Málefni aldraðra
Föstudaginn 19. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur erum sammála megininntaki þessa frumvarps og deilum þeirri skoðun sjálfsagt með öðrum þingmönnum að tími hafi verið til kominn að setja nýja löggjöf um málefni aldraðra.
    Við eigum ekki sæti í heilbr.- og trn. Nd. og stöndum því ekki að neinu nál. en að nokkrum brtt.
    Eftir að málið kom úr Ed. þar sem þegar höfðu verið gerðar á því nokkrar breytingar voru lagðar hér fram brtt. að auki og vil ég fyrst gera að umtalsefni brtt. á þskj. 1251 þar sem lagðar eru til orðalags- og áherslubreytingar við nokkrar greinar sem allar miða að því með einum eða öðrum hætti að auka sjálfstæði og frumkvæði aldraðs fólks sem þó þarf á einhverri þjónustu að halda.
    Það er mjög mikilvægt að aldraðir geti sótt sér þá þjónustu sem þeim er nauðsynleg hverju sinni án þess að þar með sé búið að taka af þeim ráðin og þeir séu í rauninni lentir inni í völundarhúsi stofnana sem þeir eiga þá ekki afturkvæmt úr og að öll hjálp þeim til handa taki mið af sjálfshjálp eins og það er orðað hér og þannig sé við haldið sem lengst getu þeirra til að búa heima eins lengi og þeir sjálfir kjósa og geta og eins að af þeim sé ekki tekið frumkvæði.
    Það er líka mikilvægt að sú þjónusta sem aldraðir fá sé skipulögð í samráði við þá sjálfa og um það er hér ákvæði en það séu ekki einungis sérfræðingar sem meta fyrir einstaklinginn hvaða hjálp hann eigi að fá. Við álítum að það séu mikilvægar breytingar sem koma inn í þessari brtt., ekki síst hvaða alla hugmyndafræði varðar að baki öldrunarþjónustu.
    Önnur er sú brtt. sem undirrituð er á, þ.e. á þskj. 1243, og er um skattlagningu til þessa málaflokks. Það gerist ekki þörf að fjölyrða mikið um það þar sem hv. 17. þm. Reykv., sem talaði næstur á undan mér, skýrði mjög ítarlega, vægt til orða tekið mjög ítarlega, hvers vegna þessi brtt. er flutt. Það er alveg ljóst að þessi skattur er nú þegar inni í staðgreiðslukerfinu og í þeirri skattprósentu og hefur skilað sér til þessa málaflokks eins og til er ætlast. Þarna er því í rauninni verið að leggja á annan skatt til sama málaflokks án þess að skattprósenta í staðgreiðslunni lækki og því er þarna um tvísköttun að ræða, en varla er við því að búast að það leiði til þess að framlag til þessa málaflokks verði tvöfaldað.
    Í fyrsta lagi er þarna stigið skref í áttina til þess að auk staðgreiðslu verði lagðir á ýmsir sérskattar án þess að staðgreiðsluprósentan breytist og um leið er líka stigið það skref að rugla það kerfi sem var ákveðið að taka upp og var ekki lítið rætt um þá einföldun alla sem því fylgdi og að hvergi mætti raska. Því væri fróðlegt að fá skýringar á því hvers vegna þeir sömu ráðherrar og tóku sér orðið ,,einföldun`` oftar í munn en nokkrir aðrir til stuðnings staðgreiðslunni eru nú fylgjandi því fyrirkomulagi að taka einn skatt út fyrir staðgreiðslukerfið með þessum hætti.
    Samkvæmt því sem meiri hl. nefndarinnar leggur til, þ.e. að setja 2500 kr. nefskatt á alla þá sem

uppfylla þau skilyrði sem hér eru tiltekin, er áætlað að skatturinn skili 200 millj. kr. Nú er þetta að sönnu ekki hátt hlutfall af heildarskattheimtu en þó nógu há upphæð til þess að það þykir þess virði að semja um álíka upphæðir við launþegahreyfingar t.d. og er skemmst að minnast nýgerðs kjarasamnings við ASÍ þar sem t.d. skattur á verslunar- og skrifstofuhúsum, sem lagður var á í miklu óðagoti nú um áramótin, er felldur niður. Þar er um að ræða 100 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Sömuleiðis er lofað niðurfellingu lántökugjalds og þar tapast aðrar 100 millj. Það hvarflar rétt að manni að þetta hafi ekki mikið staðið í m.a. hæstv. fjmrh. vegna þess að hann hafi munað eftir því í sömu andrá að hann væri þegar búinn að sjá fyrir þessum peningum annars staðar og því útlátalaust fyrir hann að færa þetta úr einum vasa í annan og birtast þannig gagnvart atvinnurekendum sem hinn frelsandi engill um leið og hann skirrist ekki við að leggja sömu upphæð á almenning í þessu landi. Það kann vel að vera að ekki sé upphæðin 200 millj. kr. há mæld á mælikvarða t.d. fjárlaga eða heildarskattheimtu. Það kann líka vel að vera að 2500 kr. sé heldur ekki há upphæð mæld á mælikvarða þeirra sem há laun hafa, en 2500 kr. kunna að skipta miklu máli fyrir fjölda manns sem eiga nú að bera þennan skatt. Skattleysismörk eru ekki svo há að það sé réttlætanlegt að taka nýjan skatt af því fólki sem sleppur yfir þau mörk.
    Það er líka athyglisvert að þennan nýja skatt sem meiri hl. leggur til að verði upp tekinn á að leggja á frá og með 1. ágúst, það verður að innheimta hann á þessu ári, en lögin um málefni aldraðra taka ekki gildi fyrr en á næsta ári þannig að þar er enn um aukatekjur að ræða fyrir ríkissjóð sem hann getur notað til annarra hluta þangað til að því kemur að nota þennan skatt til aldraðra á næsta ári.
    Að öllu þessu sögðu finnst okkur kvennalistakonum fullkomlega eðlilegt að standa að þessari brtt. á þskj. 1243 sem gengur út á að þessi sami skattur skuli enn þá vera með sama hætti í staðgreiðslukerfinu og er þó reynt með orðalagi að tryggja að sama upphæð og áætluð er í tillögum meiri hl. skili sér
til þessa málaflokks.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um inntak eða efni þessa frv. og held að að þessum þætti slepptum, þ.e. fjármögnun til þessa málaflokks, megi allir harla vel una við frv. eins og það er að öðru leyti, en vil líka benda á mikilvægi þess að það hefur verið sett endurskoðunarákvæði inn í þessi lög sem ætti að vera sjálfsagt og eðlilegt með öll slík lög sem eru eins yfirgripsmikil og varða eins miklu fyrir marga einstaklinga og lög af þessu tagi gera.