Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. félmn. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá 1. minni hl. félmn. Ed. 1. minni hl. leggur til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og vísar til m.a. nál. 1. minni hl. félmn. Nd. varðandi afstöðu sína.
    Það þarf ekki, virðulegi forseti, að fara mörgum orðum um það að um þetta frv. er verulegur ágreiningur og hefur farið fram ítarleg umræða um það í hv. Ed. Eins og fram kom í ræðu frsm. meiri hl. nefndarinnar hefur félmn. haldið marga fundi um þetta mál og kallað á sinn fund marga sérfróða menn í þessum málum. Auk þess hafa verið tilkvaddir forustumenn úr samtökum vinnuveitenda og launþega sem eru aðilar þessa máls allt frá því að frv. til l. var samþykkt í ársbyrjun 1986 um nýskipan húsnæðismála.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að sú nýskipan sem tekin var upp í upphafi árs 1986 hefur ekki reynst sem skyldi þannig að það hefur kallað á þörf fyrir að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur í húsnæðismálum. Nú hefur svo keyrt um þverbak á síðustu mánuðum eða missirum að það húsnæðismálakerfi sem við búum við er algerlega ófullnægjandi og til stórskaða bæði fyrir einstaklinga sem þjóðina í heild.
    Sjálfstfl. hefur fyrir sitt leyti léð máls á því að það verði reynt að fara inn á þær brautir sem það frv. gerir ráð fyrir sem lagt var fram á sínum tíma, en við meðferð málsins, þ.e. meðferð þeirra hugmynda sem komu frá nefnd um þetta mál, hefur m.a. félmrn. sem og stjórnarflokkarnir breytt meginefni frv. þannig að úr því hefur orðið það frv. sem hér liggur fyrir. Það frv. teljum við sjálfstæðismenn algerlega ófullnægjandi og stefni ekki inn á þær brautir sem um var talað þegar viðkomandi nefnd var sett á laggirnar.
    Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í þessu frv. eru ákveðin ákvæði sem eru algerlega óskyld því efni sem meginmáli skiptir sem er að reyna að koma upp ákveðinni tegund húsbréfaviðskipta. Þá hefur áliti milliþinganefndar verið breytt í grundvallaratriðum og einnig vil ég vekja athygli á því, virðulegi forseti, að áhrif þessa frv. á fjármagnsmarkaðinn og þar með á það vaxtastig sem upp úr því kæmi eru mjög óljós svo að ekki sé meira sagt. Við óttumst það, sjálfstæðismenn, að þetta frv. muni ekki leiða til þeirrar vaxtalækkunar á íbúðalánum sem við höfðum gert okkur vonir um ef farið hefði verið að tillögum milliþinganefndar um framtíðarskipan þessara mála.
    Þá viljum við vekja athygli á því, virðulegi forseti, að varðandi vaxtabætur liggja ekki fyrir svo ljósar tillögur að það sé hægt að styðja þetta frv. Það er algert skilyrði að þær vaxtabætur sem lofað var í sambandi við frv. milliþinganefndar kæmu að fullu til framkvæmda gagnvart láglaunafólki, en við teljum að sú trygging sé ekki fyrir hendi sem skyldi.
    Þá er einnig vert að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að það er auðvitað naðsynlegt í jafnveigamiklu máli sem þessu að um það takist víðfeðmt samkomulag. Það hefur því miður ekki gerst og vek

ég athygli á því að jafnfjölmenn samtök launamanna og Alþýðusamband Íslands hafa lýst mikilli andstöðu við málið eins og það liggur fyrir hinu háa Alþingi í dag.
    Í stuttu máli er það skoðun okkar sjálfstæðismanna að þetta mál hafi breyst svo í meðförum frá því að það var lagt fram af hálfu milliþinganefndar að við getum ekki stutt það í núverandi mynd. Ég vil þó taka skýrt fram að Sjálfstfl. hefur áhuga fyrir því að þróa mál inn á þær brautir að upp verði tekið einhvers konar húsbréfakerfi. Okkar hugmyndir ganga út á að með því væri sú grundvallarbreyting gerð í sambandi við t.d. skyldukaup lífeyrissjóðanna að þeim væri gert frjálst að fara inn á þennan markað og þá með þeim hætti að prósentan lækkaði. Ég hef ástæðu til að halda að hæstv. félmrh. hefði viljað ganga mun lengra en frv. sem hér liggur fyrir, t.d. þannig að skyldukaup lífeyrissjóðanna sem nú eru 55% hefðu lækkað allverulega með þar af leiðandi vaxtalækkandi áhrifum úti á hinum frjálsa markaði.
    Í stuttu máli, virðulegi forseti, vil ég ítreka að við leggjum til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnar til þess að hún geti betrumbætt það og lagt það fram á hausti komanda.