Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. félmn. (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. félmn. sem kemur fram á þskj. 1268.
    Ég byrja á því að gera grein fyrir því að mér þykir að við höfum fengið mjög skamman tíma í félmn. Ed. til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Hér er um mjög flókið og erfitt mál að ræða sem í raun krefst þess að það sé farið mjög rækilega niður í málið og það sé grandskoðað frá öllum sjónarmiðum. Sérstaklega er nauðsynlegt að fá tækifæri til að hlýða á sjónarmið hinna fjölmörgu aðila sem hafa hér hagsmuna að gæta.
    Nú skal viðurkennt og það er að sjálfsögðu staðreynd að í Nd. fékk málið mjög ítarlega umfjöllun. Kannski sýnir þetta betur en margt annað að það er e.t.v. full ástæða til að velta því fyrir sér hvort það séu heppilegar vinnuaðferðir, sem gilda á hinu háa Alþingi, að það séu starfandi tvær deildir og þær skuli eiga að fjalla um þessi stóru mál hvor á sinn hátt með sjálfstæðum nefndarstörfum. Ég sé ástæðu til að nefna þetta af því að mér finnst að vinna okkar í hv. félmn. Ed. hafi verið svolítið yfirborðskennd vegna þess að við höfðum ekki nægan tíma til að fara ofan í málið. Því var borið við að málið hefði fengið svo ítarlega meðferð í Nd. Ég rifja upp að ég tók þátt í starfi með nefnd þar sem var fjallað um tillögur norskra ráðgjafa sem voru að gera úttekt á starfsháttum Alþingis. Þeir bentu á að það væri kannski spor í rétta átt að sameina nefndalínur þingsins þannig að það væri þá aðeins starfandi ein félmn. Þá hefði máli verið vísað til sömu nefndar hvort sem það var í vinnslu í Ed. eða í Nd. Það er út af fyrir sig athyglisvert og þessi málsmeðferð sýnir einmitt að það er full ástæða til að velta þessu betur fyrir sér.
    Þó að við hefðum ekki langan tíma til þess að fjalla um þetta mál fengum við þó á fund nefndarinnar fulltrúa nokkurra aðila og áttum við þá mjög fróðlegar og gagnlegar umræður þar sem kom mjög margt merkilegt fram sem ég tel að varpi ljósi á þetta flókna mál. Fyrstir komu á okkar fund fulltrúar Seðlabanka Íslands. Kom berlega í ljós að því miður hefur ekki farið fram nein athugun á því hvaða áhrif húsbréfin samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir muni hafa á peningakerfi landsmanna. Eins var næsta óljóst með hvaða hætti Seðlabankinn virkar sem viðskiptavaki fyrir húsbréf. Kom m.a. fram það álit fulltrúa Seðlabankans að húsbréf yrðu vart álitin verða eins álitlegur kostur og spariskírteini ríkisins. Þar er fyrst og fremst sá munur að húsbréfin eru til 25 ára, það er a.m.k. það sem er fyrirhugað samkvæmt frv., en spariskírteinin eru yfirleitt til mun skemmri tíma sem gerir að þau eru álitlegri sem fjárfesting. Þess vegna er erfitt að meta hvaða ávöxtunarkröfu markaðurinn mun gera í sambandi við húsbréfin.
    Þá spurðumst við fyrir um með hvaða hætti Seðlabankinn hygðist tryggja sölugengi bréfanna sem viðskiptavaki. Kom þá fram að það væri hugmynd þeirra að á kaupþingi væri Seðlabankinn með

kauptilboð í húsbréf, en það væri hins vegar alveg ljóst að ef um mikið framboð af húsbréfum yrði að ræða mundi Seðlabankinn að sjálfsögðu verða að lækka kauptilboð sitt. Því er ekki hægt að segja fyrir um hvaða afföll gætu orðið á þessum bréfum. Ég hefði talið að það hefði verið alveg bráðnauðsynlegt --- auðvitað er það hægt enn þá og veit ég að hæstv. félmrh. mun eflaust beita sér fyrir því og er gaman að fá kannski upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra á eftir --- að Seðlabankinn láti fara fram athugun á þessu atriði sérstaklega. Ég held að það sé nauðsynlegt að gerð verði sérstök athugun á þessu og það verði lögð fram um það greinargerð af hálfu Seðlabankans hvernig hann sér fyrir sér að húsbréfin muni haga sér á verðbréfamarkaði.
    Þá komu til fundar við nefndina fulltrúar Alþýðusambands Íslands og lýstu þeir yfir eindreginni andstöðu við húsbréfafrv. í því formi sem það liggur fyrir. Þeir töldu að það væri tiltölulega auðvelt að lagfæra gildandi húsnæðiskerfi þannig að það væri hægt að komast hjá hinum löngu biðröðum sem er aðalvandamálið sem blasir við þegar farið er að ræða gamla húsnæðiskerfið. Þeir bentu m.a. á að það vantar um 2 milljarða framlag ríkisins í byggingarsjóðina samkvæmt samkomulaginu 1986. Töldu þeir að ef ríkið hefði staðið við sinn hluta samningsins sem gerður var 1986 yrði vart um neinar biðraðir að ræða. Ég held að allir geti verið sammála um að það er nú með Byggingarsjóð ríkisins eins og aðra opinbera lánasjóði að ríkið hefur tregðast við að sinna skyldum sínum um framlög til hinna ýmsu sjóða og þar af leiðandi kemur mér ekkert á óvart í sjálfu sér þó að vanti þarna 2 milljarða kr. af framlagi ríkisins. Þetta er sá hlutur sem við horfum upp á ár hvert við meðferð lánsfjárlaga í þingi. Í þeim er heill kafli um með hvaða hætti ríkið hyggst skerða framlög til hinna ýmsu sjóða svo að þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart.
