarnt þegar allt fer í strand að heimta fyrirgreiðslu frá því opinbera. Ég vil líka varpa fram þeirri spurningu hvort það sé rétt að hér á landi séu starfandi fiskeldisstöðvar sem ekki hafa tilskilin starfsleyfi. Einnig hvort Byggðastofnun veiti lán eða aðstoð til fiskeldisstöðva sem ekki hafa fullnægjandi mengunarvarnir hvað varðar lyf, rotvarnarefni og förgun úrgangs.
    Það vekur eftirtekt að samkvæmt skýrslunni hefur fólki ekki fækkað í sveitum. En á þéttbýlisstöðum út um land fækkar fólki og enn leitar það til höfuðborgarsvæðisins sem þenst út. Þessi þróun sem enn heldur áfram er háskaleg. Hún kallar á dýrar

framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, bæði íbúðabyggingar og skólabyggingar. Hún kallar á stjarnfræðilegar upphæðir til umferðarmannvirka sem ekki hefst undan að sinna og verður til þess að hér er meiri slysatíðni en þekkist nokkurs staðar í heiminum að mér skilst. Menn hljóta að bera ugg í brjósti um framtíðina, þ.e. hvernig takist að skapa vaxandi fólksfjölda á þessu svæði atvinnu og hvernig megi takast að halda uppi félagslegri þjónustu þegar fram í sækir. Þessi þróun er óhagstæð bæði fyrir borg og landsbyggð.
    Í skýrslunni stendur að á árinu 1988 hafi stofnunin unnið að úttekt á byggðaþróun á landinu að beiðni forsrh. í ljósi þeirrar ískyggilegu framvindu sem stofnunin bendir á um það sem ég nú hef verið að ræða. Þar er tekin til athugunar hugsanleg breyting á stefnu stjórnvalda í byggðamálum. Byggðastofnun telur öllu skipta að um þessi mál geti skapast víðtæk pólitísk samstaða. Það er augljóst mál að fækkun íbúa ár frá ári hlýtur að draga þrótt úr byggðum landsins. Afleiðingarnar eru síðan m.a. lægra fasteignaverð og samdráttur í framkvæmdum og af því leiðir síðan framtaksleysi og erfiðleikar við að vinna bug á vandanum. Í framhaldi af þessu er ljóst að fyllsta ástæða er til að taka mark á þeim orðum, sem ég vitnaði til áðan úr upphafskafla skýrslunnar, að byggðaþróun undanfarinna ára hafi verið mjög óhagkvæm og gefið tilefni til mjög ákveðinna aðgerða. Hvaða aðgerða?
    Fyrir um ári síðan stóð ég hér í ræðustól og til umræðu var skýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1987 og vil ég vitna í það sem ég sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þess vegna er það trúa mín að það sé ekki eftir neinu að bíða með stefnumörkun um hvernig við viljum búa í þessu landi. Viljum við halda byggðinni á svipuðum nótum og hún er nú? Viljum við stuðla að því að hún færist í það horf að vera færri og stærri þéttbýliskjarnar og dreifðir sveitabæir á milli eða verksmiðjubú? Það verður að fara að liggja fyrir hvaða leið á að fara um byggðaþróun. Fólk á heimtingu að fá að vita hvers það má vænta í þessum efnum og hvers konar þjóðfélagslegar breytingar við getum sætt okkur við og stjórnvöld verða að leggja fram tillögur sínar um hvernig þau telja eðlilegt að byggð þróist og leggja þær fyrir sjónir almennings. Það verður að efla getu byggðanna til að hafa meiri yfirráð um sín eigin mál og slíkt gerist ekki nema þær fái meiri umráð yfir eigin aflafé og að því verður að stefna ef einhver þróttur á að geta verið í byggð utan höfuðborgarsvæðisins.``
    Ég vil leyfa mér að halda því fram að starf Byggðastofnunar komi ekki að hálfu gagni meðan ekki liggur fyrir hvert við viljum stefna um byggðaþróun. Án þess hlýtur starf hennar að vera ómarkvisst og nýting fjárins sem hún lánar ekki sú sem best yrði á kosið. Byggðastofnun verður að starfa sjálfstætt, eftir ákveðinni stefnu og sú stefna ætti ekki að vera eftir geðþóttaákvörðunum ríkisstjórna á hverri tíð.

    En eitt mál vil ég þó minnast á sem án efa getur haft veruleg áhrif til hagsbóta fyrir landsbyggðina ef á því væri tekið og reyndar er ákvæði um það í stjórnarsáttmálanum. Það er að átak skuli gert í að efla atvinnu fyrir konur á landsbyggðinni. Eins og er er sú atvinna sem þær eiga kost á þar árstíðabundin, óviss og yfirleitt illa launuð. Ég held að það skipti meira máli en menn almennt gera sér ljóst að konur í dreifbýli eigi aðgang að atvinnu við sitt hæfi. Það má benda á margt í þeim efnum, t.d. fjarvinnustofur, en um það mál. bar hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir fram þáltill. í vetur. Mestu máli skiptir þó að menn séu fúsir til að hlusta á hvað konurnar sjálfar hafa til málanna að leggja í þessum efnum og taka tillit til óska þeirra og ábendinga. Þær skortir ekki hugmyndir og í því efni má benda á að samkvæmt rannsóknum í Bandaríkjunum síðustu ár kemur það í ljós að á móti hverju fyrirtæki sem karlmaður stofnar eru fimm fyrirtæki sett á laggirnar af konum. Karlmenn virðast eitthvað staðnaðir í hugmyndum en konurnar koma þar nýjar og ferskar og oft á allt öðrum nótum. Þær hafa aðrar hugmyndir um fyrirtækjasköpun. En trygg atvinna fyrir konur, bæði í dreifbýli og þéttbýli, um landsbyggðina kann að vera áhrifaríkari aðgerð til byggðafestu en margan grunar.
    Niðurstöður mínar af lestri þessarar skýrslu eru í fyrsta lagi þær að Byggðastofnun hafi gert umtalsverðar tilraunir til að sporna við þeirri öfugþróun um byggð í landinu sem hefur viðgengist undanfarin ár, þ.e. að fólk
flýi framleiðslustaðina en leiti í meiri og meiri mæli aðeins á einn stað og þá að mestu leyti í í þjónustustörf. Hvaða árangur þessi viðleitni ber liggur alls ekki ljóst fyrir enn. Í öðru lagi að höfuðnauðsyn er að treysta fjárhag stofnunarinnar og að hún fái aukið fjármagn sem ekki þarf að standa skil á við erlenda lánardrottna, eins og segir í skýrslunni, á ákveðnum degi og verði þess megnug að efla nýjungar í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Og í þriðja lagi að gagnsemi stofnunarinnar velti á því að ákveðin stefna sé mörkuð um það á hvaða nótum við viljum að byggð þróist í landinu. Því aðeins getur starf þessarar stofnunar verið markvisst og orðið landsbyggðinni til þeirrar eflingar sem henni er nauðsyn.