Launavísitala
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. og sömuleiðis í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. er samviskusamlega upp talið hvaða aðilar það voru sem komu til viðtals við nefndirnar. Það er stutt um viðhorf allra þessara aðila að segja að þeir sáu ýmis tormerki á þeirri lagasetningu sem hér er um að ræða og lýstu sig andsnúna frv. þannig að þó svo að fjh.- og viðskn. hafi fengið margvíslegar upplýsingar og ábendingar við meðferð og athugun málsins hefur það ekki skipt neinu máli né haft nein áhrif á þá nefndarmenn sem skipa sér í sveit stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hér á hinu háa Alþingi.
    Nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. er stutt, einungis vísað til þess rökstuðnings sem fram kemur í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. og með sömu ályktunarorðum að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar, heim til föðurhúsanna. Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að lesa hér upp nefndarálitið. Það liggur fyrir í þingskjölum og á borðum þingmanna og auðvitað einungis eyðsla á prentsvertu og pappír ef við í minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. hefðum látið prenta þann rökstuðning upp í sérstöku þingskjali þó svo að einstökum orðum hefði verið vikið til.
    Ég vil, herra forseti, vekja athygli á því að forseti Alþýðusambands Íslands, sem sæti á í kjararannsóknarnefnd, telur að grundvöllur launavísitölunnar sé mjög ótryggur og gerir athugasemdir við þann útreikning sem hér er viðhafður og telur að skekkjumörk séu veruleg með hliðsjón af þeirri miklu þýðingu sem launavísitalan hefur í sambandi við fjárskuldbindingar manna og ég hygg að það hafi verið samdóma álit allra þeirra sem nefndin fékk til viðtals að sá gagnmerki og góði embættismaður, hagstofustjóri, sé ekki öfundsverður af að axla þá ábyrgð sem þessi launavísitala leggur honum á herðar eins ótraustur og grundvöllurinn er, en um leið kom fram að hagstofustjóri ber fullt traust til kjararannsóknarnefndar. Ég vek athygli á því að þegar er búið að höfða eitt mál til ógildingar þeirri lánskjaravísitölu sem tekin var upp um áramótin sem auðvitað sýnir okkur á hversu ótraustum grunni sú lagasetning er sem hér er verið að efna til og ég vil sérstaklega minna á það að Hæstiréttur hefur lögum samkvæmt, venju samkvæmt og sögulega fullan rétt á að kveða upp dóm sem er í ósamræmi við sett lög ef honum virðist sem lagasetning Alþingis brjóti í bága við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ( EG: Þó það nú væri.) og auðvitað er efnt til slíks ágreinings með því að halda þessu máli til streitu. Það er efnt til mikillar réttaróvissu.
    Í öðru lagi kom það fram hjá forseta Alþýðusambands Íslands að það sé meira en möguleiki, það sé í raun fyrirsjáanlegt með hliðsjón af fortíðinni að mælikvarði launavísitölunnar kunni að sýna hækkun á launum í landinu þó svo að þeir launþegar sem einungis verða að sætta sig við launataxta hafi orðið fyrir kjaraskerðingu vegna þess

að felld hafi verið niður yfirvinna. Þessi nýja launavísitala mælir með öðrum orðum ekki endilega hvort sá almenni launþegi búi við batnandi eða versnandi kjör. Launavísitölunni er ekki ætlað að mæla þá þætti.
    Í þriðja lagi vil ég leggja áherslu á að öll meðaltöl eru hættuleg. Ég held ég geti fullyrt að talsmenn allra flokka á Alþingi hafa undir ýmsum kringumstæðum lýst því yfir hversu hættulegt það sé að festa sig við meðaltölin þó svo að þau gefi rétta mynd sem slík. Ég hygg að sú ábending sé einnig rétt, sem fram kom frá viðmælendum nefndarinnar, að launavísitalan mun hafa áhrif á þær launakröfur sem gerðar eru af einstökum starfshópum. Ég man ekki, herra forseti, á hvaða hundraðinu þau stéttarfélög eru í landinu sem hafa sjálfstæðan samningsrétt og sjálfstæðan verkfallsrétt. Ég skal ekki segja hvort þau eru 200. En fjöldi slíkra félaga er ótrúlega mikill. Ég hygg því að launavísitalan muni með margvíslegum hætti ýta og kynda undir óraunhæfar launakröfur, kynda undir að verðbólgubálið brenni glaðar og hraðar í framtíðinni en nú er og þykir þó mönnum nóg um.
    Ég vil síðast en ekki síst, herra forseti, í þessu sambandi aðeins minna á þá kjarasamninga sem ríkisstjórnin hefur nú gert, annars vegar við forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hins vegar við háskólamenntaða menn í þjónustu ríkisins. Það er deginum ljósara að það er ekki samræmi á milli þessara kjarasamninga tveggja og algjörlega ljóst að sú launavísitala sem hér er lagt til að lögfesta muni halla á þá félagsmenn sem eru í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þeir menn sem komu á fund fjh.- og viðskn. Ed. fluttu mál sitt mjög vel, voru rökfastir og höfðu mikla grundvallarþekkingu á því viðfangsefni sem við vorum að fást við. Allir þessir menn vöruðu við því að þetta frv. yrði samþykkt. Það var eins og að skvetta vatni á gæs og verð ég þó að biðja gæsirnar afsökunar á því að nota þær í líkingamáli sem tákn fyrir þá hv. þm. sem styðja þá ríkisstjórn sem nú situr. Ég legg með öðrum orðum til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.