Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er ekki nýtt að svo skuli vera að við fjöllum um húsnæðismál hér á hinu háa Alþingi. Mér finnst ég satt að segja ekki vera búinn að vera mjög lengi þingmaður. Kannski finnst sumum það ekki rétt, að ég sé búinn að vera nógu lengi, en við skulum láta það liggja á milli hluta. En ég man aldrei eftir því að ég kæmi til þings öðruvísi en þar væri á dagskrá frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins eða meiri háttar breytingar á kerfi Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Hver einasti félmrh. virðist hafa haft það sem stefnumál sitt að koma fram með og smíða löggjöf og fá að setja nafnið sitt undir nýja löggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins. Tíu sinnum á þessu tímabili er búið að flytja frumvörp um nýja húsnæðislöggjöf eða meiri háttar breytingar á húsnæðislöggjöfinni, á tæplega tíu ára tímabili. Okkur hefur tekist, þessum ágætu þingmönnum undir forustu félmrh. hverju sinni, að smíða löggjöf sem hefur kallað á alveg ótrúlegt kerfi. Við höfum smíðað svo flókna löggjöf að nú eru starfandi a.m.k. ein eða tvær deildir í Húsnæðisstofnun ríkisins sem þurfa beint að aðstoða fólk, kenna því og leiðbeina því um það hvernig á að sækja um húsnæðislán og hver réttur fólks raunverulega sé. Ég er hræddur um að í iðngreinum fengju menn ekki meistarabréf út á svona smíð, það væri eitthvað annað. Hér finnst mér að sumu leyti eins og meistarar axarskaftasmíðanna hafi verið að verki.
    Þegar ég kom inn á þing var Magnús Magnússon að tala um breytingu á húsnæðislöggjöfinni. Auðvitað er mér ljóst að margt hefur gerst á stuttum tíma í þessum málum í þjóðfélagi okkar og svo merkilega vill nú til að einmitt þann 18. maí árið 1929 voru sett fyrstu lögin um verkamannabústaði. Það voru því í gær rétt 60 ár liðin frá því að lögin um verkamannabústaði voru sett.
    Ég sagði að margt hefði breyst í þjóðlífi okkar á þessum tíma. Ég hef gaman af að geta þess hér vegna þess að ég hef lagt mig svolítið fram um að velta fyrir mér húsnæðismálum og skoða þau að árið 1929 voru 3665 torfbæir á Íslandi, en 3294 steinsteypt hús. Árið 1929 eða fyrir réttum 60 árum voru fleiri torfbæir á Íslandi en steinsteypt hús. Það voru hins vegar 6595 timburhús á Íslandi eða alls 13.554 hús fyrir 60 árum. En nú eigum við Íslendingar 88.500 íbúðir á móti 13.500 fyrir 60 árum þannig að við sjáum að margt hefur breyst í landi okkar og vissulega var ekki vanþörf á.
    En ég verð að segja og sagði það í mínum upphafsorðum að mér blöskrar stundum sú vinnugleði manna að breyta öllum hlutum, endalausar breytingar á breytingar ofan. Það sem ég finn að frv. er æðimargt og mér finnst það með ólíkindum að þann hæstv. ráðherra sem stýrir nú félagsmálum skuli henda, vegna þess að ég veit hvernig ráðherrann er þenkjandi, að setja þessi lög í andstöðu við verkalýðshreyfinguna í landinu, það finnst mér hörmulegt, í andstöðu við Alþýðusamband Íslands og

í andstöðu við meiri hluta stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins sem maður skyldi þó ætla að vissi hvað mest um þessi mál, þeir menn sem hafa verið kosnir til þeirra trúnaðarstarfa að vinna þarna inn frá og eru daglega í sem nánastri snertingu við það sem þarna er að gerast.
    Ég verð einnig að harma að í frv. skuli vera tekin upp sú stefna að mismuna fólki eftir búsetu með lánsupphæðum. Mér finnst það kostulegt og nánast óskiljanlegt vegna þess að ég sé á móti mér félaga minn og stuðningsmann þessarar ríkisstjórnar, Karvel Pálmason, að við getum sætt okkur við að íbúarnir í Bolungarvík eigi að fá lægri lán en íbúarnir hér í Reykjavík eða þeir sem ætluðu sér að styðja Alþfl. í Keflavík, að þeir skuli fá lægri lán en íbúarnir hér í Reykjavík. Ég verð að segja að þetta er ekki að mér finnst í anda þeirrar byggðaríkisstjórnar sem ég hélt að ég væri stuðningsmaður við. Ég kannast ekki við að þetta standi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Því miður er þessu svo komið. ( KSG: Viltu skýra þetta?) Ég skal skýra það, Karl Steinar. Það er einfaldlega þannig, og kannski skýrir hæstv. ráðherra það á eftir, að ef ég hef lesið rétt eiga þessi bréf að fara eftir fasteignaverði á viðkomandi stöðum. Þau fara eftir því hvert fasteignaverðið er á hverjum stað. Þá hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að þetta er eins og ég hef verið að segja.
    Ég verð að segja að hér er sótt of hratt fram og vægast sagt finnst mér að það sé sótt of hratt fram að mjög óljósu marki. Best hefði farið á því að við hefðum reynt að vinna þetta mál betur, nota veturinn til þess og sumarið allt að koma með heildstætt frv. um húsnæðismál sem tekur á vanda húsnæðismálanna öllum, tekur á öllum vandanum, ekki alltaf að vera að taka út einn og einn lið heldur reyna að vera menn til þess að smíða heildstæða löggjöf sem stenst.
    Ég hefði viljað sjá þetta unnið í sem mestri sátt við launþegahreyfinguna í landinu, eins og ég sagði áðan, sem langsamlega oftast hefur verið með í smíði þessarar löggjafar. Það er nánast með ólíkindum að við sem sitjum á Alþingi séum þeir klaufar að geta ekki smíðað húsnæðislöggjöf þannig að hún standist lengur en raun ber vitni. Ég trúi því ekki að við séum þeir klaufar hér á Alþingi að okkur eigi ekki að takast að smíða húsnæðislöggjöf sem standist lengur en raun ber vitni. Það er eitthvað meira en lítið að.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég hefði hins vegar getað talað mjög lengi og farið ítarlega yfir þetta mál og megingalla frv. En ég veit að það er vonlaust verk að koma því til leiðar að þeir annmarkar sem ég sé á frv. verði leiðréttir. ( KP: Það verður sniðið af automatískt.) Ja, ég segi að eins og þessu máli er stillt upp, sem ég held að hafi komið til þessarar deildar í gær og okkur ætlað að afgreiða í dag, eru þetta ekki vinnubrögð sem eru mér að skapi, svo langt í frá. ( EKJ: Atkvæði þingmannsins gæti ráðið úrslitum.) Nei, því miður er það svo, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að í þessari deild ræður mitt atkvæði ekki úrslitum. Hér

hafa menn samið að mér skilst ákveðið vopnahlé, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Hér hafa menn samið um ákveðið vopnahlé í þessu máli. En það skal ég segja, úr því að þingmaður vill fá að vita, að það vopnahlé stendur ekki lengur en til haustsins hjá mér.