Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég hef síður en svo á móti því að hv. samgn. fái til fundar eftir því sem tími gefst til og mögulegt er viðurkennda sérfræðinga sem að þessu máli geta komið og ég tek fram að af þeim sjónarmiðum hefur verið vitað og þau hafa verið ítarlega skoðuð, en þetta hefur engu að síður orðið niðurstaða þeirra sem þetta frumvarp sömdu og eftir vandaða lögfræðilega skoðun eru menn sammála um að þeir sem að frumvarpinu stóðu, bæði tveir lögfræðingar sem upphaflega sömdu það sem og fleiri sem leitað hefur verið til, að leggja til grundvallar stjórn þessara mála þetta skipulag. En það er vel vitað að um þetta atriði eru deildar meiningar í lögfræðingastétt.
    Hér er rétt að hafa í huga að á ferðinni er nokkuð sérstakt stéttarfélag og í raun er kannski óheppilegt að nota það orð að ýmsu leyti því að hér er um að ræða ákveðið gæslufélag tiltekinna réttinda en ekki stéttarfélag í skilningi þess orðs sem menn leggja í félög sem lög um stéttarfélög og vinnudeilur helst skilgreina. Hér er um að ræða félagsskap sem er aðili að stjórn og skipulagi þessara mála. Ég held að allir séu sammála um að það sé óhjákvæmilegt að unnt sé að hafa um þetta skipulag af því tagi sem hér á við. Það er reyndar reynsla allra þjóða að fullnægjandi þjónustu verði ekki haldið uppi nema unnt sé að byggja hana á einhverju slíku skipulagi.
    Mér eru mjög vel ljós þau vandkvæði og sá ágreiningur sem uppi hefur verið á Suðurnesjum um þetta mál og sú staðreynd að þar eru starfandi tvö félög sem ekki hefur tekist samkomulag um að sameina.
    Frumvarpið var upphaflega lagt fram með þeim hætti að þar var ótímabundin heimild, að vísu var það kallað til bráðabirgða, til að veita undanþágu frá því ákvæði að allir skyldu vera í einu og sama stéttarfélagi á sama svæði. En samgn. hv. Nd. breytti þannig 1. mgr. 5. gr. að það skyldi aðeins heimilt að veita þá undanþágu í tvö ár og væntanlega hefur hún lagt þá hugsun til grundvallar að það yrði að nýta þann tíma til að koma á sameiningu félaga ef ekki væri þegar um eitt félag að ræða.
    Ég gæti eftir atvikum fallist á að frumvarpinu yrði aftur breytt meira í líkingu við það sem það upprunalega var og e.t.v. væri rétt að binda þá heimild við það að þar sem annað fyrirkomulag væri fyrir hendi við gildistöku laganna væri heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 5. gr. um óskilgreindan tíma á meðan unnið væri að því að koma á varanlegu skipulagi á grundvelli almennra ákvæða laganna mætti það verða til samkomulags um þetta efni. ( JE: Það er nú þegar búið að eiga sér stað 30 ára stríð.) Mundi ég þá beina þeim tilmælum til hv. samgn. að hún athugaði það atriði í leiðinni.
    Meira hef ég ekki um þetta að segja, virðulegur forseti. Ég verð enn að leggja áherslu á að það er mjög bagalegt ef það dregst að þessi lög fáist samþykkt vegna þeirra erfiðleika sem uppi eru í stjórn

þessara mála á grundvelli þeirra gömlu og ófullkomnu lagaákvæða sem í gildi eru.