Málefni aldraðra
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Nefndin sem fékk þetta mál til meðferðar, heilbr.- og trn., varð því miður ekki sammála í afstöðu til þessa máls, nefndin klofnaði, þó að það sé nú heldur óvenjulegt um mál af þessum toga sem er nokkuð almenn og breið samstaða um í þjóðfélaginu, málefni aldraðra. En það er heldur engin venjuleg ástæða fyrir því, herra forseti. Ástæðan er sú að hér er í og með um að ræða skattafrv. Hér er um að ræða nýjan tekjustofn fyrir ríkissjóð sem áætlað er að gefi 200 millj. kr. á ári í ríkissjóð án þess að á móti lækki það fé sem til ráðstöfunar er í sama skyni á almennum fjárlögum. Þess vegna klofnaði nú nefndin, herra forseti, og það er heldur leiðinlegt að um mál sem þetta skuli koma tvö nál., en það er leiðinlegt líka, herra forseti, að verða að segja að hér er með afskaplega lymskulegum hætti í frv. verið að leggja á þjóðina nýja skatta.
    Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa það nál. sem við hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir höfum sent frá okkur varðandi þetta mál og koma síðan nánar að einstökum atriðum. En nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Minni hl. nefndarinnar leggst ekki gegn meginefni þessa frumvarps enda er ekki ágreiningur um nauðsyn þess að ný lög um málefni aldraðra taki gildi um næstu áramót.
    Minni hl. leggst hins vegar eindregið gegn þeirri viðbótarskattlagningu á almenning sem ríkisstjórnin hyggst knýja fram með frumvarpi þessu og reynt hefur verið að fara í felur með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér er í raun verið að hækka tekjuskatta um 200 millj. kr. svo að lítið beri á.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hinn sérstaki skattur í Framkvæmdasjóð aldraðra verði tekinn upp að nýju og verði 2500 kr. á mann. Skattur þessi var síðast lagður á með álagningu vegna tekna ársins 1986, en er staðgreiðsla skatta var tekin upp var innheimtu hans hætt og sjóðnum tryggðar samsvarandi tekjur af innheimtu staðgreiðslufé.
    Rétt er að minna á að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar og urðu hluti staðgreiðslunnar og hækkaði álagningarhlutfall hennar sem þeim nam. Þessir skattar voru sóknargjald, kirkjugarðsgjald og sjúkratryggingagjald auk hins sérstaka gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hefur ekki orðið vart við að þeir aðilar, sem áður höfðu tekjur af þessum smásköttum, hafi kvartað um hlutdeild sína í staðgreiðslufénu enda hefur verið tryggilega frá henni gengið.
    Með því að taka einn þessara skatta upp að nýju í tengslum við samþykkt þessa frumvarps er að dómi undirritaðra nefndarmanna verið að fara inn á afar óæskilega braut og fordæmi gefið fyrir því að allir gömlu smáskattarnir verði teknir upp að nýju án þess að staðgreiðsluhlutfallið lækki á móti. Með þessu er verið að grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar sem hefur það að markmiði að sem flestir gjaldendur séu jafnan skuldlausir við ríkissjóð. Frumvarpið mun gera

það að verkum að alls enginn verður skuldlaus og senda þarf öllum gjaldendum rukkun fyrir gjaldinu eftir á. Í núgildandi kerfi eru það eingöngu greiðendur eignarskatta sem greiða eftir á, sem og þeir sem ekki hafa staðgreitt skatta af tekjum sínum með venjulegum hætti. Er glögg grein gerð fyrir þessu í áliti ríkisskattstjóra sem birt er sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Allir smáskattar og fráhvarf frá samtímainnheimtu skatta gerir framkvæmd staðgreiðslunnar erfiðari.
    Að auki er alveg skýrt að þeir peningar, sem hér á að innheimta, eru nú þegar teknir af almenningi. Það er hrein brigð gagnvart gjaldendum að taka þennan skatt upp að nýju og gengur þvert gegn þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið af öllum þeim sem ábyrgð bera á staðgreiðslukerfinu, upptöku þess og framkvæmd. Eigi að leggja hinn sérstaka skatt á að nýju er að sjálfsögðu lágmarkskrafa að innheimtuhlutfall í staðgreiðslunni lækki á móti.
    Að því er varðar árið í ár er ástæða til að vekja sérstaka athygli á skattheimtuáformum þeim sem í frumvarpinu felast. Frumvarpið í heild á ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Hins vegar á ákvæðið um hinn sérstaka skatt að taka gildi nú þegar og koma þannig til framkvæmda til skattálagningar í sumar. Þetta eitt og sér hlýtur að teljast mjög óeðlilegt því að Framkvæmdasjóði aldraðra hafa á fjárlögum verið tryggðar 160 millj. kr. til starfsemi sinnar, en það er sú upphæð sem áætlað er að hinn eldri sérskattur í sjóðinn hefði gefið. Í framsögu heilbrigðisráðherra fyrir málinu í efri deild 11. apríl sl. kom fram að af þeim tekjum, sem skatturinn skilaði í ár, mundu 40 millj. kr. renna í sjóðinn til viðbótar þeim 160 millj. kr. sem eru á fjárlögum. Augljóslega er því ætlunin að taka mismuninn, 160 millj. kr., beint í ríkissjóð á þessu ári.
