Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það var alls ekki ætlun mín að efna til einhverra langra umræðna um þetta mál svo einfalt sem það í raun og veru er og svo augljós sem helstu rök á báða bóga eru. En hér er greinilega nauðsynlegt að fara örlítið betur yfir málið.
    En fyrst verð ég nú að segja að hin dæmalausa ræða hv. 5. þm. Vestf. Sighvats Björgvinssonar hlýtur að hafa komið mönnum verulega á óvart. Þingmaðurinn greiddi nefnilega atkvæði með þessari sömu tillögu við 3. umr. í nafnakalli. Hann gerði það. Hann sagði já við því. Og ef hann skyldi nú vera búinn að gleyma því vildi ég gjarnan mega vitna í formann flokksins hans sem gerði grein fyrir atkvæði sínu við 2. umr. þegar tillagan gekk lengra en núna. Þá gekk hún út á að undanþiggja bæði sláturhús og mjólkurbú. Tillagan nú gengur út á að undanþiggja bara mjólkurbú þó svo hv. 5. þm. Suðurl. hafi ekki enn þá skilið að það er enginn að tala um kjötafurðir lengur og haldi áfram að tala út og suður í öllum sínum útúrsnúningum um verðið á kjötinu sem er alls ekki til umræðu hér.
    En mætti ég ekki vitna fyrir hv. þm. Sighvat Björgvinsson í formann hans eigin flokks máli þessu til stuðnings? Hvað sagði ekki hæstv. utanrrh. við 2. umr. um málið þegar hann stóð upp í öllu sínu veldi og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Jú, hann sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Virðulegi forseti. Það er sjálfsögð regla að fyrirtæki lúti sömu reglum að því er varðar álagningu aðstöðugjalda. Þessu mun hafa verið breytt í Ed. frá upphaflegri mynd. Það er ekki í rétta átt. Ég segi því já.``
    Nú dettur mér ekki til hugar, herra forseti, að hæstv. utanrrh. hafi breytt um skoðun þó svo hv. 5. þm. Vestf. hafi gert það og ég veit að hann virðir mér það til betri vegar að nota hans eigin ummæli máli mínu til stuðnings. En ég hygg að þessi ummæli hljóti að hafa farið fram hjá hv. 5. þm. Vestf. og e.t.v. einhverjum öðrum mönnum sem hafa látið snúa skoðun sinni í þessu máli.
    En úr því að þetta mál er komið hér til efnislegrar umfjöllunar á nýjan leik --- sem var reyndar ekki ætlun mín þar sem ég taldi mig hafa gert nægilega grein fyrir þessu í þinginu áður --- eru nokkrar höfuðröksemdir sem verða að koma fram á nýjan leik.
    1. Spurningin um jafnrétti milli fyrirtækja. Eiga sum fyrirtæki að borga aðstöðugjald og önnur ekki? Á ísgerð fyrir austan fjall að borga skatt en ísgerð í Reykjavík ekki? Eiga frystihúsin sem eru á hausnum um land allt að borga aðstöðugjöld en ekki mjólkurbúin? Mitt svar við því er það að fyrirtækin eiga að sitja við sama borð.
    2. Spurningin um jafnrétti milli sveitarfélaga. Eiga einstök sveitarfélög að borga niður verð á tilteknum afurðum með því að fara á mis við tekjur sem eðlilegir tekjustofnar ættu annars að gefa þeim? Mitt svar við því er líka nei. Ef menn vilja greiða niður vöruverðið á þessum afurðum --- og ég er ekki að mæla gegn því --- á auðvitað að gera það með

venjulegum hætti og á kostnað ríkissjóðs en ekki einstakra sveitarsjóða í landinu.