    Fulltrúar ASÍ hafa sem fleiri miklar áhyggjur af því að húsbréfalánin geti orðið með mjög háum vöxtum og það verði rífleg affallaviðskipti þegar húsbréf verða höndluð á markaðnum. Þetta gæti síðan leitt til mikillar greiðslubyrðar lántakenda. Þeir töluðu m.a. um að húsbréfakerfið gæti valdið vaxtasprengingu
á markaðnum því að þeir gátu séð það fyrir sér að 10 þúsund manns af biðlistanum muni e.t.v. fara út á markaðinn og slást um að kaupa hinar 5000 íbúðir sem eru á markaðnum á ári hverju. Það er talað um að tæplega 5000 íbúðir gangi kaupum og sölum árlega. Ef þessum 10 þúsund manns yrði att saman til að kaupa þessar tæplega 5000 íbúðir sjá menn fyrir sér að það gæti valdið gífurlegri vaxtasprengingu. Þeir hafa enn fremur miklar áhyggjur af því fólki sem mundi fara út í slík húsbréfaviðskipti eða húsbréfalán. Fólk sem kannski er á biðlistanum og bíður eftir lánum með niðurgreiddum vöxtum en hefur ekki þolinmæði til að bíða og mundi því fara út í húsbréfalán eða eins og þeir orðuðu það: að óþolinmæðin mundi verða skynseminni yfirsterkari.

Þeir höfðu því áhyggjur af því að þetta fólk mundi lenda í miklum greiðsluerfiðleikum og þetta mundi sem sagt verða til þess að íþyngja mjög greiðsluerfiðleikadeild Húsnæðisstofnunar sem hefur þó ærinn starfa fyrir.
    Þá höfðu fulltrúar Alþýðusambandsins mjög miklar áhyggjur af vaxtabótakerfinu. Þeir töldu að það mundi reynast mjög erfitt í framkvæmd og í raun --- og þar verð ég nú að taka undir með fulltrúum Alþýðusambandsins --- tortryggja þeir mjög ríkisvaldið í þessu efni. Það hljómar að vissu leyti vel að ríkisvaldið lofi ákveðnu heildarfjármagni til að endurgreiða vexti allt eftir efnum og aðstæðum hvers og eins, en það er ákaflega þægilegt fyrir ríkisvaldið að draga hægt og sígandi úr framlagi til vaxtabóta þannig að smátt og smátt muni lántakendur verða að greiða fulla markaðsvexti. Ég tek eindregið undir það með þeim sem hafa áhyggjur af því að ríkið sjái sér hag í því að draga úr vaxtabótum. Kerfið verður svo flókið að það verður afar erfitt að hafa yfirsýn yfir það og þar af leiðandi ákaflega erfitt fyrir hvern og einn að meta hvort hann hafi fengið eðlilegar vaxtabætur þannig að húsnæðislán viðkomandi séu með hæfilegum vöxtum sem eðlilegir geti talist.
    Þá áttum við líflegar umræður um þátt lífeyrissjóðanna og um form sjálfra húsbréfalánanna. Það kom fram hjá fulltrúum ASÍ að þeir eru sammála okkur þingmönnum Borgfl. að það er lykilatriði í sambandi við húsbréfakerfi og húsbréfalán að það verði með sama hætti og gagnvart öðrum lánsformum að ýmist seljandi eða kaupandi verði að sækja um slík lán. Það verði ekki um þessi hömlulausu skuldabréfaskipti að ræða sem ég hef séð fyrir mér að gerist með eftirfarandi hætti. Á frjálsum fasteignamarkaði hjá einhverjum óháðum aðilum úti í bæ kemst á samningur milli kaupanda og seljanda íbúðar og um leið og kaupandi hefur skrifað undir staðlað skuldabréf, sem svo er kallað, hleypur seljandi með það upp í Húsnæðisstofnun ríkisins og fær því skipt út fyrir húsbréf sem hann getur síðan farið og selt eða notað til annarra hluta. Talsmenn húsbréfakerfisins samkvæmt því frv. sem liggur fyrir hafa verið með ýmsar mótbárur þegar þetta atriði er rætt og talað um að það megi beita því með þessum eða öðrum hætti. Húsnæðisstofnun eigi að rannsaka greiðslugetu kaupandans og sömuleiðis eigi að rannsaka veðhæfni þeirrar íbúðar sem hefur verið seld, en aðrir sem hafa mikla reynslu af fasteignaviðskiptum segja að þetta þurfi ekki að taka nokkurn einasta tíma. Með því að kalla upp á tölvuskjá viðkomandi kaupanda megi kannski á 30 sekúndum komast að því hvort hann sé talinn lánshæfur, þ.e. hvort hann sé borgunarmaður fyrir slíku láni. Það taki ekki nema aðrar 30 sekúndur að kalla fram upplýsingar um viðkomandi íbúð til þess að kanna hver sé veðhæfni hennar. Þar af leiðandi ætti ekki að þurfa að taka nema kannski 5--10 mínútur að skipta á skuldabréfinu og húsbréfum uppi í Húsnæðisstofnun. Það eina kannski sem gæti gerst væri að það yrði allmyndarleg biðröð við

afgreiðsluborðið í Húsnæðisstofnun þar sem þessi skuldabréfaskipti fara fram. Sú biðröð gæti orðið býsna löng.
    Þetta finnst mér vera grundvallaratriði og ákaflega óskynsamlegt hvernig hér er staðið að málum. Í raun er ákaflega auðvelt að laga þetta í frv., þ.e. hin eðlilega leið er að sjálfsögðu sú að seljandi íbúðar sækir um eignaskiptalán til húsbréfadeildar og/eða kaupandinn sækir um lán til kaupa á íbúð. Þar með getur húsbréfadeild farið yfir slíkar umsóknir á eðlilegan hátt og með því er komin eðlileg bremsa í þetta kerfi sem allar aðrar þjóðir vilja nota. Við höfum hvergi nokkurs staðar getað grafið upp húsbréfakerfi sem er í gangi annars staðar í nágrannalöndum okkar þar sem slík hömlulaus viðskipti eru í gangi eins og fyrirhuguð eru með þessu frv.