    Þessu er minni hl. algerlega andvígur og bendir jafnframt á hversu óeðlilegt það er að fela nýja tekjuöflun í ríkissjóð í frumvarpi um faglegt málefni sem efnisleg samstaða er um að flestu öðru leyti.
    Skattur þessi mun lenda á öllum einstaklingum sem hafa tekjur yfir skattleysismörkum og eru á aldrinum 16--70 ára. Hann kemur til viðbótar öðrum skattahækkunum núverandi ríkisstjórnar sem koma munu til framkvæmda nú í sumar
og sýnt hefur verið fram á að bitni ekki síst á ekkjum og ekklum. Á sama tíma er til meðferðar á Alþingi frumvarp frá ríkisstjórninni um lækkun á ýmsum öðrum sköttum sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti að illa athuguðu máli fyrir jólin, þar á meðal hinum sérstaka skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Minni hl. nefndarinnar mun flytja breytingartillögur við frumvarpið sem ganga í þá átt að falla frá þeirri nýju skattheimtu sem hér er ráðgerð og að auki tillögur um ýmsar minni háttar lagfæringar á öðrum efnisatriðum frumvarpsins.``
    Ég vil, herra forseti, jafnhliða þessu leyfa mér að vitna í það fylgiskjal sem hér er birt, en það er umsögn ríkisskattstjóra um 10. gr. frv., þ.e. skattahlið málsins. Ríkisskattstjóri segir svo, með leyfi forseta:

    ,,Á fundi með nefndinni laugardaginn 13. maí sl. var ég beðinn að veita skriflega umsögn um 10. gr. frv. til laga um málefni aldraðra, en frumvarpið fékk ég í hendur frá nefndinni kvöldið áður. Fyrst mun ég fjalla um greinina almennt og væntanlega framkvæmd hennar og síðan um einstök ákvæði hennar.
    Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 49 frá 30. mars 1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir svo orðrétt:
    ,,Í frumvarpi þessu og hliðarfrumvörpum með því er gert ráð fyrir að lagður verði á einn tekjuskattur til ríkisins sem komi í stað núverandi tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds. Þessi tekjuskattur innheimtist ásamt útsvari til sveitarfélags þannig að í reynd verður um að ræða eitt álagningarhlutfall fyrir alla launþega að öðru leyti en því að frávik í útsvarsálagningu milli einstakra sveitarfélaga kemur fram við eftiráuppgjör. Þeim aðilum, sem nú njóta tekna af þeim sérsköttum er hverfa, verður á móti tryggð hlutdeild í hinum sameiginlega skatti.```` --- Hér lýkur tilvitnun ríkisskattstjóra í þessar athugasemdir. En bréf hans heldur áfram og segir svo:
    ,,Og enn fremur: ,,Gert er ráð fyrir að í stað tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, framlags í Framkvæmdasjóð aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds komi eitt skatthlutfall, 28,5%.``
    Sérstakt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra var síðast lagt á árið 1987, skv. lögum nr. 91/1982, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, en samkvæmt nefndum lögum skyldi gjaldið lagt á í síðasta skipti á því ári. Með hliðsjón af framangreindu virðist gæta nokkurrar ónákvæmni í greinargerð með frumvarpi því sem nú liggur fyrir þinginu þar sem segir í almennum athugasemdum: ,,Tekjustofn Framkvæmdasjóðs aldraðra er hafður óbreyttur, þ.e. sérstakt gjald sem leggja skal á alla gjaldendur með ákveðnum undantekningum``, sbr. einnig þar sem segir í athugasemd við 10. gr.: ,,Óbreytt er frá gildandi lögum að sérstakt gjald, sem lagt er á alla gjaldendur með ákveðnum undantekningum, sé megintekjustofn Framkvæmdasjóðs aldraðra.````
    Hér er alveg ljóst á þessu áliti og af því sem segir í nál. minni hl. að það er verið að taka upp á nýjan leik hinn sérstaka skatt í Framkvæmdasjóð aldraðra í þessu frv. sem þó er búið að gefa skýr fyrirheit um að hafi verið felldur niður, enda var álagningarhlutfall staðgreiðslu hækkað til samræmis. Eins og ég gat um þá hefur ekkert verið kvartað undan því að þeir peningar hafi ekki skilað sér eins og verða vill gjarnan og menn kvarta um að þeir fjármunir sem ríkið á að leggja til einstakra mála skili sér ekki í einu og öllu.
    En á þessu máli eru nokkrar hliðar og að þeim er vikið í minnihlutaálitinu og að því er vikið í umsögn ríkisskattstjóra og m.a. því að taka upp að nýju sérstakan skatt samhliða staðgreiðslunni og grafa þannig undan þeirri framkvæmd og þeim fyrirheitum sem búið er að gefa.

