Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Þar sem ég átti því miður ekki kost á því að mæla fyrir brtt. sem ég legg fram á þskj. 1289 við 2. umr. dró ég brtt. til baka til 3. umr. sem nú fer fram.
    Þessi brtt. er að stofni til samhljóða þeirri sem felld var út í Nd. við 2. umr. þar sem talað er um skerðingarákvæði sem húsnæðismálastjórn getur beitt eigi umsækjandi ákveðna eign sem talin er 180 fermetrar að stærð brúttó, en sú brtt. var gerð í Nd. að þetta ákvæði félli brott. Ég vil taka það upp hér aftur en með smábreytingu sem felur það í sér að sjálfstæðir atvinnurekendur sem eiga eignir sem notaðar eru til eigin atvinnustarfsemi þeirra þurfi ekki að þola þessa skerðingu. Ákvæðið er þá þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 1. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    6. mgr. 12. gr. laganna orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er húsnæðismálastjórn heimilt að skerða eða synja um lán ef umsækjandi á fleiri en eina íbúð. Einnig er húsnæðismálastjórn heimilt, þrátt fyrir ákvæði 12., 13., 14. og 48. gr. laga þessara, að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði, skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetrar brúttó, að frádregnum bílskúr. Sama gildir um þann sem á aðrar eignir sem meta má jafngildar að verðmæti og ekki eru notaðar til eigin atvinnustarfsemi umsækjanda.``
    Þarna er höfuðbreytingin og höfuðrökstuðningurinn fyrir því að þetta ákvæði var fellt út í meðferð Nd.
    Síðan heldur greinin áfram og segir þar: ,,Um stærðarútreikning íbúða gilda sömu reglur og skv. c-lið 13. gr. Ef umsækjandi er í hjónabandi eða óvígðri sambúð skal miða við íbúðareign beggja.
    Ákvörðun húsnæðismálastjórnar um skerðingu eða synjun á láni skal vera rökstudd. Nánari reglur um framangreint atriði skal setja í reglugerð.``
    Þessi brtt. er eins og ég lýsti áðan nokkurn veginn samhljóða þeirri sem felld var út við meðferð Nd., en samt sem áður er tekið inn í brtt. að þeir aðilar sem stunda sjálfstæða starfsemi þurfi ekki að þola þá skerðingu sem ákvæði annars mæla fyrir um.
    Ég trúi ekki öðru en a.m.k. stjórnarliðar væru sammála þessari breytingu þar sem hún gengur í sömu átt og upphaflega frv. gerði ráð fyrir, en þó með þeirri mikilvægu undantekningu að sjálfstæðir atvinnurekendur þurftu ekki að þola skerðingu. Ég tel mjög mikilvægt að sú heimild sé í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að stjórn Húsnæðisstofnunar geti skert lánsrétt þeirra sem eiga miklar eignir. Það getur verið þannig að menn eiga litla eign en mikið af skuldabréfum eða hlutabréfum og þá er nauðsynlegt að stjórn Húsnæðisstofnunar geti skert rétt þeirra. Sumir vilja byggja smátt og búa smátt en eiga eignir í öðru formi. Það er einmitt kjarni þeirrar brtt. sem hér er mælt fyrir um og skora ég á hv. Ed. að samþykkja brtt.