    Síðan ræddum við töluvert um hvort það væri ekki miklu eðlilegra eins og við þingmenn Borgfl. lögðum til á sínum tíma að fela lífeyrissjóðunum að koma á slíku húsbréfakerfi við hliðina á Húsnæðisstofnun ríkisins. Í raun má segja að langstærsti hluti þess fjármagns sem notaður er til húsnæðislána í landinu komi beint frá lífeyrissjóðunum. Þá vaknar sú spurning hvort það sé eðlilegt að lífeyrissjóðirnir byrji á því að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins sem síðan búi til húsbréf sem lífeyrissjóðirnir eigi svo að kaupa aftur til þess að einhverjir aðilar getið fengið peningalán út á slík húsbréf. Það er eins og það sé verið að fara með þessa peninga í marga hringi áður en þeir verða að húsnæðislánum með þessum hætti. Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi að það er miklu, miklu skymsamlegra að fela einfaldlega lífeyrissjóðunum að koma á slíku húsbréfakerfi og reka það við hliðina á
Húsnæðisstofnun ríkisins. Hún færi svo smátt og smátt inn í það meginverkefni, sem ég tel að eigi að vera meginverkefni hennar, að sinna félagslegum íbúðum og lánveitingum vegna þeirra en láta lífeyrissjóðunum eftir að sjá um almenna markaðinn, sjá um húsnæðislán til þeirra sem standa traustum fótum og þurfa ekki á sérstakri aðstoð að halda til að geta tekið lán til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði. Þetta er svo mikið lykilatriði og þetta er svo augljóst að ég eiginlega skil ekki að menn skuli ekki vilja fallast á þetta sjónarmið. Ég hef látið umsögn Alþýðusambandsins fylgja með nál. þar sem þetta kemur fram, en þótti rétt að ítreka þetta.
    Við fengum á fund nefndarinnar Guðmund J. Guðmundsson, fulltrúa Verkamannasambands Íslands, en hann og stjórn Verkamannasambandsins lýsir yfir stuðningi við frv. Það kom fram í máli Guðmundar að Verkamannasambandið hefur fyrst og fremst áhyggjur af hinum löngu biðröðum sem eru í núverandi kerfi og eru þeir ekkert einir um að hafa áhyggjur af því. Hann bendir líka á að það er algengt að skjólstæðingar hans, þ.e. félagar í Verkamannasambandinu, hafa leiðst út í að taka dýr skammtímalán meðan þeir bíða eftir húsnæðislánum í hinni löngu biðröð. Það hefur svo aftur orðið til þess

að þeir hafa lent í miklum greiðsluerfiðleikum. Ég skil því vel sjónarmið Verkamannasambandsins að þeir vilja reyna að finna leið út úr þessu kerfi sem ekki virkar vel og geta út af fyrir sig allir verið sammála því. Hins vegar fannst mér eins og það kæmi fram hjá fulltrúa Verkamannasambandsins að í sjálfu sér er honum alveg sama um húsbréfakerfið. Hann telur nefnilega að með húsbréfakerfinu muni biðröðin styttast mjög fyrir hans skjólstæðinga sem munu áfram vera í biðröðinni, bara miklu styttri biðröð, eftir venjulegum húsnæðislánum með niðurgreiddum vöxtum frá Húsnæðisstofnun ríkisins, en það verði einhverjir aðrir sem lendi í húsbréfakerfinu og þar af leiðandi hefur hann í sjálfu sér engar áhyggjur af húsbréfakerfinu sem slíku. E.t.v. er stuðningur Verkamannasambandsins við húsbréfakerfið í því fólginn að með þessu álítur Verkamannasambandið að skjólstæðingar þess muni eiga greiðari aðgang að venjulegum hefðbundnum húsnæðislánum með niðurgreiddum vöxtum. Það verði aðrir sem lenda í húsbréfakerfinu.
    Það var gaman að heyra í formanni Félags fasteignasala, Þórólfi Halldórssyni, en fasteignasalar eru að sjálfsögðu mjög ánægðir yfir þessu frv. ( GuðmÁ: Það væri annaðhvort.) Það væri nú annaðhvort, segir hv. þm., og get ég tekið undir það. Ég hef víst einhvern tíma lýst því í ræðu að það má helst líkja viðbrögðum fasteignasala við kött sem hefur fengið rjóma í skálina. En fasteignasalar, þ.e. formaður Félags fasteignasala, telja að að sjálfsögðu muni húsbréfakerfið létta á biðröðinni og auðvelda fasteignaviðskipti. Ég er út af fyrir sig sammála því að auðvitað gerist það. Þetta mun auðvelda fasteignaviðskipti. Það er ekki nokkur vafi á því. Það má kannski segja að það sé mikill hagur fasteignasala að það gerist svo að ég er ekki hissa á því þó að þeir taki undir og vilji styðja þetta. Annað væri í raun og veru óeðlilegt.
    Ég var hins vegar ekki alveg sáttur við rök fulltrúa fasteignasala fyrir því að það væri ekki hætta á því að verð fasteigna mundi hækka við hömlulaus húsbréfaviðskipti. Ég hef miklar áhyggjur af því að þessi hömlulausu húsbréfaviðskipti gætu orðið þess valdandi að fasteignaverð hækki verulega vegna þess að það verður svo auðvelt að selja fasteignir. Það verður tilhneiging hjá seljendum sem eiga að fá húsbréf í staðinn fyrir peninga fyrir fasteign sína, sem þeir ætla að selja með þessum hætti, innan við 65% af verðmæti fasteignar, að reyna að þrýsta verðinu upp til þess að geta fengið sem mest af þessum húsbréfum sem þeir þá reyna að breyta í peninga. Ég hef borið þetta atriði undir sérfræðinga erlendis sem eru gerkunnugir húsbréfaviðskiptum eins og hér er verið að tala um og þeir eru allir sammála því að það sé útilokað annað en að verð fasteigna muni fara hækkandi við slík viðskipti sem hér eru lögð til. Það sé einfaldlega eðli slíkra viðskipta.
    Ég varpa fram þeirri spurningu hvort frjáls fasteignaviðskipti á frjálsum markaði og ríkistryggð húsbréf geti átt saman. Ég hef ekki fengið svar við

því og í raun finnst mér að með þessu frv. sé ríkið að takast það á hendur að ætla að ábyrgjast öll fasteignaviðskipti landsmanna héðan í frá. Það má alveg eins spyrja: Er næsta skrefið að ríkið taki að sér að ábyrgjast öll viðskipti landsmanna með notaða bíla? Við getum alveg eins hugsað okkur að búa til bílbréf og síðan taki ríkið að sér að ábyrgjast öll viðskipti landsmanna með notaða bíla. Það er kannski næsta skrefið.
