Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki margt sem ég þarf að segja í þessari umræðu, það er mest komið fram, en þó hygg ég að eðlilegast sé að byrja á ræðu síðasta hv. ræðumanns. Ég býst við því að ef þau orð sem hann sagði hefðu ekki verið sögð hefði verið alveg augljóst að það á að túlka hugtakið ,,sláturhús`` eins og sláturhús í venjulegri merkingu þess orðs og þá í nokkuð víðtækri merkngu. Það sem styrkir enn þessa lögskýringu hlýtur að vera að nú hafa menn sett inn ákvæði sem skýrir það út að með orðinu ,,mjókurbú`` sé átt við mjólkurbú í víðtækri merkingu og þess vegna þarf að taka það fram í lagatextanum eins og hann lítur út núna að það sé ekki átt við vissa þætti í starfsemi núverandi mjólkurbúa. Þar sem slíkt er ekki gert varðandi sláturhúsin verður að sjálfsögðu samkvæmt almennum lögskýringarleiðum að telja að það sé átt við starfsemi sláturhúsa í víðtækri merkingu þess orðs. Það eru almennar skýringaleiðir í lögfræði.
    Það má vel vera að það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, en hann er formaður nefndarinnar, mundi vega þungt þegar til þess kemur að ákvarða um umfang á starfsemi sláturhúsa og sjálfsagt yrði það notað sem lögskýring ef allir aðrir stjórnarliðar sem hér eiga eftir að tala taka undir það, sem hann sagði, að það ætti sem sagt að skýra sláturhúsastarfsemina svo þröngt að það næði bara til slátrunar í þrengstu merkingu en ekki til allrar kjötvinnslu sem færi fram í sláturhúsunum. En vegna þeirra breytinga sem hafa verið gerðar núna á þessari grein með tilliti til mjólkurbúanna þar sem tekið er fram að sumir þættir í starfsemi mjólkurbúanna eigi ekki að falla undir undanþáguna mundi það vitanlega verða notað til lögskýringa varðandi sláturhúsin --- með gagnályktun að sjálfsögðu.
    Það var athygli vert sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan í tvennu tilliti. Annars vegar sagði hann að hann hefði ekki áttað sig á því hvernig stjórnarfrumvarpið var lagt fram í upphafi. Því miður virðist sem sumir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi ekki heldur áttað sig á því að stjórnarfrumvarpið í upphafi, það samkomulagsfrumvarp sem menn eru að vísa til, var án þessara unantekninga. Var án þessara undantekninga. Þær komu inn í vinnslu frv. í Ed. og höfðu ekkert með að gera það samkomulag sem gert var þegar frumvarpið var smíðað og það lagt fram á Alþingi. Í öðru lagi sagði hv. 2. þm. Austurl. að hann mundi greiða fyrir gangi frv. með þeim breytingum sem orðið hafa á frumvarpinu í trausti þess að málið yrði tekið upp á næsta þingi. Hann færði síðan mörg góð rök fyrir því að það þyrfti að vera jafnræðisregla í skattlagningu og vísaði þar til starfs sem unnið var á sínum tíma af svokallaðri starfsskilyrðanefnd sem dr. Jóhannes Nordal var formaður fyrir og starfaði á þeim tíma, ef ég man rétt, þegar hv. þm. var iðnrh. Niðurstaða þeirrar nefndar var að þetta ásamt ýmsu fleira í íslenskum skattalögum gerði að verkum að iðnaðurinn eins og við skilgreinum hann venjulegast ætti við meiri erfiðleika að búa en sumar aðrar greinar einmitt með tilliti til skattlagningar. Þetta var eitt af

því, þ.e. mismunandi aðstöðugjöld á útveg, iðnað, landbúnað og þjónustu. Það var einmitt þetta atriði sem varð til þess að frumvarpið var lagt svona fram af hæstv. ríkisstjórn. Þegar menn eru að tala um samkomulag um eitthvað annað er það samkomulag sem síðar var gert af einhverjum einstökum þingmönnum stjórnarliðsins.
    Þá kem ég --- og ég bið hv. þingmann Sighvat Björgvinsson að koma inn og halla á eftir sér því nú þarf ég að eiga orð við hann --- að því er kannski skiptir mestu máli í þessu. Röksemdir hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, 5. þm. Vestf., ganga út á að málinu sé stefnt í hættu ef sú breyting verði gerð sem hv. þm. Geir H. Haarde leggur til. Ég ætla að segja hér og nú að þingmenn Sjálfstfl. munu styðja frv. Málið hefur stuðning flokksins þannig að það er engin hætta á því þótt till. Geirs H. Haarde verði samþykkt að frumvarpið eyðileggist þrátt fyrir það. Það er mikill misskilningur að það sé verið að tefla þessu í tvísýnu því að fyrir liggur víðtækur stuðningur við frumvarpið. Þannig eru ekki haldbær rök að halda því fram að málið sé ónýtt nema hæstv. ríkisstjórn hafi gefið út þá tilskipun að málið verði kallað aftur í heilu lagi ef þessi breyting verði gerð. ( SighB: Skiptir það engu fyrir þá þingmenn Sjálfstfl. sem eru á móti till. Geirs H. Haarde?) Það gildir um afstöðu Sjálfstfl. til frumvarpsins.
    Menn verða að átta sig á því hvernig frumvarpið var í upphafi. Eins og kom fram hjá hv. þm. Eggerti Haukdal, sem hefur talað í þessari umræðu, sagði hann að þetta hefði verið samkomulagsmál. Frv. var þannig í upphaflegri gerð sinni að í því voru ekki þessar undantekningar. Segjum svo að það myndist hér meiri hl. um till. Geirs H. Haarde. Þá mun sá meiri hl. væntanlega líka styðja málið í heild sinni. Það getur vel verið að það séu á því undantekningar í liði sjálfstæðismanna, en þær eru a.m.k. örfáar.
    Ég held, virðulegur forseti, að ég þurfi ekki að segja meira í þessari umræðu. Ég fagna því að rök hv. 5. þm. Suðurl. hafa breyst. Hann teflir ekki fram af óskammfeilni þeim rökum sem hann beitti í upphafi síns máls og talaði nú á öðrum nótum og reyndar á þeim sem hv. 3. þm. Suðurl. talaði sem voru
miklu skýrari og viðfeldnari rök en hv. 5. þm. Suðurl. beitti í sinni fyrri ræðu við þessa umræðu. Það ber að fagna því þegar mönnum fer fram í svona umræðu og ég óska hv. þm. til hamingju með það. Þótt ég sé jafnósammála rökum hans eftir sem áður eru það þó viðfeldnari rök sem hann nú býður upp á eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. 3. þm. Suðurl.