Almannatryggingar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. sem felur í sér að heilsutjón vegna læknisaðgerða og mistaka starfsfólks sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu verði greitt af Tryggingastofnun ríkisins.
    Björn Önundarson tryggingayfirlæknir kom á fund nefndarinnar til viðræðna um frv. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt eins og Ed. afgreiddi það en með eftirfarandi breytingu:
    Við 3. gr. Í stað orðanna ,,Þá skal með reglugerð ákveða árlegt`` komi: Þá skal árlega ákveða á fjárlögum.
    Þetta er til að skerpa á þeim skilningi að framlög innan slysatrygginga til þessara liða skuli ákveðast af framlögum en ekki greiðast af iðgjöldum atvinnurekenda eins og slysatryggingar eru að stærstum hluta annars fjármagnaðar. Nefndin telur rétt að fram komi að hvað varðar bótaskyldu þá gangi hún út frá því að sá sem fyrir tjóni hefur orðið snúi sér til landlæknis með kvörtun sína sem þá fjalli um málið samkvæmt lagaskyldu.
    Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er samþykk þessu áliti. Undir þetta rita allir nefndarmenn heilbr.- og trn., þ.e. Ragnhildur Helgadóttir, Finnur Ingólfsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Jón Kristjánsson, Geir H. Haarde og Jón Sæmundur Sigurjónsson.