    Það komu til okkar tveir fulltrúar frá Þjóðhagsstofnun og er alveg ljóst að þar inni eru menn mjög ósammála. Ég þarf ekki að rekja það svo ítarlega þar sem það hefur komið mjög ákveðið fram í áliti eins fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, Jóhanns Rúnars Björgvinssonar, að hann hefur miklar áhyggjur af þeirri útfærslu á húsbréfakerfinu sem frv. gerir ráð fyrir. Húsbréfin komi til með að virka á markaðnum eins og það hefði verið sett aukið peningamagn í umferð án þess að nokkur verðmætasköpun standi þar á bak við í þjóðfélaginu. Hann hefur bent á að það sé ekki höfðað til sparnaðarins í þjóðfélaginu við veitingu húsbréfalána og því muni þau verða verðbólguhvetjandi.
    Hann er hins vegar mjög sammála okkur þingmönnum Borgfl. um útboð húsbréfa eins og við gerðum ráð fyrir, þ.e. að húsbréf yrðu boðin út til sölu á frjálsum verðbréfamarkaði og á eftir slíku útboði væri hægt að veita lán þegar búið er að selja húsbréfin. Það er ein leið. Það er einmitt sú leið sem mér sýnist að flestar húsnæðislánastofnanir Norðurlandanna og Evrópulandanna séu að fara inn á, þ.e. slík húsbréfaútboð þannig að fyrst eru settar á markað raðir húsbréfa og leitað eftir kauptilboðum í slík bréf og þegar þau hafa verið seld er hægt að byrja að lána út. Þá er nefnilega þetta meginatriði í lagi. Það er fyrst látið reyna á sparnaðinn í þjóðfélaginu og síðar er hægt að veita lán.
    Það verður að segjast til að öll sjónarmið komi fram að annar fulltrúi Þjóðhagsstofnunar, Sigurður Snævarr, var ekki á sama máli. Taldi hann að húsbréfakerfið eins og það liggur fyrir geti verið hagkvæm lausn. Þetta sýnir kannski betur en ella að menn eru mjög á báðum áttum hvað þetta varðar og það staðfestir í mínum huga hvað það er nauðsynlegt að vinna svona mál mjög rækilega og e.t.v. leyfa alþingismönnum að fjalla um slík mál a.m.k. á tveimur þingum áður en svo viðamikil breyting nær fram að ganga. Sérstaklega er mikilvægt að allir þeir hagsmunaaðilar sem þetta mál varðar séu sæmilega sáttir við þær breytingar sem eru lagðar til og það sé ekki ófriður um svona mál. Það er mjög óheppilegt að það sé mikill ófriður um svo viðamikla breytingu sem hér er verið að leggja til að gera á húsnæðiskerfinu. Það er kannski eitt alvarlegasta atriðið, hin mikla andstaða gegn frv. Ég hef miklar áhyggjur af því að stærsta launþegasamband landsins skuli vera með svo mikla andstöðu gegn þessu frv. Það veldur mér í einlægni miklum áhyggjum. Ég verð að segja það hreint eins og er.
    Þá kem ég að merkilegum þætti. Á fund

nefndarinnar komu nokkrir fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins og það kom fram, sem virkaði afar sérkennilega á mig, að Húsnæðisstofnun hefur ákaflega lítið haft um þetta frv. að segja. Það kom fram í máli fulltrúa Húsnæðisstofnunar að þeir vissu í raun ekkert meira um húsbréfafrv. en venjulegur blaðalesandi sem hefur fylgst með því í gegnum fréttir í blöðum. Þeir höfðu ekki tekið þátt í undirbúningi að gerð þessa frv. og höfðu ekki verið hafðir með í ráðum, en þeir eru þó sá aðili sem á að taka að sér rekstur þessa kerfis. Um þetta urðu nokkrar deilur í nefndinni. M.a. fóru menn að rifja upp gamlar væringar um hvort Húsnæðisstofnun og fulltrúar hennar hefðu verið hafðir með í ráðum þegar það kerfi sem við nú búum við varð til á árinu 1986. Treysti ég mér ekki til að blanda mér í þær deilur. Ég hlustaði hins vegar með athygli á að Húsnæðisstofnun væri raunverulega þarna í hlutverki blaðalesanda en ekki sem sá aðili sem á að reka þetta kerfi til frambúðar. Það þótti mér afar merkilegt að heyra.
    Það kom einnig fram að það hefur í raun engin undirbúningsvinna farið fram af hálfu Húsnæðisstofnunar vegna húsbréfakerfisins. Það eru engar hugmyndir uppi um það hvert verður væntanlegt umfang þessara húsbréfaviðskipta og það hafa engar rekstraráætlanir verið gerðar um rekstur kerfisins.
    Síðan varð mjög löng og ítarleg umræða um hina löngu biðröð eftir húsnæðislánum. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar tíunduðu mjög og reyndu að sýna fram á það með gildum rökum að það sé ekkert lát á biðröðinni og hún haldi áfram að vaxa. Hins vegar kom fram mikil gagnrýni af hálfu nefndarmanna á meðhöndlun Húsnæðisstofnunar á lánsumsóknum yfirleitt og á afgreiðslu lána og lánsloforða. Þannig kom fram mjög merkileg upplýsing sem ég tel nauðsynlegt að koma á framfæri. Það eru mjög margir lífeyrissjóðir sem hafa alls ekki staðið við það samkomulag sem þeir hafa þó gert við Húsnæðisstofnun um skuldabréfakaup. Þannig töldu fulltrúar Húsnæðisstofnunar að það vantaði 1,6 milljarða kr. inn í húsnæðislánakerfið af þessum orsökum vegna lífeyrissjóða sem ekki hafa staðið við skuldbindingar sínar. Þá spurðum við: Er það þá ekki svo að félagar í viðkomandi lífeyrissjóðum sem ekki hafa staðið við samkomulagið eru meðhöndlaðir sérstaklega og fá annaðhvort skert lán eða alls engin lán? Svör við þessari spurningu voru þau að það hefði ekki verið gert. Félagar í þeim lífeyrissjóðum sem ekki hafa staðið við skuldbindingar sínar um skuldabréfakaup frá Húsnæðisstofnun fá full lán eins og ekkert hafi í skorist og það er ekki reynt að hafa áhrif á biðröðina með þeim hætti að ýta þeim til hliðar, þ.e. félögum þeirra lífeyrissjóða sem ekki hafa staðið í stykkinu. Þetta er mjög sérkennilegt og einkennileg málsmeðferð verð ég að segja.