    Auðvitað er það svo, herra forseti, að það er vel framkvæmanlegt að leggja á nýjan skatt með þessu móti og það er framkvæmanlegt að gera það með tíu gjalddögum eins og nefndin lagði til, heilar 250 kr. í hvert skipti. Það væri framkvæmanlegt þess vegna að hafa þetta 20 sinnum á ári eða 30 sinnum á ári eða vikulega, innheimta þennan skatt. Auðvitað er allt slíkt framkvæmanlegt ef menn vilja leggja í þann kostnað og þá fyrirhöfn og baka mönnum það ómak sem því fylgir. En með upptöku staðgreiðslunnar var einmitt verið að stíga mjög mikilvægt spor til að einfalda þetta kerfi allt saman, kerfi beinna skatta, og til þess einmitt að draga úr þeim flækjum sem hafa verið í okkar skattkerfi, fækka sköttunum sem á eru lagðir og gera kerfið einfaldara fyrir allan almenning, ekkert síður en þá sem eiga að framkvæma það. Hér er verið að stíga afdrifaríkt spor til baka og mér kemur mjög á óvart að þeir aðilar sem að þessu máli stóðu á sínum tíma, Alþfl. og Framsfl., skuli nú standa að því að stíga þetta skref til baka. Þetta er að mínum dómi mjög alvarlegt fordæmi gagnvart hinum gjöldunum sem lögð voru niður og þetta er líka, eins og ég hef leyft mér að kalla það, brigð gagnvart almenningi, að ég tali nú ekki um brigð gagnvart skattkerfinu sjálfu, þeim starfsmönnum sem þar vinna og hafa lagt nótt við nýtan dag að koma staðgreiðslunni í framkvæmanlegt horf undanfarin tvö ár, enda var ekkert til þeirra leitað um umsögn um þetta atriði eins og kemur fram hjá ríkisskattstjóra sem ekki hafði séð þetta frv. fyrr en hann
fékk það í hendur frá nefndinni.
    Þetta er framkvæmdahlið málsins og það sem snýr að staðgreiðslu skatta og það sem snýr að álagningunni. Markmiðið með staðgreiðslunni er að sem flestir séu kvitt gagnvart skattyfirvöldum, það sé hreint borð, það þurfi ekki að greiða neitt eftir á. En eins og kemur fram í nál. er verið að tryggja með þessu að enginn einasti gjaldandi verði kvitt þrátt fyrir staðgreiðsluna, að allir skuldi a.m.k. þetta gjald og svo hugsanlega eignarskatta eða eftiráuppgerða staðgreiðslu. Þetta er mikið óheillaspor frá þessu sjónarmiði, herra forseti.
    En þetta er líka óheillaspor og hið versta frv. að því leyti til að hér er verið að hækka skatta á almenningi á þessu ári um 200 millj. ofan á allt sem búið er að samþykkja í þinginu í vetur og það er engin grein gerð fyrir því í frv. að hérna sé raunverulega verið að leggja á 200 millj. kr. í nýjum sköttum. Það er vissulega rétt, sem ríkisskattstjóri segir, að það er villandi í greinargerð frv. að tala um að þessi ákvæði séu óbreytt frá gildandi lögum vegna þess að þau hafa ekki verið framkvæmd svona frá því á árinu 1987 og þetta ákvæði er reyndar úr gildi fallið að mig minnir. Þannig vantar þá skýringu í greinargerð frv. að þessu hafi verið breytt með tilkomu staðgreiðslunnar og að álagningarhlutfall staðgreiðslu hafi hækkað til samræmis. Þetta er því miður ekki nógu nákvæmt eða vandlega unnið að þessu leyti til þó að þetta frv. að öðru leyti sé hið vandaðasta. Þó svo að fram hafi komið í ræðu hæstv.

ráðherra í Ed., sem ég hef undir höndum og hef kynnt mér, að þarna stæði til að taka upp þetta gjald að nýju var engin sérstök grein gerð fyrir því að ekki stæði til að lækka staðgreiðsluna á móti, en ráðherra tók sérstaklega fram að af þeim 200 millj. sem skatturinn ætti að skila í ár mundu 40 millj. renna í sjóðinn en til viðbótar eru þá 160 millj. á fjárlögum. Við erum samt að tala um 160 millj. sem eru á fjárlögum og 200 millj. til viðbótar. Af þeim á sjóðurinn að fá 160 millj., fjárlagatöluna, plús 40 millj. Hvað ætli verði nú um hinar 160? Það kom ekki fram í máli ráðherra, en það er augljóst. Það fé rennur beint í ríkissjóð. Þó að hérna sé um að ræða gott og þarft málefni sem ég held að fæstir þingmenn sjái eftir peningum til, í Framkvæmdasjóð aldraðra, eru það engin vinnubrögð á hv. Alþingi að nota slíkt mál til að hækka almennan tekjuskatt um 200 millj. Það eru engin vinnubrögð. Mér finnst afar leiðinlegt að þeir sem stóðu með okkur sjálfstæðismönnum að upptöku staðgreiðslunnar vorið 1987 og að þeim breytingum sem gerðar voru á henni síðar haustið 1987, eins og hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. og aðrir góðir menn í þessari ríkisstjórn, skuli standa að þessu máli með þessum hætti. Það veldur mér miklum vonbrigðum. Ég leyni því ekki. Satt að segja undrar mig mjög að frv. skuli vera komið í þetta horf.
