Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):
    Herra forseti. Mér er ljóst að verkalýðshreyfingin hefur talið eðlilegt að þessi skóli félli undir félmrn. eins og fram kemur í athugasemdum við 5. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í greininni er m.a. kveðið á um það að félmrn. fari með vinnu, þar á meðal stéttarfélög launafólks og atvinnurekenda. Enn fremur er gert ráð fyrir margvíslegum afskiptum félmrn. af vinnumálum og samráði við launasamtök aðila vinnumarkaðarins í X. kafla laganna nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála.
    Með tilliti til þeirra umræðna sem áttu sér stað um fyrri frv. um þetta málefni kom til álita að skólinn heyrði til verksviðs menntmrn., en eðli málsins samkvæmt er komist að þeirri niðurstöðu að réttara væri að hann heyrði undir félmrn.``
    Það stendur ,,eðli málsins samkvæmt``. Ég sé ekki alveg hvað er eðli málsins samkvæmt, sérstaklega ekki ef á að breyta þessum skóla, útvíkka hans verksvið sem ég er síst af öllu á móti. Ég tel alls ekki fráleitt að þarna verði meiri menntun eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. Í 1. mgr. 3. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaskóli alþýðu skal veita fræðslu um hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar, sögu, skipulag, starfshætti og stefnu. Veita skal fræðslu á sviði félagsfræði og hagfræði auk meginatriða íslenskrar félagsmálalöggjafar.``
    Þetta hefur mér skilist eftir bestu upplýsingum að væru aðalviðfangsefni Félagsmálaskóla alþýðu núna, en síðan er talað um að heimilt sé að veita fræðslu í almennum námsgreinum svo sem stærðfræði, íslensku og erlendum tungumálum. Það er greinilegt að þarna er verið að auka verksvið skólans og færa hann miklu nær hinu almenna menntakerfi. Það er sjálfsagt og eðlilegt, en um leið verður staða nemenda miklu erfiðari.
    Hæstv. ráðherra sagði að í öðrum löndum féllu samsvarandi skólar undir ráðuneyti atvinnumála. Í Danmörku er skóli, Arbejdsmarkedets Undervisningscenter, sem heyrir undir vinnumálaráðuneytið eins og hæstv. ráðherra sagði. Núna er talað um að tengja þann skóla hinu almenna skólakerfi og sérstaklega þó öldungadeildum og fullorðinsfræðslu eins og ég tel mjög eðlilegt, en þá rekast menn á vandamál. Þessi skóli, sem gæti þá verið samsvarandi Félagsmálaskóla alþýðu, er núna í vandræðum vegna þess að hann fellur ekki undir menntmrn. í Danmörku. Ég held að það sé ekki rétt að það hafi reynst vel þó svo það geti verið rétt að það hafi gert það á einhverjum stöðum. Að því leyti til eru það ekki rök í málinu þó einhverjir aðrir hafi gert slíkt vegna þess að þeirra reynsla er ekki góð af þeirri skipan. Þess vegna tel ég að við eigum að sameinast um að breyta þessu ákvæði og setja skólann undir menntmrn., ekki síst með rétt nemenda í huga.