    Þá má vekja athygli á því að það er mjög góð sjóðsstaða hjá byggingarsjóðum ríkisins. Um áramót var sjóðsstaðan rúmlega 1 milljarður kr. og um síðustu mánaðamót var sjóðsstaðan rúmlega 800 millj. kr. Það vöknuðu því spurningar sem þessar: Er ekki

hægt að flýta útlánum sem þessu nemur, hraða afgreiðslu lána? Til hvers er verið að liggja með mikla peninga í sjóði í Seðlabanka Íslands og láta Seðlabankann hagnast á því vegna þess að hann borgar ekkert sérlega háa vexti fyrir innistæður byggingarsjóðanna á reikningi í Seðlabanka?
    Þá er vitað að það verða töluverð afföll á lánsumsóknum vegna ýmissa aðstæðna hjá umsækjendum. Ég verð að segja eins og er að mér finnst því miður að það sé ekki hægt að segja annað en það að það er eins og allt hafi verið
gert til að láta þessa biðröð líta miklu hræðilegar út en hún er í raun. Það hefur nánast engin vinna verið sett í að rannsaka umsóknirnar og kanna hvort um tvítekningar sé að ræða, hvort umsækjendur í verkamannabústaðakerfinu séu einnig með umsóknir í almenna húsnæðislánakerfinu.
    Þá er eitt lykilatriði enn að það er ekkert gengið eftir því hvort menn ætli að notfæra sér lánsloforð eða lánsrétt. Eðlilegast hefði verið að segja við þá sem hafa fengið ýmist lánsloforð eða lánsrétt að ef þeir nýti hann ekki innan einhvers tiltekins tíma falli þeir sjálfkrafa út úr biðröðinni. Það eru dæmi þess að menn eru allt í einu að grafa upp gömul lánsloforð og gera kröfu um að fá lán kannski löngu eftir að það var komið fram að þeir höfðu engan áhuga á því að taka slík lán.
    Þá kemur kannski að aðalkjarna málsins. Því í ósköpunum að vera með þessar biðraðir yfirleitt? Því er það ekki gert að allar umsóknir falla sjálfkrafa úr gildi við áramót og síðan þurfi að endurnýja umsóknir? Ef viðkomandi umsækjandi þarf á húsnæðisláni að halda er honum það ekkert of gott að þurfa að endurnýja umsókn sína. Það kom m.a. fram í umræðum um þetta atriði að það virkar ákaflega ankannalega að lánsumsækjendur um lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eru látnir tíunda þremur árum áður en þeir fá lánið afgreitt hver er fjárhagsstaða þeirra og eignarstaða og hverjar eru tekjur þeirra og margt fleira. Þetta eru upplýsingar sem eru síðan gersamlega úreltar þegar þeir að lokum fá lánið. Þetta segir mér ekkert annað en það að það væri miklu skynsamlegra að láta allar umsóknir falla sjálfkrafa úr gildi um áramót hafi þær ekki fengið afgreiðslu á árinu og láta síðan umsækjendur sækja um á nýjan leik. Þetta er oftast gert og víðast hvar þar sem um er að ræða að menn eru að sækja um einhvern hlut og eru í biðröð og er mjög eðlilegt og sjálfsagt. Þetta sjónarmið kom fram hjá fulltrúa stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík, framkvæmdastjóra stjórnarinnar, Ríkarði Steinbergssyni. Hann sagði að á síðasta ári t.d. hefðu borist um 1150 umsóknir um verkamannabústaði í Reykjavík. En það hefði aðeins verið hægt að sinna 250 umsækjendum. Við áramót féllu þær umsóknir sjálfkrafa úr gildi sem ekki tókst að afgreiða. Síðan verða þeir aðilar sem hyggjast halda áfram og reyna aftur að sækja um á nýjan leik. Svo einfalt er það mál. Þannig verða engar biðraðir til. En auðvitað viðurkennir hann og taldi að hann þyrfti að geta

úthlutað miklu, miklu fleiri íbúðum. Það er mjög athyglisvert að hann segir að þörfin fyrir verkamannabústaði í Reykjavík fari nú ört vaxandi. Hann taldi að það þyrfti að gera stórátak á þessu sviði, þ.e. að byggja verkamannabústaðaíbúðir í Reykjavík. Við ræddum lítillega að það eru töluverð brögð að því að menn reyni að misnota félagslega íbúðakerfið. það eru mjög mikil vandkvæði á því að koma í veg fyrir slíkt, en það er um það að ræða alls staðar þar sem slík skömmtunarkerfi sem þetta eru í gangi að menn reyna að fara á bak við þau --- með öllum tiltækum ráðum.
    Þá kom fram eitt mjög athyglisvert atriði sem framkvæmdastjóri verkamannabústaða í Reykjavík benti á, en það er að stjórn verkamannabústaða í Reykjavík og sennilega víðast hvar annars staðar kaupir töluvert af verkamannabústaðaíbúðum til baka sem eru orðnar eldri en 30 ára, en þá eru kvaðir fallnar af þeim þannig að þær eru seljanlegar á frjálsum markaði. Engu að síður kaupir stjórn verkamannabústaða slíkar íbúðir aftur því hún leitast við og vill halda þeim áfram inni í kerfinu. Hann spurði því okkur nefndarmenn: Er ætlast til þess að stjórn verkamannabústaða eigi þá að kaupa slíkar íbúðir með húsbréfum? Hver verður þá greiðslubyrði lána af slíkum íbúðum ef þær verða síðan endurseldar umsækjendum um íbúð í verkamannabústaðakerfinu? Þetta er atriði sem enginn kann svör við.
    Þá kom á fund nefndarinnar Guðmundur Gylfi Guðmundsson frá Fasteignamati ríkisins, en hann átti sæti í milliþinganefndinni sem fjallaði um húsbréfamálið og undirbjó það og var hann annar tveggja sem skiluðu minnihlutaáliti, þ.e. hann og Ásmundur Stefánsson. Þeir skiluðu mjög ítarlegu minnihlutaáliti þar sem þeir höfnuðu algerlega því húsbréfakerfi sem nefndin stóð að. Ég ítreka það hér og rifja það upp að ég sat sjálfur í milliþinganefndinni, en ég gerði mjög ákveðna fyrirvara við undirskrift mína. Ég er sjálfur mjög hlynntur því að húsbréfakerfi í einhverju formi verði tekið upp, en mér er alls ekki sama hvernig það er gert og ég gat ekki fallist á þá útfærsluaðferð sem milliþinganefndin valdi og taldi að það ætti að gera þetta með öðrum hætti og í því fólst minn fyrirvari.