    Að vísu hefur flogið fyrir, herra forseti, eins og gjarnan áður að hér sé að baki eitthvert samkomulag milli stjórnarflokkanna. Hér hafi menn eina ferðina enn samið gegn betri vitund um að hafa þetta svona. Sagan segir að hér hafi Alþb. verið á ferðinni og knúið fram upptöku nefskattsins á nýjan leik gegn andstöðu Alþfl. og Framsfl. Ég tek enga ábyrgð á þessari sögu en mér kæmi ekkert á óvart þó hún væri rétt. Alþb. hefur alltaf borið sérstaka umhyggju fyrir þessum nefskatti, sagt að hann væri vinsæll skattur án þess að mér sé kunnugt um einhverjar vinsældakannanir um einstaka skatta. En Alþb. hefur þó verið sjálfu sér samkvæmt að því leyti til að það hefur frá upphafi lagst gegn því að þessi skattur yrði niður felldur, enda átti það hlut að máli þegar hann var tekinn upp fyrst. En söm er gerðin hinna aðilanna að þessu stjórnarsamstarfi sem gangast inn á þessa breytingu því að það er yfirlýst af þeirra hálfu, eins og kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra og eins og hefur komið fram í umsögnum allra manna fyrr og síðar sem á þessu máli hafa borið ábyrgð, að hér væri verið að fækka smásköttum með staðgreiðslunni og innheimta þá peninga með öðrum hætti. Ég verð að segja að mér þykir mjög óeðlilega að málum staðið af hálfu þeirra sem áður komu hér að málum, þó svo Alþb. beri enga ábyrgð á lögunum um staðgreiðslu og sé þess vegna frjálst að því að leggja til breytingar á henni, eins og er verið að gera hér, því að það er verið að leggja til breytingar á tekjuskattskerfinu í heild sinni með þessu.
    Ég lét þess getið, herra forseti, að hér hefði verið um að ræða nokkra fleiri smáskatta sem hefðu verið felldir niður. Skömmu eftir gildistöku laganna um staðgreiðslu haustið 1987 voru sett ný lög um bæði

sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld þar sem þeim sem njóta þessara tekna voru tryggðir nákvæmlega sömu peningar og áður höfðu verið með sérstökum sköttum. Í lögum nr. 89/1987 og í lögum nr. 91/1987 eru sérstök ákvæði sem tryggja söfnuðum landsins og kirkjugörðum landsins þær tekjur sem þessir aðilar höfðu þegar þeir nutu markaðra tekna af sérstökum smásköttum. Það er með öðrum orðum reynt að ganga tryggilega frá því í lögum að slíkir aðilar fái sitt og það er auðvitað það sem er eðlilegt að gera varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er eðlilegt að tryggja í lögunum að hann fái þær tekjur sem hann á í staðgreiðslufénu, í heildarupphæð innheimtrar staðgreiðslu. Það má mín vegna vera ríflegri upphæð en áður var til þeirra mála af staðgreiðslufénu ef menn vilja hafa það svo. En
það er alveg siðlaust að ætla að taka þessa peninga á tveimur stöðum og stinga helmingnum af þeim eða ríflega það í ríkissjóð og segja almenningi: Hér er góður skattur á ferðinni í Framkvæmdasjóð aldraðra, hann vilja allir borga, en segja almenningi svo ekki frá því að sami skattur sé í raun og veru innheimtur líka með staðgreiðsluálagningunni. Þetta er ekki gott. Það fer fjarri því. En til þess að sýna fram á hvernig þetta er gert ætla ég að vitna, með leyfi forseta, í lög um sóknargjöld. Þar segir í 2. gr.:
    ,,Ríkissjóður skal skila 15. hvers mánaðar af óskiptum tekjuskatti, þ.e. þeim tekjuskatti sem innheimtur er til staðgreiðslu, fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands. Fjárhæð þessi reiknast þannig að fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári greiðist ákveðin upphæð sem ákvarðast þannig`` og síðan eru reglur um það í þremur liðum, sem ég hirði ekki um að lesa hér, ákveðnar fjárhæðir á hvern einstakling sem hækka síðan eftir ákveðnum reglum sem hér eru fram settar.
    Í lögum um kirkjugarða segir svo, með leyfi forseta, í 2. gr., það er reyndar nákvæmlega sama orðalagið: ,,Ríkissjóður skal skila 15. hvers mánaðar af óskiptum tekjuskatti fjárhæð er rennur til kirkjugarða landsins. Fjárhæð þessi reiknast þannig að fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári greiðist ákveðin upphæð sem ákvarðast þannig`` og síðan koma líka ákveðnar reglur í þremur liðum um þetta gjald og þær fjárhæðir sem þar er miðað við á hvern einstakling í landinu.
    Þannig er alveg ljóst að það er hægt að tryggja hagsmuni Framkvæmdasjóðs aldraðra með sama hætti. Auðvitað dettur engum í hug að gera annað en tryggja hagsmuni þess sjóðs. En það er ekki bara það sem verið er að gera hér. Það er verið að krækja í 200 millj. aukalega í ríkissjóð árlega þó svo 40 millj. á þessu ári eigi náðarsamlegast að fá að renna í Framkvæmdasjóð aldraðra til viðbótar því fé sem er á fjárlögum.
    Þrír þingmenn þessarar deildar hafa flutt brtt. sem gengur út á það að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra tekjur í samræmi við þær sem hann áður hafði með

svipuðu sniði og gert er í lögum um sóknargjald og kirkjugarðsgjald sem ég var að vitna til. Til þess að koma til móts við meiri hlutann í þinginu, ríkisstjórnarmeirihlutann, hefur verið farin sú leið að taka upp nákvæmlega það orðalag sem meiri hl. heilbr.- og trn. gerir tillögu um í sinni útfærslu. Breytingin er hins vegar eingöngu í því fólgin að í stað þess að taka upp sérstakan nefskatt til hliðar við það fé sem kemur í staðgreiðslunni sé eingöngu um að ræða beint framlag úr ríkissjóði á ári hverju af því fé sem innheimtist í staðgreiðslunni. Til þess að sjóðurinn verði ekki snuðaður er það sérstaklega rakið í þessari tillögu hvernig að því skuli staðið.
