Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að kveðja mér hljóðs um þetta mál. Það frv. sem hér er til umræðu er búið að fara í gegnum margra ára eldskírn og það í beinu sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem er nú sem betur fer komið í höfn. Öll þessi mál hafa að sjálfsögðu verið til meðferðar á vettvangi sveitarstjórnarmanna árum saman. Þar á meðal þetta ákvæði í sambandi við aðstöðugjöldin.
    Vissulega hefði verið æskilegt að hafa þetta mál í einföldu formi þannig að sem minnstar undantekningar væru á þeim gjaldstofnum sem hér um ræðir, en um það hefur ekki verið algjört samkomulag, hvorki meðal sveitarstjórnarmanna né annarra, og niðurstaðan varð sú að sú nefnd sem skilaði af sér til þingsins þessu máli taldi að það væri eðlilegast að þingið tæki ákvörðun um þetta mál. Það varð líka raunin á að í Ed., sem hafði með þetta mál að gera í allan vetur, sem ég hef áður gagnrýnt að hefði verið æskilegra að hefði verið í hv. Nd. fyrst, komst að þeirri niðurstöðu og varð algerlega samkomulag um það í Ed. að breyta þessu á þann veg að undanþiggja mjólkurstöðvar og sláturhúsin aðstöðugjaldi. Það varð samkomulagsniðurstaðan í meðferð þeirrar deildar sem hafði málið algjörlega með höndum í vetur og í félmn. Nd. var á þetta fallist og enginn efniságreiningur um það í félmn. að koma þessu máli þannig breyttu til samþykktar á hv. Alþingi.
    Sjálfsagt þarf ekki að hafa langa ræðu um er að þeir sem höfðu áhrif á að Ed. breytti þessu ákvæði frá upphaflega frv. að því er varðar afurðastöðvar bænda, þ.e. sláturhús og mjólkurstöðvar, voru einmitt með í huga hvað þessar vörur hafa mikil áhrif á verðlag í landinu. Það var alveg ljóst að miðað við þær aðstæður sem við búum við hefur ríkisstjórnin raunar ekki nægjanlegt fjármagn til að standa við þau áform að halda niðri vöruverði hvað þetta varðar þannig að viðbót sem kæmi í gegnum svona lagabreytingu væri óæskileg á þessu stigi máls og þar af leiðandi eru það meginrökin í þessu máli. Allt hitt eru aukaatriði. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst miður að það skuli reynt að koma þessari breytingu fram á síðasta stigi málsins þegar algert samkomulag var um það meðal flokka þingsins í Ed. að halda óbreyttri þessari breytingu eins og þar var gert. Ég held að til að reyna að fá sem mestan frið um framkvæmd þeirrar miklu breytingar sem hér er verið að lögfesta, bæði verkaskiptingu og tekjustofna, hafi verið hyggilegast að halda því áfram sem var búið að ná samkomulagi um í þeirri deild sem hafði með málið að gera í allan vetur. Þar af leiðandi harma ég að það eigi að taka þessa breytingu upp núna og hefði jafnvel viljað fara fram á að slíkar brtt. sem hér liggja fyrir hefðu verið dregnar til baka.
    Hins vegar var ekki ástæða fyrir mig að koma upp í sambandi við þetta mál út frá því sem ég hef þegar sagt þó það séu grundvallaratriði í málinu eins og það liggur fyrir Alþingi. Hinu taldi ég mér skylt að koma upp út af og mótmæla í fyrsta lagi að það sé verið að krefja einstaka nefndarmenn eða formenn nefnda um

túlkun á lögum, eins og hér var gert, sem ég tel óeðlilegt á þessu stigi málsins. En fyrst og fremst get ég ekki látið ómótmælt því sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. væri litið á sem túlkun félmn. sem hafði með þetta mál að gera. Svo er alls ekki. Þetta mál var aldrei í þessum búningi rætt í félmn. Nd. Þar af leiðandi kemur ekki til mála að láta þann skilning koma fram, hvorki í þingskjölum né meðal þingmanna sem hlusta á þessar umræður, að um slíkt væri að ræða. Sláturhúsin hafa verið túlkuð alla tíð í því formi að slátra þeim búpeningi sem þar er tekinn inn og búa hann til markaðssetningar í framhaldi af því. Það er hlutverk sláturhúsa í allri þeirri túlkun sem hefur verið til þessa dags. Ef það á að fara að finna upp einhverjar aðrar túlkanir verður það að gerast á allt öðrum vettvangi en tímasettur er hér. Þar af leiðandi vil ég mótmæla þeirri túlkun sem hér kom fram. Það eru engin rök á bak við hana í áranna rás sem liðin eru þannig að ég tel að það sé hrein fjarstæða að láta það koma hér fram. En mín ferð hingað í ræðustól var fyrst og fremst að benda á þetta tvennt: Annars vegar að það var algert samkomulag í Ed. milli allra flokka hér á þingi að afgreiða málið eins og það var þar afgreitt, bæði þessi mál, og ég teldi óhyggilegt að fara að breyta því hér. Í öðru lagi vil ég ekki viðurkenna þessa túlkun hv. 5. þm. Norðurl. v. og alls ekki tengja hana við hv. félmn. Nd. Það er alrangt.