    Gylfi benti sérstaklega á að með húsbréfakerfinu eins og það liggur fyrir er hætta á því að fjármagn fyrir húsbréf muni fyrst og fremst verða tekið frá atvinnulífinu. Það kom fram í máli hans eins og svo margra annarra að það er ekki verið að reyna að nýta sparnaðinn í þjóðfélaginu heldur koma húsbréfin inn á markaðinn í samkeppni um fjármagnið, t.d. við atvinnulífið. Hann benti sérstaklega á það atriði að atvinnulífið mundi þurfa að blæða fyrir að fjármagnið yrði tekið frá atvinnuvegunum og fært yfir í húsbréfakerfið. Það er nú einu sinni svo að með einhverjum hætti verður að borga húsbréfin. Það verður ekki hjá því komist. Það er ekki hægt að gefa út einhverja pappíra og
halda að þar með hafi þeir bara fundið upp einhver verðmæti, að við höfum komist í einhverja gullnámu.

Auðvitað verður þjóðfélagið að lokum að standa á bak við húsbréfin með peningum.
    Að lokum kom fulltrúi frá verðbréfasölum, þ.e. Gunnar Helgi Hálfdánarson frá Fjárfestingarfélagi Íslands, á fund nefndarinnar. Sjónarmið hans voru ofur eðlileg. Hann er mjög ánægður með þetta frv. og er annar sá köttur sem hefur fengð rjóma í skál svo að það er ekki nema eðlilegt að hann sé mjög hrifinn af frv. Það var þó nokkuð margt sem hann benti á sem orkar mjög tvímælis. Hann sagði okkur m.a. frá því að hingað til hefur verðbréfamarkaðurinn aldrei haft til meðferðar bréf sem hafa verið til lengri tíma en tíu ára þannig að hann gat ekki svarað því hvernig markaðurinn mundi taka á móti skuldabréfum sem væru til 25 ára. Það er nánast óþekkt fyrirbæri á verðbréfamarkaði á Íslandi og öll skynsemi segir að einmitt þessi langi tími húsbréfanna geti verið varhugaverður og kallað á mikil afföll. Hann treysti sér ekki til að segja neitt um það hver yrðu hugsanleg afföll á húsbréfunum, en það er náttúrlega alveg ljóst að verðbréfamarkaðurinn mun gera mjög háar ávöxtunarkröfur til þessara bréfa. Engu að síður taldi Gunnar Helgi að það væri mikil þörf fyrir nýja tegund verðbréfa sem þessa inn á markaðinn og þar er ég honum alveg sammála. Ég held að út af fyrir sig væri ákaflega hollt, eins og ég hef oft ítrekað og þarf engan að undra það því ég er mjög hlynntur því, að einhvers konar húsbréfakerfi verði tekið upp. Reyndar höfum við þingmenn Borgfl. lagt fram mjög ítarlegar tillögur í því efni og þess vegna get ég tekið undir það með Gunnari Helga að ég held að það væri ákaflega gott að fá einmitt húsbréf til sölu inn á markaðinn. Ég held hins vegar að þessi bréf geti orðið varhugaverð og þess vegna var það hugmynd okkar að bréfin yrðu ekki til lengri tíma en fimm ára. Ég teldi að það væru miklu skynsamlegri húsbréf sem væru seld til fimm ára, en þá þarf að sjálfsögðu að breyta öllu kerfinu.
    Ég hef lagt mig fram við að kynna mér húsbréfakerfi nágrannalandanna og setja mig rækilega inn í það sem er að gerast á þeim vettvangi í nágrannalöndunum. Það er t.d. eitt sem er mjög fróðlegt. Ég er með í höndunum reglugerð frá Evrópubandalaginu í Brussel um húsnæðislánastofnanir og með hvaða hætti þær skuli fá að starfa innan Evrópubandalagsins. Þessi mál eru mjög í brennidepli í Evrópubandalaginu því að þetta tengist hinum sameiginlega stóra markaði sem á að koma á árinu 1992. Þá er einmitt gert ráð fyrir því að stofnun og rekstur húsnæðislánastofnana um alla Evrópu verði frjáls, þ.e. ítalskar húsnæðislánastofnanir geta sett upp útibú í Danmörku og öfugt. Það er mjög athyglisvert að Svíar hafa ákveðið að mæta þessu með því að gjörbreyta löggjöf um rekstur húsnæðislánastofnana í Svíþjóð og reynt að aðlaga hana að þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar hjá Evrópubandalaginu.
    Ég er hér með plagg í höndunum sem að mínum dómi er mjög athyglisvert og hefði viljað segja í örstuttu máli frá helstu efnisatriðum sem koma fram í því. Þetta er ræða sem framkvæmdastjóri stærstu

húsnæðislánastofnunar Svíþjóðar flutti á ársþingi húsnæðislánastofnunarinnar Byggeriets Realkreditfond í Kaupmannahöfn 8. mars sl. Dr. Lars Wohlin, sem er framkvæmdastjóri Sveriges Stadshypotekskassa, er einn af þekktari sérfræðingum á þessu sviði á Norðurlöndunum. Það sagði mér hæstv. viðskrh. að hann þekkti vel dr. Wohlin. Þá kem ég aftur að því að ég er alveg hissa á þeim alþýðuflokksmönnum með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar að hafa ekki leitað til flokksbræðra sinna í nágrannalöndunum um ráð og hjálp í þessu sambandi. Það hefði áreiðanlega verið hægt að fá þá til þess að koma og aðstoða okkur við þetta. Ég er ekki í nokkrum vafa um það.
    Ég fékk sérstaka ábendingu um að lesa þessa ræðu og setja mig inn í það sem dr. Wohlin hafði um þetta mál að segja. Það var skrifstofustjóri stærstu húsnæðislánastofnunar Danmerkur sem benti mér á að kynna mér þessa ræðu. En Svíar hafa ákveðið að breyta verulega löggjöf um húsnæðislánastofnanir til að aðlaga sig þessum væntanlega stóra markaði sem mun komast á í Evrópu 1992. Gera Svíar ráð fyrir því að 1992 muni þeir heimila erlendum húsnæðislánastofnunum starfsemi í Svíþjóð og þeir muni sömuleiðis heimila sænskum húsnæðislánastofnunum starfsemi erlendis.
    Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að fara yfir þetta. Mig langar rétt til að fara í helstu efnisatriði sem koma fram í þessari stórmerku ræðu. Ég lét ljósrita hana og dreifði henni til nefndarmanna þannig að flestir hafa fengið hana. Aðeins til upplýsinga eru níu húsnæðislánastofnanir í Svíþjóð og heildarútlán til húsnæðislána voru 541 milljarður sænskra króna í árslok 1988. Í Svíþjóð, þessu draumaríki ríkissósíalisma, er sænska ríkið ekki nema með 30 milljarða kr. af þessum heildarútlánum. 510 milljarðar kr. eru á vegum sjálfstæðra stofnana sem koma ríkisvaldinu ekkert við. Þetta er nefnilega sú stórmerkilega þróun, sem á sér stað alls staðar í Evrópulöndunum, að draga ríkisvaldið hægt og sígandi út úr húsnæðismálunum meðan við förum algerlega öfuga leið hér á Íslandi. Þvert á móti erum við að stækka ríkisumsvifin og auka þau með því að safna öllu kerfinu saman í einni stofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Svíar hafa tekið dönsku húsnæðislánastofnunina sér til fyrirmyndar og hafa að mörgu leyti nýtt sér danska húsnæðislánakerfið við þær breytingar sem þeir hafa gert á lánakerfi sínu undanfarin ár. Sérstaklega hafa þeir þó nýtt sér reynslu Dana í sambandi við útgáfu húsbréfa. Þeir hafa þó valið að fara nokkuð aðra leið og er ég ekkert frá því að sænska leiðin gæti hugsanlega hentað betur hér á Íslandi.
    Svíar eru með mjög þróaðan verðbréfamarkað og er kannski ekki saman að jafna því sem við köllum verðbréfamarkað á Íslandi og því sem heitir verðbréfamarkaður í Svíþjóð. Hugmynd Svíanna er sú að húsnæðislánastofnanirnar gefa út raðir húsbréfa yfirleitt til fimm ára í senn. Þessar raðir eru boðnar til sölu á verðbréfamörkuðum í Stokkhólmi. Reyndar, eins og kemur fram í þessari ræðu, er hugmyndin að

bjóða þessi fimm ára húsbréf til sölu á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum innan tíðar. Á grundvelli þess fjármagns sem þannig fæst veita húsnæðisstofnanirnar löng lán, frá 30 og upp í 60 ára lán, og með fimm ára millibili eru síðan gefnir út flokkar húsbréfa eða jafnvel oftar til þess að standa undir þeirri fjármagnsþörf sem þessi útlán kalla á. Þannig hafa Svíar ekki tekið eins alvarlega þetta svokallaða jöfnunarlögmál sem dönsku húsnæðislánastofnanirnar verða að vinna samkvæmt, en dönsku og þýsku húsnæðislánastofnanirnar hafa lagt höfuðáherslu á að húsbréf sem er í umferð hverju sinni verða alltaf að standast nákvæmlega á við þær veðskuldir sem liggja á bak við húsbréfin. Svíarnir hafa hins vegar ekki tekið þetta lögmál eins alvarlega og talið að húsnæðislánastofnanirnar ættu að fá aðeins frjálsari hendur við að útvega fjármagn áður en þær taka á móti veðskuldabréfum vegna útlána. Þannig er vel til í dæminu að sænskar húsnæðislánastofnanir séu búnar að selja töluvert magn af húsbréfum áður en þær taka á móti veðskuldabréfum og lána fjármunina út aftur.
    Það er annað atriði sem er mjög sérkennilegt og gaman að velta fyrir sér fyrir okkur Íslendinga. Samkvæmt sænskum lögum er bannað að verðtryggja fimm ára húsbréf. Þá hefur orðið mjög merkileg þróun á sænska húsnæðislánamarkaðnum. Lögunum hefur verið breytt í frjálsræðisátt og opnað fyrir sjálfstæðar húsnæðislánastofnanirnar að veita lán í raun og veru miklu frjálslegar en áður tíðkaðist. Þetta hefur haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf í Svíþjóð og er mjög merkilegt. Það kemur fram í þessari ræðu að almenningur í Svíþjóð hefur notfært sér þennan aukna aðgang að hagkvæmum húsnæðislánum og tekið í ríkum mæli húsnæðislán hjá þessum sjálfstæðu húsnæðislánastofnunum þó svo ekki sé um kaup á húsnæði að ræða. Almenningur hefur notfært sér þessa möguleika og nýtt það fjármagn sem þannig hefur fengist að láni til þess að fjárfesta í atvinnulífinu, til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum og til þess að fjárfesta jafnvel í lífeyrissjóðum, þ.e. að setja fjármuni til eigin lífeyristryggingar o.s.frv. Að mati dr. Wohlin hefur þessi þróun verið geysilega jákvæð og haft jákvæð áhrif í atvinnulífinu með því að skapa aukið fjármagn sem hefur runnið til atvinnulífsins með þessum hætti.
    Hann fjallar í nokkrum orðum um muninn á sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum og bönkum. Þannig er ástand í Svíþjóð að allir stórbankarnir reka eigin húsnæðislánastofnanir innan ramma laganna. Það er aðeins ein stór húsnæðislánastofnun sem stendur fyrir utan bankakerfið en hún er langstærst. Hann bendir réttilega á að rekstrarkostnaður húsnæðislánastofnunar sem einungis fæst við það verkefni að veita löng húsnæðislán og selja verðbréf er miklu minni en hjá bankastofnunum sem eru í alhliða bankaviðskiptum. Þau geta oft verið mjög flókin og verða sjálfkrafa til þess að rekstrarkostnaður bankastofnunar getur orðið miklu hærri. Hann segir því að það sé orðin mikil samkeppni á milli sjálfstæðra húsnæðislánastofnana og banka um jafnvel

skammtímalán þar sem húsnæðislánastofnanirnar hafa fengið heimild til að veita skammtímalán út á veð í fasteignum.