    Þessi brtt., herra forseti, er á þskj. 1243 og ég vil leyfa mér að lesa hana með þínu leyfi:
    ,,Við 10. gr. 1. tölul. orðist svo:`` Þar er um að ræða tekjur sjóðsins. Þær skulu vera sem hér segir:
    ,,Beint framlag ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Skal framlagið miðast við 2500 kr. á hvern tekjuskattsgjaldanda á aldrinum 16--70 ára sem hefur tekjuskattsstofn 530 þús. 196 kr. eða lægri á árinu 1988. Viðmiðunarframlagið á hvern gjaldanda skal breytast árlega í samræmi við breytingar er verða kunna á byggingarvísitölu. Tekjumiðmiðun skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs skv. ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.``
    Það sem þetta þýðir, herra forseti, er það að það á að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra framlag af heildarinnheimtum tekjuskatti í staðgreiðslu sem nemur því sem nefskatturinn samkvæmt upphaflega frv. hefði ella orðið, nákvæmlega þannig að Framkvæmdasjóðurinn fái 2500 kr. á mann út úr hinu almenna staðgreiðslufé í stað þess að það sé gert með nefskatti til hliðar við það sem tekið er með staðgreiðslunni.
    Þetta orðalag, herra forseti, mundi tryggja sjóðnum það sem flm. og stuðningsmenn frv. hafa hugsað sér að hann fái í sinn hlut, mundi tryggja það fullkomlega, en það mundi hins vegar ekki tryggja að sú skattahækkun sem dulbúin er í þessu frv. og á að renna í ríkissjóð nái fram að ganga, enda á sú skattahækkun ekkert erindi inn í þetta mál. Eins og ég hef sagt er ekki á bætandi þær skattahækkanir sem þessi ríkisstjórn hefur leitt yfir landsmenn.
    En meginmálið er að þessi breyting tryggi sjóðnum það sem sagt var að hann mundi fá þegar staðgreiðslan var upp tekin og kemur í veg fyrir að almenningur þurfi að tvíborga þessa upphæð eins og ætlunin er. Flm. þessarar tillögu eru hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir auk þess sem hér stendur, en ég hygg að það sé ekki rangt frá sagt að alla þá, jafnvel úr öllum stjórnmálaflokkum, sem hafi nærri þessu máli komið, þ.e. staðgreiðslunni á sínum tíma, hafi rekið í rogastans þegar menn uppgötvuðu hvað hér var að gerast. En það er kannski ekki við því að búast að hv.

deildarmenn í Ed., sem
eru búnir að afgreiða þetta mál fyrir sitt leyti, hafi áttað sig á því hvað hér er á ferðinni vegna þess að það er engin grein gerð fyrir því í frv. Það er þess vegna ekkert skrýtið þó að menn hafi ekki tekið eftir því að hér er um að ræða nýjan skatt og verið að tvískattleggja fyrir því sama. Það eru ekki allir sem hafa fylgst svo grannt með staðgreiðslu skatta að menn hafi það á hraðbergi hvað hér er að ske og ekkert við því að búast. En það verður að gera þá kröfu að mál séu þannig fram lögð í hvorri deildinni sem það er að allir þingmenn geti sett sig inn í málavöxtu og gert sér grein fyrir því sem málið gerir ráð fyrir, en því var því miður ekki að heilsa í þessu máli og það ber að harma.
    Ég held, herra forseti, að það sé alveg nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu hver afstaða Alþfl. er í þessu máli, ekki síst ráðherra Alþfl. Ráðherrar Alþfl., ekki síst formaður flokksins, hæstv. utanrrh., hafa farið um víðan völl í tvö ár eða svo og barið sér á brjóst fyrir að hafa komið á staðgreiðslu skatta á Íslandi. Nú vita allir að hans hlutdeild í því máli var miklu minni en hann gefur sjálfur í skyn og er það furðuleg framkoma hjá ráðherra að eigna sér slíkt mál með þeim hætti sem hann hefur gert. En þrátt fyrir að hlutur hans sé nú minni en hann hefur látið í veðri vaka hygg ég að hann sé og hafi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið framfaraspor að fækka smásköttunum og taka þessa innheimtu alla inn í staðgreiðslukerfið. Ef það er ekki rétt, ef það er rangur skilningur, verður það að koma fram því að þá eru öll rök þessa ráðherra, allur málatilbúnaður hans í sambandi við einföldun skattkerfisins, fallin um sjálf sig og þá er eins gott að það liggi hér fyrir. Þess vegna vildi ég mega mælast til þess við forseta að utanrrh. yrði kallaður til. Þó að hann sé ekki sá aðili sem flytur þetta mál og þó að heilbrmrh. sitji hér --- og ég kann honum þakkir fyrir það --- held ég að þetta sé eðlileg ósk miðað við allan aðdraganda málsins. ( Forseti: Við því verður orðið. Það verður athugað hvort tök eru á því.) Ellegar viðskrh. ef utanrrh. er vant við látinn.
