Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Eiður Guðnason:
    Ég skal vera mjög stuttorður. Í þessari hv. deild hefur okkur tekist ágætlega að undanförnu að starfa saman og ná samkomulagi um lausn og afgreiðslu mála, mismunandi erfiðra mála. Þar hefur ekkert skort á að stjórnarandstaðan hafi sýnt sanngirni og samningslipurð og ég vona að við sem erum stjórnarsinnar höfum einnig gert það og þess vegna hafi þetta gengið mjög vel.
    Ég held að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi óþarfa áhyggjur af því að hér stefni mál í óefni og ég hygg að okkur muni takast að leysa þetta með samkomulagi á næstunni. Ég legg til að við förum að tillögu hæstv. forseta deildarinnar. Þá er ég sannfærður um að samkomulag mun nást um þetta mál sem allir geta sáttir við unað og hef raunar hugboð um að að því sé nú þegar verið að vinna.