Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson (frh.) :
    Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég óskaði eftir því að hæstv. félmrh. yrði kallaður í salinn. Það var verið að ræða um þær undanþágur sem til stendur að veita sláturhúsum og mjólkurstöðvum í frv. þessu. Ég hafði spurt eftir því, m.a. hjá hv. formanni félmn. þessarar deildar, hvernig bæri að túlka þessar undanþágur við framkvæmd laganna, hvort það bæri að túlka þær þröngt eða rúmt. Með þröngri túlkun á ég við það hvort heimildin til niðurfellingar á aðstöðugjöldum gagnvart sláturhúsum eigi eingöngu að ná til hefðbundinna verkefna sláturstöðvar, en ekki t.d. til kjötvinnslu eða frekari iðnaðarvinnslu á kjöti.
    Fyrri túlkunin, þ.e. að túlka undanþáguna aðeins þannig að hún nái til hefðbundinna viðfangsefna sláturstöðvar, er þröng túlkun. Hin túlkunin, að heimildin nái til þess að undanþiggja frekari framleiðslu sem kynni að vera stunduð af sláturhúsum, svo sem kjötvinnslu, pylsugerð, bjúgnagerð, áleggsframleiðslu o.s.frv., er rúm túlkun. Ég leit svo á að samkomulag stjórnarflokkanna um þessar undanþágur væri fólgið í þröngri túlkun en ekki rúmri.
    Sama á við um mjólkurstöðvarnar. Þar er þröng túlkun sú að heimildin nái aðeins til niðurfellingar aðstöðugjalds hvað varðar hefðbundnar framleiðsluvörur mjólkurbúa, þ.e. framleiðslu á nýmjólkurafurðum, svo sem smjöri, rjóma, ostum, jógúrt og öðru slíku. Það er þröng túlkun. Rúm túlkun væri hins vegar ef þessi heimild ætti að ná til annarrar framleiðslu úr mjólkurafurðum sem gæti t.d. verið bakarí eða sælgætisgerð úr mjólk og mjólkurafurðum o.s.frv.
    Hv. formaður félmn. staðfesti mína túlkun á því að það sem á bak við byggi þá heimild sem hér væri verið að veita væri hin þrönga túlkun. Því var andmælt af einum fulltrúa í félmn. Þess vegna tel ég að rétt sé að hæstv. ráðherra, sem mun annast um framkvæmd þessara laga, svari þessari einföldu spurningu: Til hvaða þátta á þessi undanþága að ná gagnvart sláturhúsum og mjólkurstöðvum? Á hún að miðast við hina þröngu túlkun, sem ég hef þegar rakið og tel að samkomulag sé um og er sannfærður um það að t.d. hv. þm. sem nú gengur í salinn er mér sammála um, eða nær hún til hinnar rúmu túlkunar sem raunverulega er svo rúm að hún hefur engan enda? Lengi má framleiða vöru sem eitthvert brot af mjólk eða kjöti er í og ef hin rúma túlkun ætti að gilda mundi það þýða að aðferðin til að taka allan kjötiðnað á Íslandi og allan iðnað úr mjólk, þurrmjólk, smjöri eða mjólkurafurðum, svo sem eins og sælgætisiðnað o.fl., undan aðstöðugjaldsálagningu væri sú að annars vegar sláturhús og hins vegar mjólkurstöðvar sæju um þessa framleiðslu. Sér hver og einn að slíkt er óeðlilegt því þá skapast óeðlilegt misvægi t.d. milli kjötiðnaðarstöðva annars vegar sem reknar væru af sláturleyfishöfum og sláturhúsum og kjötiðnaðarstöðva hins vegar sem reknar eru af öðrum aðilum. Þá mundi skapast óeðlilegt misræmi einnig á milli t.d. sælgætisframleiðslu sem rekin væri á vegum

mjólkurstöðvar og sælgætisframleiðslu sem rekin væri á vegum annars aðila.
    Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil að það liggi klárt fyrir um hvað samkomulagið var gert. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. svari því og veiti upplýsingar um það hvort framkvæmdin verður með þeim hætti að stuðst verði við hina þröngu túlkun eða hina rúmu túlkun. Svar félmrh. mun ráða því hvernig atkvæði mitt fellur um brtt. Geirs Haarde.