    Það má svo kannski minna á það meðan við bíðum eftir öðrum hvorum ráðherranum að verkalýðshreyfingin kom mikið við sögu þegar staðgreiðslan var upp tekin. Ef ég man rétt var af hennar hálfu lögð mikil áhersla á þessa einföldun og var lögð mikil áhersla á að taka út þessa litlu skatta sem ekkert gera annað en að flækja innheimtuna bæði fyrir greiðendur, innheimtumenn og álagningaraðila. Það er ekki bara eitthvert sérstakt hagsmunamál eða áhugamál þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu. Það er fjarri því. Þetta er ekki slíkt mál sem ég er að gera að umtalsefni.
    En ég vildi meðan við bíðum, herra forseti, vekja athygli á því að á því þingskjali sem ég nefndi, 1243, er önnur brtt. sem málið varðar um það að 2. málsl. 31. gr. falli brott. Til skýringar vil ég taka fram að hér er um að ræða gildistökuákvæði frv. þar sem því er svo lymskulega fyrir komið að þrátt fyrir að frv. í

heild taki ekki gildi fyrr en um áramót tekur þetta ákvæði um skattinn gildi nú þegar. Gildistakan gagnvart þessu atriði er tekin út úr frv. og látin ná fram nú þegar þó svo að frv. í heild taki ekki gildi strax. Þetta nær engri átt og þess vegna er gerð tillaga um að þetta falli brott.
    Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að koma til fundar því að ég vildi gjarnan beina til hans spurningum um þetta mál þar sem hann hefur komið að því á fyrri stigum sem fjmrh. og eins og kunnugt er látið mjög í veðri vaka að hann og hans flokkur hafi verið frumkvöðlar að því að koma á staðgreiðslu skatta í þeirri mynd sem hún er í á Íslandi. En eins og kunnugt er er hún í þeirri mynd að þetta kerfi er mun einfaldara en víða annars staðar og ýmsir smáskattar voru felldir niður við upptöku staðgreiðslunnar og felldir inn í hana og álagningarhlutfallið hækkað til samræmis.
    Hæstv. utanrrh. hefur látið hafa eftir sér við ýmis tækifæri hér á Alþingi og annars staðar að einföldun skattkerfisins sé hið mesta og besta mál, sem það að sjálfsögðu er, og það sé stefna hans flokks að einfalda það. Það hefur ekki farið fram hjá neinum þegar hæstv. ráðherra er að þakka sér og sínum flokki það sem gert hefur verið á því sviði. Ég vil reyndar láta það koma fram og skal endurtaka það fyrst hann er genginn í salinn að ég tel að hann hafi farið algerlega offari í því að eigna sjálfum sér og Alþfl. upptöku staðgreiðslu skatta, sem hér var vorið 1987 þegar Alþfl. var í stjórnarandstöðu, þó að hann hafi sem fjmrh. átt aðild að því að vinna málið frekar á síðari stigum og skal ekki gert lítið úr því. En það var einmitt eitt af því sem þá var ákveðið, fyrst við upptöku staðgreiðslukerfisins, síðan við nánari athugun málsins, að það væri nánast skilyrði fyrir þessari miklu einföldun að taka alla litlu skattana inn í staðgreiðsluhlutfallið sjálft, að útrýma smásköttunum til að auðvelda framkvæmdina og gera þetta sem einfaldast og auðveldast til skilnings fyrir alla aðila. Hér er verið að stíga skref til baka. Hér á að taka upp að nýju einn af þessum sköttum en halda samt sama álagningarhlutfalli og áður var búið að gera ráð fyrir þannig að hér er verið að taka sömu peningana tvisvar og auk þess að hverfa frá því grundvallaratriði að það yrðu engir smáskattar lagðir á samhliða staðgreiðslukerfinu. Frv. var
að vísu þannig í pottinn búið, herra forseti, að þessu leyti til að á því voru miklir gallar sem ríkisskattstjóri hefur lagfært fyrir meiri hl. nefndarinnar. T.d. að ætla að innheimta þennan smáskatt, 2500 kr., í tíu skipti á ári hverju sem mundi varla svara kostnaði við útgáfu og útsendingu innheimtuseðla og því umstangi sem því fylgir. En það er annað mál. Ríkisskattstjóri leggur til að þetta verði gert í einni greiðslu.
    En aðalmálið er það og það er mitt erindi við hæstv. utanrrh.: Hefur Alþfl. skipt um skoðun í þessu máli? Er það virkilega svo að öll rökin um að gera skattkerfið einfaldara og skilvirkara voru út í loftið? Er það virkilega svo að nú, einu og hálfu ári eftir að utanrrh. var sem fjmrh. að vinna í þessum málum, sé

það orðið allt í lagi að taka þetta skref aftur á bak og taka þennan skatt upp á nýjan leik? Og ef það er svo vænti ég þess að hæstv. utanrrh. greini mönnum frá ástæðunum fyrir því eða hver skýringin er á þessari afstöðubreytingu Alþfl. því að vissulega skulda Alþfl. og Framsfl., en ekki síst Alþfl. og formaður hans vegna ummæla hans um þessa staðgreiðslu fyrr og síðar, Alþingi skýringu á því hvernig þetta mál er til komið. Og hann skuldar líka Alþingi skýringu á því hvernig stendur á því að hér er verið að nota tækifærið til að hækka skatta á almenningi um 200 millj. kr. án þess að segja frá því, sem á síðan að stinga í almennu hítina hjá ríkissjóði vegna þess að Framkvæmdasjóðnum eru tryggðir þessir peningar með öðrum hætti.
