Málefni aldraðra
Föstudaginn 19. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til 2. umr. um málefni aldraðra er gott málefni eins og fram hefur komið hjá þeim sem hér hafa talað við umræðuna og fullkomlega tímabært að endurskoða þau sex ára gömlu lög sem sett voru um öldrunarmál á sínum tíma og voru þau þó mikil framför frá því sem verið hafði í þessum efnum og hafa orðið til þess að bæta mjög verulega stöðu aldraðra víða um land, alveg sérstaklega tilkoma Framkvæmdasjóðs aldraðra og sá stuðningur sem sá sjóður hefur getað veitt við uppbyggingu á húsnæðisaðstöðu fyrir aldraða alveg sérstaklega.
    Það er ánægjulegt þegar litið er til baka hvernig tekist hefur með þessari lagasetningu að bæta stöðu þeirra í þjóðfélaginu sem allt of lengi höfðu beðið eftir að fá að einhverju leyti þá skuld greidda frá samfélaginu sem það átti í við þá sem lokið höfðu eða voru að ljúka dagsverki sínu, ævistarfi, og gildir það vissulega enn að mikið vantar á að þessi mál séu komin í viðhlítandi horf í landinu og því full ástæða til þess ekki aðeins að taka tillit til breytinga og reynslu á liðnum árum frá því að lögin voru sett heldur ekki síður að tryggja áframhaldandi stuðning ríkisins við málefni aldraðra með því að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra áfram tekjur til að styrkja sveitarfélög í landinu til átaka á þessu sviði og þá ekki síst fámennari sveitarfélög í dreifbýli við uppbyggingu öldrunarþjónustu eins og að er stefnt með ákvæðum þessa frv.
    Það er fyrst og fremst þessi tekjuöflun sem hefur orðið mönnum hér umræðuefni, hvernig að henni er staðið, og liggja fyrir brtt. við málið. Ég ætla að gera þetta, virðulegi forseti, að nokkru umtalsefni vegna þess að hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða og má segja með vissum hætti ákvarðandi mál, stundum kallað ,,prinsipp``-mál á erlendu máli, hvort leggja eigi á nefskatta og hvort það eigi að gera það í því formi sem hér um ræðir þrátt fyrir upptöku staðgreiðslukerfis skatta sem upp var tekið ekki alls fyrir löngu með góðu samkomulagi á hv. Alþingi og þarf ekki að rifja þau efni sérstaklega upp.
    Það sem kemur á óvart við þessa umræðu er m.a. að þeir sem mæla fyrir breytingum á frv. frá því sem það var fram lagt tala um að það komi mjög á óvart að það skuli gerð tillaga um að leggja á eða framlengja gjaldtöku í formi svokallaðs nefskatts á hvern gjaldanda á yfirstandandi ári og nýta það áfram sem tekjustofn fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Það er mjög undarlegt ef einhverjum hefur yfirsést hvað í frv. fólst eins og það var lagt fram í upphafi. Málið fór til Ed. og þar lá alveg skýrt og ljóst fyrir að hér var um að ræða framlengingu á skatti sem var og viðbótarskatt við þá staðgreiðslu sem ákveðin hefur verið. Þetta blasti við hverjum læsum manni og hæstv. heilbrmrh. hefur rifjað upp hvernig umræður gengu um þetta efni í hv. Ed. m.a. af talsmönnum Sjálfstfl. sem stóðu þar að sameiginlegu nál. með stjórnarliðum varðandi afgreiðslu málsins, höfðu þar fyrirvara, ekki við þetta atriði að ég hygg heldur í sambandi við

spurninguna um hvort ætla ætti vistmönnum að eiga hlut að gjaldtöku sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. Síðan koma talsmenn Sjálfstfl. í hv. þingdeild og lýsa yfir alveg sérstakri undrun á að hér sé verið að smygla inn einhverjum nýjum skatti og eru með brtt. um efnið þvert á sjónarmið og tillögur flokkssystkina sinna í hv. Ed. sem stóðu með öðrum flokkum að því þar að afgreiða málið úr deildinni með þessari gjaldtöku. Þð er ekki hægt að túlka það öðruvísi en sem móðgun og lítilsvirðingu við hv. fulltrúa Sjálfstfl. sem sæti eiga í hv. Ed. að vera að senda þeim slíkar sneiðar eins og hér er gert af hv. 17. þm. Reykv. í löngu og ítarlegu máli sem hann flutti um þetta efni og lét það berast, það hefur væntanlega ekki heyrst yfir í Ed., að þeim hefði algjörlega yfirsést það sem stendur í 10. gr. þess frv. sem við ræðum hér um málefni aldraðra að það væri verið að leggja á gjaldtöku á einstaklinga umfram það sem gert er ráð fyrir í staðgreiðslu skatta og þetta hafi komið algjörlega á óvart þegar menn uppgötvuðu þetta í hv. Nd.