    Hitt er svo annað mál að ég dreg mjög í efa þá útreikninga sem lagðir hafa verið fram í þessu máli, en það er út af fyrir sig aukaatriði. Ef menn þyrftu að greiða niður vöruverðið á það að koma úr þeim sjóðum sem Alþingi stýrir en ekki sveitarstjórnarmenn í einstökum tiltölulega fáum byggðarlögum úti um landið. Þessa ríkisstjórn hefur ekki hingað til munað um að lofa því að greiða niður vöruverðið. Ég veit ekki betur en hún sé búin að lofa BSRB því að halda verði á landbúnaðarafurðum óbreyttu a.m.k. fram á haustið, ef ekki til áramóta. Ég veit ekki betur en þessi ríkisstjórn sé búin að lofa fjárútlátum til að mynda vegna stuðnings Kvennalistans við húsbréfafrv. til hinna félagslegu íbúða upp á mörg hundruð milljónir og virðist ekkert muna um það. Ég veit ekki betur en þessi ríkisstjórn sé að laumast með 200 millj. kr. skattahækkun í gegnum þingið í frv. um málefni aldraðra. Ég vorkenni þessari ríkisstjórn ekki neitt að sjá til þess að halda vöruverði á þessum afurðum óbreyttum ef það er hennar markmið. En málflutningur á borð við það sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. er ekki sæmandi, að ég tali ekki um heybrókarháttinn í hv. þm. Alþfl. sem lýsa ekki bara yfir andstöðu sinni við sína eigin stefnu heldur líka sín eigin atkvæði sem hafa fallið í þessu máli fyrr í umræðunum.
    Þessu til viðbótar vildi ég svo ítreka það, sem ég lét koma fram áðan, að ef um er að ræða einhverja mismunum þessum fyrirtækjum í óhag varðandi skatta sem renna til ríkisins er sjálfsagt mál að skoða það og leiðrétta það á réttum vettvangi, t.d. ef um er að ræða vörugjöld, sem bitna harðar á þessum fyrirtækjum en til að mynda samkeppnisiðnaði, eða jöfnunargjöld. Það þarf ekkert að ræða meira um söluskattinn vegna þess að öll uppsöfnun á söluskatti hverfur um næstu áramót eins og allir þingmenn vita sem hafa staðið hér að afgreiðslu virðisaukaskatts þannig að það mál er ástæðulaust að ræða um.
    Ég get síðan látið þessa umræðu niður falla af minni hálfu. Ég held að þau álitamál sem hér eru uppi séu afskaplega skýr og menn verði að vega þau og meta hver fyrir sig. Utanrrh. hefur gert upp sinn hug. Sú afstaða liggur fyrir
í þingskjölum og ég var að lesa hana. Hann lýsti því yfir eins og rétt er að það væri sjálfsögð regla að fyrirtæki lúti sömu reglum að því er varðar álagningu aðstöðugjalda og ég verð að segja að maður bíður að sjálfsögðu í eftirvæntingu eftir því að sjá hvernig ráðherrar og þingmenn Alþfl. munu verja sínum atkvæðum í þessari atkvæðagreiðslu því að öll framkoma þeirra í þessu máli hefur verið hin hreinasta háðung.
    Ég get tekið ofan fyrir þeim mönnum sem hafa einfaldlega þá afstöðu að vera á móti þessu máli af tilteknum prinsippástæðum. Ef menn eru þeirrar skoðunar að þarna eigi að vera ákveðin forréttindi til þess að halda niðri vöruverðinu er það afstaða sem er skýr og klár og sem hægt er að taka ofan fyrir,

heiðarleg afstaða. Ég held að hv. 5. þm. Suðurl., svo ósammála sem ég er honum og hans afstöðu, hafi verið að tala fyrir slíkri afstöðu hér. Það er heiðarlegt og er hægt að virða slíka andstöðu við mál. En það er líka algerlega hlálegt og einum þingflokki til hinnar mestu vansæmdar að hringsnúast eins og skopparakringla í atkvæðagreiðslum um þetta mál eða láta sig hverfa þegar kemur að úrslitastundu í slíkri atkvæðagreiðslu.
    Ég skil vel að einstakir þingmenn, til að mynda úr landbúnaðarhéruðum, séu viðkvæmir fyrir þessu máli. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því og við því er ekkert að segja annað en það að ég tel að áhyggjur manna út af þessu séu ástæðulausar og það sé hægt að koma til móts við þær áhyggjur með öðrum hætti án þess að það bitni á einstökum sveitarfélögum vítt um landið. En að greiða atkvæði með nákvæmlega sömu tillögunni við 3. umr., en koma síðan og lýsa því yfir að afstaðan sé breytt og nú verði greitt atkvæði á móti er ekki mjög stórmannleg afstaða. Og eins og ég segi verður verulega forvitnilegt og eflaust eftir því tekið með hvaða hætti aðrir þingmenn og ráðherrar Alþfl. verja sínu atkvæði þegar þetta mál kemur til atkvæða.