    Ég held að ef hæstv. utanrrh. vill vera sá mikli staðgreiðslufrömuður sem hann hefur gefið sig út fyrir að vera hljóti hann að halda sig við fyrri afstöðu sem hann hefur hér lýst sem fjmrh. að það eigi ekki að vera með neina smáskatta í þessu kerfi og það eigi að hafa þetta sem einfaldast þannig að þeir sem framkvæma þetta geti gert það með góðu móti og þeir sem borga skattana skilji hvað þeir eru að borga í hvert sinn, en það sé ekki verið að hlaða ofan á þetta alls kyns smágjöldum þannig að fólk botni ekkert í því lengur hvað það er að borga.
    Ég sagði áður en ráðherra gekk í salinn að þessi breyting þýddi að það verður enginn maður skuldlaus við hið opinbera eftir að þetta gjald verður lagt á. Markmiðið með staðgreiðslu var að gera sem flesta skuldlausa þannig að menn þyrftu ekki að vera að gera upp eftir á. Nú er séð fyrir því að það verður ekki einu sinni í undantekningartilfelli að menn verða skuldlausir. Það kemur bara aldrei fyrir vegna þess að þetta er nefskattur á alla yfir skattleysismörkum og þess vegna verða allir menn að borga hann eftir á þó svo að þeir skuldi skattinum að öðru leyti ekki nokkurn hlut, hvorki eignarskatta né annað.
    Hver er skýringin á því að hér er verið að stíga þetta skref til baka? Á maður að trúa því sem hér hefur flogið fyrir að það hafi verið harðfylgi Alþb. eins sem hafi knúið fyrrv. aðstandendur þessa máls til undanhalds? Á maður að trúa því að Alþb. hafi hér, eins og flogið hefur fyrir, knúið samstarfsflokkana til að leggja á þennan nefskatt að nýju, grafa þannig undan framkvæmd staðgreiðslukerfisins og stinga svo sem eins og 200 millj. kr. í vasa ríkissjóðs í leiðinni svo lítið beri á? Er það það sem maður á að trúa, sú saga sem hér hefur flogið fyrir að þetta sé vegna ósamkomulags við Alþb. sem hafi viljað fara þessa leið og knúið hana fram gegn vilja annarra flokka í stjórnarsamstarfinu? Það má vel vera að það sé svo, en þá fer heldur lítið fyrir hinum miklu fyrrv. staðgreiðslufrömuðum sem annað veifið belgja sig út af afrekum sínum á því sviði. Þá fer heldur lítið fyrir þeim. Þá fer þetta að minna á málið sem var á dagskrá áðan um tekjustofna sveitarfélaga þar sem menn koðna niður hver um annan þveran þvert gegn fyrri afstöðu og yfirlýsingum eigin flokks og flokksformanns.

    Nei, herra forseti. Þetta mál er að öllu leyti hið óvandaðasta og á ég þá ekki eingöngu við tæknilegan undirbúning málsins sem var mjög ábótavant eins og ríkisskattstjóri benti á og er búinn að afhenda meiri hl. nefndarinnar nýjar tillögur þannig að þeir geti þá lagt þetta fram í framkvæmanlegu formi. Það er ekki bara hið óvandaðasta að því leyti til. Það er óvandað af því að hér er verið að ganga gegn fyrri yfirlýsingum gagnvart almenningi, hér er brigð á ferðinni gagnvart almenningi í landinu og hér er verið að gera það með þeim hætti að láta líta svo út sem hér sé ekki um nýjan skatt eða skattaaukningu að ræða. Þetta er það sem ég leyfi mér að kalla óvönduð vinnubrögð, svo maður taki nú ekki dýpra í árinni, afar óvönduð vinnubrögð, og afar leiðinlegt að menn í ríkisstjórninni skuli hafa látið tala sig inn á þetta, ekki síst þeir sem að þessu máli hafa komið á fyrri tíð, bæði í tíð síðustu ríkisstjórnar og í tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar þegar lögin um staðgreiðslu voru upphaflega sett. Það er verið að svíkja það sem þá var sagt, það er verið að gera annað en lofað var og það er verið að gera það með lævíslegum hætti.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, herra forseti. Ég vil eingöngu segja það um önnur atriði frumvarpsins að við hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flytjum brtt. á þskj. 1244 við 27. gr. frv. Og um hvað fjallar 27. gr. frv.? Jú, hún fjallar um, herra forseti, með hvaða hætti vistmenn á
þjónustustofnunum fyrir aldraða skuli standa sjálfir undir kostnaði sem af dvöl þeirra hlýst. Þessi grein fjallar um með hvaða hætti vistmenn skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða. Hér er verið að leggja til, herra forseti, að vistmenn sem hafa tekjur umfram heilar 11 þús. kr. á mánuði skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða. Og hér segir: ,,Með tekjum sínum sem eru umfram 11 þús. kr. skal vistmaður greiða vistarkostnað sinn``, greiða dvalarkostnað sinn, ,,að hluta eða öllu.`` Það er sem sagt verið að segja að ef menn hafa einhverja aura umfram 11 þús. kr. á mánuði geti þeir gjört svo vel og borgað dvalarkostnað sinn annaðhvort að hluta til eða að öllu leyti. Svo á að útfæra þetta nánar í reglugerð. Einhvern tímann hefði þetta verið kallaður sjúklingaskattur er ég hræddur um. Einhvern tímann hefði Alþb. rokið upp til handa og fóta og talað um sjúklingaskatt af minna tilefni en þessu því hér er verið að leggja skatt á gamla fólkið, leggja gjöld á gamla fólkið sem á að vistast á þessum stofnunum og það á að miða við tekjur þess.