    Ég verð að segja að skipulagið í Sjálfstfl. er greinilega með nokkuð öðrum hætti en ég þekki til í flokkum ef þetta mál hefur verið rætt sérgreint í þingflokki, annars vegar af fulltrúum sem sæti eiga í hv. Ed., fulltrúum Sjálfstfl. þar, og hins vegar af þeim sem eiga sæti hér í hv. Nd. Þeir hafa ekki einu sinni haft fyrir því að bera sig saman á göngunum um þessi efni. Það er síðan borið fram í ræðu að þetta komi alveg sérstaklega á óvart.
    Það getur vel verið og er út af fyrir sig ekkert við því að segja að það séu mismunandi sjónarmið milli manna í Sjálfstfl. Það gerist víða í flokkum að ekki eru allir sammála og kannski liggja skilin þannig að þau falli að deildaskiptingunni á hv. Alþingi í sambandi við þetta efni. En ég hefði farið öllu gætilegar í umræðuna um þetta efni ef ég hefði verið í hlutverki hv. 17. þm. Reykv. í þessu máli og gætt þess að sneiða ekki með þeim hætti, vissulega með óbeinum hætti, að flokkssystkinum mínum eins og ég les út úr máli hans. Það liggur fyrir, virðulegur forseti, á nál. frá Ed. á þskj. 1101 að allir nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. þeirrar deildar skrifa undir málið,
fulltrúar Sjálfstfl. með fyrirvara sem ég hef skilið svo að varði ekki það mál sem er aðallega gert að ágreiningsefni. Raunar kom það glöggt fram í máli hæstv. heilbrmrh. að svo var ekki þegar hann vitnaði þar til ummæla eins fulltrúa Sjálfstfl. í hv. Ed. og á þskj. 1103 er ekki að finna brtt. um þetta efni heldur eingöngu við 27. gr. frv.
    Ég tel að það sé engin goðgá að leggja á gjald með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, til svo ágæts og nauðsynlegs málefnis sem hér er um að ræða og sem menn greinir ekki á um að þurfi að sinna. En til þess að það sé gert með þeim hætti sem nauðsyn krefur þarf að tryggja tekjur í þessu skyni og ég á eftir að sjá það, og ég segi það ekki eingöngu við hv. fulltrúa Sjálfstfl. heldur einnig við fulltrúa Kvennalistans hér í deildinni, að menn tryggi með

viðhlítandi hætti sambærilegar tekjur til málefna aldraðra og til Framkvæmdasjóðs aldraðra eins og gert er ráð fyrir með þeirri tekjuöflun sem felst í 10. gr. þessa frv. með brtt. eins og þeirri sem hér liggur fyrir og það til frambúðar.
    Hér er í rauninni verið að segja að með því að fara í ákvarðanir eins og felst í brtt. sjálfstæðismanna og fulltrúa Kvennalista sem liggur fyrir á þskj. sem tengist þessu máli er verið að leggja til að ákveðin hliðstæð upphæð verði greidd með framlagi ríkisins af fjárlögum og í rauninni væru menn með því að fara inn á þá stefnu, sem þar er verið að leggja til, að gera því skóna að við eigum að hólfa sundur framlög ríkisins til einstakra málaflokka utan fjárlaga og taka væntanlega, því að það er væntanlega ekki verið að tjalda til einnar nætur heldur að ætla þessum tekjustofni að standa áfram sem tekjum fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra, enda gert ráð fyrir á þskj. 1243, sem ég hef nú fundið hér í blöðum mínum, að þetta beina framlag verði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Það þarf þá auðvitað að taka mjög hliðstætt á öðrum málum og við fáum það viðfangsefni á Alþingi að marka það varðandi margháttuð framfaramál í landinu að ákvarða til margra ára í senn að svo og svo mikið skuli renna til viðkomandi málaflokks. Sú stefna hefur verið uppi, og ég er ekki að segja að hún sé einhlít, alls ekki, að það eigi að taka ákvarðanir um slíkt með ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Ég hef verið fylgjandi því að menn gerðu áætlanir fram í tímann og gætu tekið stefnumarkandi á fjárveitingum til meira en eins árs í senn. En ég hef ekki heyrt alveg sérstakar undirtektir við það frá talsmönnum Sjálfstfl. fyrr en þá núna ef þeir eru með þessari brtt. á þskj. 1243 að leggja til að svona háttur verði upp tekinn varðandi marga málaflokka, málefni aldraðra, skólamálin væntanlega og fjölmargt fleira sem tengist framlögum ríkisins til sameiginlegrar félagslegrar þjónustu í landinu.
