Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. samgn. (Karvel Pálmason):
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég veit ekki hvað hv. þm. Guðmundur Ágústsson hefur átt við þegar hann sagði að hann væri ósáttur við vinnubrögð nefndarinnar. Ég skal að vísu viðurkenna og hef reyndar greint frá því áður að það er með ólíkindum hvernig mál ber að á síðustu dögum og klukkustundum þinghaldsins. Fyrri deild er búin að vera með þetta mál ég veit ekki hversu margar vikur og síðan kemur þetta mál líklega í dag í seinni deild og viðkomandi nefnd ætlað að afgreiða það á nokkrum klukkutímum. Ég hélt að vísu að það hefði verið hægt að ná í alla sem hv. nefndarmaður vildi fá tal af, en kannski er það misskilningur. En hafi það ekki verið hægt er sjálfsagt að biðjast forláts á slíku. En þannig voru okkur settar skorður. Við stóðum frammi fyrir því annaðhvort að reyna að afgreiða málið út úr deildinni eða þá að láta það liggja og um það voru nokkuð skiptar skoðanir hvor aðferðin væri réttari. Ég taldi rétt a.m.k. að gera tilraun til þess að málið fengi afgreiðslu. Það kann að vera rangt mat hjá mér, en eigi að síður held ég að í áframhaldinu muni það sýna sig að þessi löggjöf kunni með góðra manna hjálp í áframhaldinu, og þá á ég við hæstv. ráðherra ekki síst, að leiða til hins betra frá því ástandi sem verið hefur og er í þessum málum.