    Mér dettur ekki í hug að halda slíku að fólki með sams konar rökum og Alþb. hefur gert sig margsekt um. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt að vistmenn taki einhvern þátt í dvalarkostnaði sínum á þessum stofnunum ef þeir hafa efni á því. Ég tel hins vegar óeðlilegt að það sé gert ráð fyrir því að einhverjir vistmenn borgi þennan kostnað í einu og öllu, þeir borgi hann alveg á meðan sumir borgi ekki neitt og aðrir borgi einhvern hluta. Ég held að við ættum að

sameinast um þá stefnu að ríkið eða hið opinbera leggi þarna öllum eitthvað til samkvæmt nánari ákvörðun væntanlega í þeirri reglugerð sem hér er vikið að, en það sé ekki uppálagt að tilteknir vistmenn, sem hafa einhverjar tekjur umfram 11 þús. kr., borgi allan sinn kostnað en aðrir ekki. Hér er auðvitað verið að bjóða upp á nýtt óréttlæti í þessum málum.
    En hitt mega þeir eiga, sjúklingaskattsmennirnir frá fyrri tíð --- og einn þeirra er hæstv. menntmrh. sem á ekki sæti hér í deildinni en gerði sér mjög tíðrætt um þá hugmynd --- að þeir hafa viðurkennt réttmæti þess sjónarmiðs að vistmenn á dvalarstofnunum og væntanlega aðrir taki einhvern þátt í kostnaði sem af dvöl þeirra hlýst. Auðvitað var þetta alltaf rangnefni og uppnefni, sjúklingaskattur, og auðvitað var fráleitt að slíkt orð skyldi komast inn í umræður manna um þessi mál og um alvarleg málefni þegar tillaga var uppi um að menn með miklar tekjur tækju hugsanlega einhvern þátt í matarkostnaði sínum á sjúkrahúsum. Það var hugmyndin sem var hér til umræðu fyrir einum fimm árum ef ég man rétt og Alþb. trylltist út af og fór hamförum út af, að tilteknir efnamenn í landinu mættu ekki greiða eitthvað af þeim matarkostnaði sem þeir mundu ella spara sér því að þeir borga ekki kostnað fyrir mat í heimahúsum meðan þeir dvelja á sjúkrahúsum. Það heiti var rangnefni. En það er rétt mátulegt á þetta lið að standa að frumvarpi þar sem sama hugmynd er lögð fram, að vistmenn sem hafi tekjur umfram ákveðna upphæð leggi eitthvað til með sér varðandi greiðslu dvalarkostnaðar þó að viðmiðunartekjurnar séu svo litlar, 11 þús. kr., að það sé spurning hvort það taki því að fara af stað með þetta á þessum grundvelli og hvort ætti ekki eitthvað að hækka þessar viðmiðunarfjárhæðir. En það sem skiptir máli varðandi þetta er að Alþb. er með þessu að falla frá andstöðu sinni við það sem það hefur kallað sjúklingaskatt. Er það út af fyrir sig mjög ánægjulegt að það skuli fram komið í tengslum við þetta mál. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um það.
    En brtt. okkar Ragnhildar Helgadóttur gengur út á að fella brott orðin ,,eða öllu`` sem vísar til þess að einhverjir vistmenn standi undir dvalarkostnaði sínum á þessum stofnunum að öllu leyti. Það er sanngjarnt að mínum dómi að menn geri það að hluta til, en það er ekki sanngjarnt að menn geri það að öllu leyti þegar ýmsir aðrir fá þetta algjörlega frítt eða eiga að borga lítinn hluta.
    Við í 1. minni hl. nefndarinnar, við hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, stöndum að till. á þskj. 1251 sem nefndin öll flytur og ég skal ekki gera þær að frekara umræðuefni hér.
    En ég vil aðeins segja í lokin að það er ansi hart að standa upp í umræðum um málefni aldraðra, þurfa að standa upp og biðja um orðið um þetta mál, sem er hið mesta þarfamál í eðli sínu, og gera athugasemdir um skatta. Það er ekki eðlilegt að þannig skuli að málum staðið að menn neyðist til þess að flytja ræður um skattamál þegar verið er að tala

um frumvarp um málefni aldraðra, sem samstaða er um að flestu leyti og er nauðsynlegt að taki gildi ekki síðar en um næstu áramót. En þetta er því miður þannig í pottinn búið, herra forseti, að það verður ekki hjá því komist að gera þessar athugasemdir og flytja þá brtt. að framkvæmdasjóðnum verði tryggðar sínar tekjur eins og eðlilegt er án þess að ríkissjóður hirði jafnháa upphæð af staðgreiðslufénu af almenningi þvert gegn fyrri loforðum. Það er ekki hægt að una því og það verður ekki gert.