    Ég veit ekki hvort þörf er á að fara nánar út í þessi atriði. Ég taldi að það væri skynsamlegt að segja í örstuttu máli frá því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Ég er reyndar með fleiri upplýsingar sem mig mundi langa til að koma á framfæri því það er svo margt sem er að gerast í kringum okkur. Ég á ekki mikið eftir, en mig langar til að fjalla um örfá atriði sem mér hafa þótt fróðleg. Ef litið er til húsnæðislánamála í Danmörku tek ég eftir því að danskar húsnæðislánastofnanir eru að koma upp fyrstu húsnæðislánastofnun á Grænlandi sem er rekin nákvæmlega eftir þeim lögmálum sem hafa gilt um húsnæðislán með húsbréfum. Er það mjög athyglisvert að Grænlendingar fá nú sína fyrstu húsnæðislánastofnun sem notar húsbréf.
    Ég var búinn að segja frá því að á vegum Evrópubandalagsins er mikil vinna unnin í sambandi við samræmingu á löggjöf um húsnæðislánastofnanir. Einhvern veginn hafa húsbréfin orðið áhersluatriði í umræðunni hér, sem ég tel miður, vegna þess að það hefði verið miklu skynsamlegra að leggja höfuðáherslu á þann lagaramma sem húsnæðislánastofnanir eiga að starfa samkvæmt. Húsbréfin eru í raun og veru smáatriði í þeirri heildarlöggjöf. Hér hefur einhvern veginn orðið sá misskilningur á ferðinni að húsbréfin séu aðalatriðið og öll löggjöfin sem er verið að leggja fram í þessu frumvarpi snýst því um sjálf
húsbréfin. Þetta er misskilningur að mínum dómi. Húsbréfin eru aukaatriði ef rétt er að málum staðið.
    Ég hef oft vikið að því að dönsku húsnæðislánastofnanirnar eru orðnar svo öflugar að þær hafa fengið heimild til að veita húsnæðislán til annarra landa. Ég hef víst bent á að dönsku húsnæðislánastofnanirnar hafa í nokkur ár verið með tilraunalánveitingar í Englandi, Portúgal og Vestur-Þýskalandi. Sl. ár fengu þær heimild til þess að veita húsnæðislán til Frakklands og til Bandaríkjanna. Ég er með tölur yfir það að í árslok 1987 höfðu dönsku húsnæðislánastofnanirnar veitt að láni til landa utan Danmerkur yfir 1 milljarð danskra kr. Mér þykir afar sérkennilegt og fróðlegt að velta fyrir mér hvernig það má verða að húsnæðislánakerfið sé svo öflugt að þeir eigi auðvelt með að taka 1 milljarð danskra króna úr úr kerfinu og lána til annarra landa.
    Þá rakst ég á eitt atriði sem mér þótti mjög fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að velta aðeins fyrir okkur og það er með hvaða hætti húsnæðislán eru veitt til félagslegra íbúða í Danmörku. Danir eru með mjög öflugt og viðamikið félagslegt íbúðakerfi. Það er athyglisvert að það er aðeins í félagslega íbúðakerfinu sem notuð eru verðtryggð lán. Þetta þótti mér mjög sérkennilegt. Svíar forðast greinilega verðtryggð lán eins og heitan eldinn. Það gera víst flestar Norðurlandaþjóðirnar, en Danir hafa gert nokkra tilraun með að vera með verðtryggð lán til íbúðarhúsnæðis en aðallega í félagslegum íbúðum. Og hvernig skyldi nú standa á því? Jú, það er hugsað út

frá því sjónarmiði að þar gengur rekstur fasteignarinnar upp með þeim hætti að húsaleigan er verðtryggð á sama hátt. Þá helst í hendur verðtrygging lánanna sem standa á bak við byggingu húsnæðisins og tekjurnar sem koma með húsaleigunni. Þeir ráða hins vegar öllum einstaklingum sem ætla að nota húsnæðið til eigin nota frá því að taka verðtryggð lán. Þá rakst ég á annað, sem mér þótti afar athyglisvert. Í Danmörku greiðir danska ríkið allan vaxtakostnað af verðtryggðum lánum eins og hann leggur sig. Það er talið miklu meira en nóg að leigjendurnir borgi einungis verðtrygginguna því hér er um félagslegar íbúðir að ræða. Þetta þótti mér afar merkilegt. Það er talið óeðlilegt að til viðbótar verðtryggingunni séu leigjendur í félagslegum íbúðum látnir borga vexti. Þetta finnst mér vera atriði til umhugsunar fyrir okkur. Ég held þar af leiðandi að það sé kominn tími til og hefði átt að vera byrjað á því fyrir löngu að endurskoða verðtryggingu húsnæðislánanna og huga betur að sjálfu lánsforminu eins og ég hef oft vikið að, með hvaða hætti er hægt að gera það þægilegra fyrir bæði lántakandann og lánveitandann. Þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það.
    Ég hef nú fjallað ítarlega um húsnæðislánamál og ýmsa þætti þess frv. sem liggur hér fyrir. Ég sagði í þeirri ræðu sem ég flutti við 1. umr. þessa máls að ég efaðist ekki um vilja hæstv. félmrh. til að gera vel í þessum málum og ég held að fáir þingmenn hafi eytt eins miklum tíma í að vinna að félagsmálum og hæstv. félmrh. Hins vegar held ég því miður að það frv. sem hér liggur fyrir þurfi að laga. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að koma fram með sérstaka brtt. við frumvarpið að öðru leyti en því að hv. 5. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson hefur lagt fram brtt., sem ég mundi telja að væri hæstv. félmrh. að skapi, þar sem við leggjum til að þau skerðingarákvæði sem voru felld út úr frv. í meðförum hv. Nd. verði tekin inn aftur, að vísu með þeirri breytingu að þar sem talað var um að heimilt væri að taka tillit til annarra eigna en íbúðarhúsnæðis viljum við gera það skilyrt þannig að það eigi þó ekki við eignir sem eru vegna sjálfstæðs atvinnureksturs umsækjenda.
    Aðrar brtt. höfum við ekki fyrirhugað að leggja fram. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að koma með brtt. þess efnis að í stað hömlulausra skuldabréfaskipta skuli frekar ákveðið að gera bæði seljendum og kaupendum skylt að sækja formlega um lán og eins að í stað skuldabréfaskiptanna skuli Húsnæðisstofnun ríkisins eða húsbréfadeildin bjóða á markaði og selja húsbréf og lána síðan á eftir. Þetta finnst mér vera verkefni þeirrar nefndar sem tekur málið að sér væntanlega í sumar áður en frumvarpið verður lagt fram á nýjan leik næsta haust.