Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur hagað sér með þeim hætti að það hefur verið skotið á skyndifundum í hliðarherbergjum til þess að menn gætu gert grein fyrir þeim málum sem hefur verið vísað til þeirra. Ég gerði áðan athugasemd og óskaði eftir því að fundur yrði boðaður í sjútvn. deildarinnar. Hann hefur ekki verið boðaður. Það sem er raunar alvarlegra er það að svo er að sjá sem forseti slái því föstu að ekki verði svigrúm til að afgreiða frv. um bann við veiðum og löndun á fiski fyrir kl. sex þannig að ég óska eftir að gert verði tíu mínútna hlé á fundinum til hálfsex og athugað hvort ekki náist samkomulag í nefndinni um málsmeðferð og freista þess síðan að afgreiða frv. fyrir kl. sex. Ég geri ráð fyrir því að þingmenn muni í þessu máli sem öðrum stytta mál sitt, láta sér duga að segja aðalatriði, þannig að til afgreiðslu í deildinni geti komið. Ég óska eftir því að þess verði freistað að efna til fundar í sjútvn. nú og freista þess að honum ljúki kl. hálfsex.