    Ég sé enga fulltrúa Kvennalistans hér í þingsal, virðulegur forseti, og mér þykir leitt ef ég er að tala hér til þingmanna á bak og vildi því biðja hæstv. forseta að gera hv. 18. þm. Reykv., sem er meðflm. að brtt. á þskj. 1243, viðvart um það að ég sé að ræða efni sem hana varðar og hennar tillögur hér. ( Forseti: Það mun verða gert.)
    Við alþýðubandalagsmenn höfum ekki verið neitt feimnir við að bera fram tillögu um þá tekjuöflun sem hér er um að ræða. Við stóðum að því á sínum tíma og áttum þátt í því, ég hygg frumkvæði í því, að tryggður var tekjustofn með þeim hætti sem hér um ræðir. Þó minnir mig að hv. 9. þm. Reykv., nú hæstv. félmrh., hafi einnig átt þar góðan hlut að máli að hér var um nefskatt að ræða sem svo var kallaður í sambandi við þennan málaflokk og á hún heiður skilið fyrir það að eiga hlut að því og stendur auðvitað að því sem ráðherra í núv. ríkisstjórn að þessi tekjustofn er framlengdur þó að þetta málasvið heyri ekki undir hana, málefni aldraðra.
    Ég tel að það mætti í rauninni taka upp þennan hátt varðandi fleiri efni til þess að tryggja félagslegum

undirstöðuþáttum, nauðsynjamálum í samfélaginu lágmarksfjárveitingar úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Mér finnst ekki ástæða til þess að bíta sig svo fast í staðgreiðslukerfi skatta að það eigi ekki að koma til greina að leggja á afmarkaða skatta til tiltekinna málefna með þeim hætti sem er gert ráð fyrir í þessu frv. um málefni aldraðra. Af því að ég óskaði eftir nærveru hv. 18. þm. Reykv. í sambandi við þetta mál vil ég nefna að mér kom nokkuð á óvart að fulltrúar Kvennalistans og hv. þm. skuli standa með Sjálfstfl. að brtt. sem hér liggur fyrir um þetta efni vegna þess að ef hv. þm. og aðrir þingmenn Kvennalistans ættu eftir að eiga kannski gildari hlut að máli í sambandi við landsstjórn og fjárveitingar en nú er kann að vera að það renni upp fyrir þeim að það er býsna erfitt að tryggja fjárveitingar til sameiginlegrar þjónustu, nauðsynjamála, með hinni almennu skattheimtu ríkisins og ég nefni t.d. í þessu samhengi spurninguna um uppbyggingu fyrir yngsta fólkið í landinu, fyrir börnin, uppbyggingu dagvistarstofnana og dagheimila sem er eitt af baráttumálum Kvennalistans en sem hefur á undanförnum árum fengið allt of lítið í sinn hlut úr sameiginlegum sjóðum. Raunar hefur sá háttur verið upp tekinn nú með samþykkt á frv. til l. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að varpa þeim málaflokki alveg yfir á sveitarfélögin. Ég veit að það er ekki að tillögu Kvennalistans að það er gert og ég var í hópi þeirra í hv. þingdeild sem vöruðu við því að varpa þessum
málum dagvistarstofnananna alfarið yfir á sveitarfélögin að því er snertir kostnaðarhlut og átti hlut að því með fulltrúum Kvennalistans að ákvæði um hlutdeild ríkisins, eftirlitshlutverk og umsjónarhlutverk, var þó stytt í sambandi við afgreiðslu þess máls. En ég tel að eitt af því sem við þurfum að líta til í sambandi við uppbyggingu dagvistarstofnana í landinu sé einmitt það að tryggja aukin framlög og örugg framlög úr sameiginlegum sjóði til stuðnings sveitarfélögunum við uppbyggingu dagvistarstofnana, sem væntanlega verða hluti af forskólastigi áður en langt um líður, til þess að það verði staðið sómasamlega að þeim málum, en það er sannarlega ekki niðurstaðan eða veruleikinn í dag.
