Lögreglumenn
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. allshn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breytingu á lögum um lögreglumenn. Allshn. fjallaði um málið í gær og til fundar við hana komu Gylfi Thorlacius lögfræðingur og Þorgrímur Guðmundsson, formaður Lögreglufélags Íslands.
    Frv. gerir ráð fyrir breytingum sem varða það að engan megi ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1990 nema hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Þó eru gerðar undantekningar varðandi þetta ákvæði um skipverja á varðskipum ríkisins, tollverði og héraðslögreglumenn og varalögreglumenn.
    Í öðru lagi er hér lagt til að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.
    Nefndin leggur einróma til að frv. verði samþykkt eins og Nd. afgreiddi það, þ.e. óbreytt. Undir það rita allir nefndarmenn. Guðrún Agnarsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.