Sjúkraliðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Hv. heilbr.- og trn. hefur talað saman um þá breytingu sem gerð var á frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða, en sú breyting er fólgin í því að inn í frv. eins og það kom frá Nd. er í síðasta málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna bætt við þar sem segir: ,,Þar sem hjúkrunarfræðingur hefur ekki fengist til starfa að undangenginni auglýsingu getur sjúkraliði borið ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem hlotið hefur viðurkenningu heilbrigðisráðuneytisins.`` Síðan hljóðaði textinn þannig: ,,Þó skal slík skipan ekki standa lengur en eitt ár í senn og er þá skylt að auglýsa á ný eftir hjúkrunarfræðingi``. Inn í þessa setningu hefur verið sett: ,,Þó skal slík skipan háð samþykki heilbr.- og trmrn. og ekki standa lengur en eitt ár`` o.s.frv. Við getum alveg fyrir okkar leyti fallist á þessa breytingu.
    Önnur breytingin er einfaldlega að við gildistökugreinina bætist eftirfarandi ákvæði: ,,Lög um sjúkraliða nr. 58/1984, með síðari breytingum, skal endurskoða fyrir 1. janúar 1992.``
    Hv. heilbr.- og trn. Nd. er tilbúin til að greiða þessari breytingu atkvæði svo að þetta frv. megi verða að lögum.