    Ég minnist þess að flutt var frv. á síðasta þingi af varaþingmanni Kvennalistans, Sigríði Lillý Baldursdóttur, með fleirum varðandi tímabundið átak í byggingu dagvistarheimila fyrir börn. Þar var að vísu ekki verið að leggja til tekjuöflun hliðstæða þeirri sem hér er gert ráð fyrir heldur að greitt væri af fyrirtækjum, af aðstöðugjaldsskyldum aðilum ákveðið hlutfall í þann sjóð sem þar var gert ráð fyrir, Byggingarsjóð dagvistarheimila, og auk þess skyldi ríkissjóður leggja þar nokkuð til. Það tel ég að hafi verið góð tillaga og gott mál sem þar var á ferðinni. En ég held að það geti þurft til að koma meira. Það geti þurft að koma til ekki ósvipuð tilhögun og gert er ráð fyrir í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. að allir þeir sem aflögu eru færir leggi þarna nokkuð til með sérstakri greiðslu ekki ósvipað og gert

er ráð fyrir í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Ég segi þetta vegna þess að hér er um ákveðið grundvallaratriði að ræða, hvort menn fallast á að afla tekna með þessum hætti eða ekki, og mér sýnist að Sjálfstfl., fulltrúar hans í hv. deild, andstætt því sem er um fulltrúa hans í Ed., vilji marka svona stefnu og mér sýnist að Kvennalistinn með hlutdeild að þessari brtt. sé að taka undir þetta og segja: Við eigum alls ekki að leggja á neitt gjald umfram það sem felst í staðgreiðslukerfi skatta til tekjuöflunar í ríkissjóð. Ég staldra við þegar menn koma fram með slík sjónarmið vegna þess að mér er fullkunnugt um að það er erfitt atriði að tryggja málaflokkum af þessu tagi, sem varða elstu borgarana í landinu, sem varða yngstu borgarana í landinu, nauðsynleg framlög til þess að það sé sómasamlega við þá gert. Þessir aldurshópar eru ekki fyrirferðarmikir í hinni almennu umræðu, eru ekki hávær þrýstihópur í þessu þjóðfélagi og gera þannig ekki mjög mikið vart við sig, síst af öllu börnin, og þess vegna held ég að við þurfum að gæta okkar áður en við höfnum því að taka gjald með þeim hætti sem hér um ræðir.
    Ég styð þetta frv. eins og það liggur fyrir með þeim breytingum sem meiri hl. hv. heilbr.- og trn. hefur lagt til og tel að þar sé um mjög áhugverðar og góðar breytingar að ræða í flestum greinum að því er snertir þetta frv. Spurningin um greiðslur af hálfu vistmanna sem gert er ráð fyrir í 27. gr. er hins vegar álitamál að mínu mati. Ég hefði viljað skoða þau efni betur áður en væri farið að lögfesta þá skipan þó að ákvæði séu um það í gildandi lögum eins og hæstv. heilbrmrh. vék að og ég hvet hæstv. heilbr.- og trmrh. til þess að gæta sín vel í sambandi við reglugerðarsetningu á grundvelli þessarar lagagreinar. Mér sýnist að þau tekjumörk sem þarna er miðað við séu svo lág að í rauninni sé mjög óráðlegt að ætla þeim sem ekki hafa tekjur umfram 11 þúsund á mánuði að taka nokkuð sem heitir þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða eins og heimildir verða um við lögfestingu þessa frv.
    Ég ætla, virðulegur forseti, á þessu stigi ekki að segja fleira varðandi þetta mál, en ég taldi ástæðu til að víkja að þessum þætti sérstaklega að því er varðar þetta grundvallaratriði: eigum við að afla tekna til sérverkefna umfram það sem ríkissjóður aflar með staðgreiðslukerfinu með sérgjaldi eins og hér er lagt til? Í öðru lagi er það ósamræmi sem er í málflutningi fulltrúa Sjálfstfl. annars vegar hér í hv. þingdeild og hins vegar í Ed. þar sem skoðanirnar eru allt aðrar hér en var hjá fulltrúum flokksins við afgreiðslu málsins í Ed.