Launavísitala
Föstudaginn 19. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég komst því miður ekki á fund hv. fjh.- og viðskn. Ed. í morgun þar sem var verið að ganga frá og afgreiða út úr nefndinni frv. til l. um launavísitölu. Ég sat hins vegar fund nefndarinnar í gær þar sem við fjölluðum um þetta mál.
    Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni, sem er í raun skoðun okkar þingmanna Borgfl., að aðalatriði málsins finnst mér vera að hvers konar vísitölur megi ekki með neinum hætti tengja sjálfvirkt við laun né fjárskuldbindingar. Við höfum lagt áherslu á að það eigi að túlka vísitölur sem mælieiningu eða mæli sem sýni hvert er ástand ákveðinna þátta í þjóðfélaginu hverju sinni. Sem slíkar geta vísitölur verið afar gagnlegar og sjálfsagt að reikna hvers kyns vísitölur og birta þær reglulega til þess að hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu eigi þess kost að fylgjast náið með hvert er ástand hinna ýmsu þátta efnahagslífsins sem okkur skipta máli. Þannig hef ég t.d. aldrei amast neitt við því þó að lánskjaravísitala verði um alla framtíð reiknuð og birt þannig að menn geti haft hana til viðmiðunar þegar verið er að semja um fjárskuldbindingar manna á milli. Í sjálfu sér hefði ég því ekkert við það að athuga að það yrði tekin upp einhvers konar launavísitala í þeim dúr sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En það sem ég set fyrir mig er það að hún skuli síðan innreiknuð í hina nýju lánskjaravísitölu sem svo á aftur á sjálfvirkan hátt að stýra með hvaða hætti fjárskuldbindingar breytast frá mánuði til mánaðar. Það er þetta atriði málsins sem ég get á engan hátt sætt mig við. Því get ég ekki stutt að þetta frv. nái fram að ganga. Ef það væri gulltryggt að það væri vilji manna að afnema þessar sjálfvirku vísitölubindingar, sem ég tel að séu fyrst og fremst þess valdandi hvað efnahagslíf landsmanna stendur á miklum brauðfótum og reyndar atvinnulífið með, hefði ég ekkert við þetta frv. að athuga. En meðan við höldum þessari sjálfvirku tengingu vísitalna við efnahagslífið og ruglum þar með hinar ýmsu stærðir þess get ég ekki stutt breytingu sem þessa.