Framhaldsskólar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. menntmm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það eru hreint með eindæmum þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið um þetta frv. í Nd. Það hefur verið haldinn einn klukkutíma fundur þar sem kallaðir voru fyrir nokkrir og voru raunar áminntir um að vera ekki mnargorðir þar sem ekki væri tími til þess að hlusta á mál þeirra til enda ef þeir gerðust of margorðir þar sem ætti að afgreiða málið úr nefndinni að loknum þessum nefndarfundi. Þar við bætist svo að við þessa umræðu í dag er hæstv. menntmrh. víðs fjarri og því í rauninni ekki nokkurt tækifæri til að fjalla almennilega um málið né fá um það umræður við hæstv. menntmrh.
    Nú er það ekki svo að það sé allt vont sem er í frv. en maður hlýtur að byrja á því að spyrja hvort það sé í rauninni affarasælt að hrófla við þessum lögum svo fljótt eftir að þau voru sett. Auðvitað er það svo að í eins víðtækum lögum og mikilsverðum og lög um framhaldsskóla eru, sem vissulega var löngu tímabært að yrðu sett, er margt sem flestum finnst að mætti betur fara og þó sérstaklega þeim sem kannski fluttu á sínum tíma margar brtt. sem náðu ekki fram að ganga. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það gæti verið betra að doka aðeins við og láta reyna á slík lög áður en rokið er í að breyta þeim því að upp kemur sami ágreiningur um hvort þær breytingar sem nú er verið að gera séu til bóta og því vaknar sú spurning hvort það muni leiða til þess að starfsfólk framhaldsskóla og skólafólk megi e.t.v. eiga von á því að við hver stjórnarskipti eða hver umskipti menntmrh. verði rokið til að breyta þessum lögum strax þangað til allir eru búnir að koma sínum gömlu brtt. inn í lögin og gefur auga leið að það er ekki það ástand sem við teljum æskilegt í skólum að það sé sífellt verið að breyta þar um starfsháttu með þessu sniði.
    Ég játa fúslega að við kvennalistakonur vorum ekkert sérstaklega ánægðar með ýmislegt í þessum lögum í fyrra og sérstaklega þó stjórnunarþátt skólanna og ýmislegt í sambandi við kostnaðarskiptingu og annað, en það breytir því ekki að þetta hefði e.t.v. mátt kyrrt liggja í 1--2 ár til viðbótar þannig að þegar breytingar yrðu gerðar yrði það raunverulega gert í ljósi reynslu og fólk færði fyrir því mikilvæg rök að breyta þessum lögum.
    Það kom fram í máli eins þess sem kallaður var fyrir menntmn. í morgun að með þessum breytingum væri enn aukið vald ráðuneytismanna, þ.e. framkvæmdarvaldsins, og dregið enn úr valdi skólameistara og starfsfólks skólans. Um það skal ég ekki alveg dæma, en þó er ekki því að neita að hér er æðimargt sem enn þá er eftir að setja í reglugerð. Það verk verður á hendi ráðuneytismanna þannig að það er ýmislegt þarna opið sem þeir enn geta haft í hendi sér að laga og þá eflaust að sínum hugmyndum.
    Það er sjálfsagt að geta þess sem gott er. Þarna er t.d. kveðið á um að ríkissjóður skuli bera kostnað af byggingu heimavistar að fullu og er það sannarlega gleðilegt og væri óskandi að þetta yrði hvatning t.d.

til þess að byggja heimavistir í Reykjavík því að það er sannarlega þörf á slíku húsnæði fyrir nemendur framhaldsskóla í Reykjavík. Hér er aðeins nokkur herbergi að hafa fyrir nemendur sem koma utan af landi að sækja hér skóla, en þúsundir nemenda hafa ekki um aðra kosti að velja þegar þeir velja sér nám eða vilja komast í skóla þar sem þeir geta stundað það nám sem þeir hafa valið sér en fara til Reykjavíkur og verða þá annaðhvort að leita á hinn svokallaða frjálsa leigumarkað eða á náðir ættingja ef þeir eru fyrir hendi.
    Í 4. gr. þessa frv. eru breytingar á skipun skólanefndar frá því sem er í núgildandi lögum. Við kvennalistakonur höfðum margt og mikið við það að athuga í fyrra að fjórir menn tilnefndir af sveitarstjórnum skyldu eiga að verða í skólanefndum og enginn fulltrúi starfsfólks, kennara eða nemenda og fannst óttalega mikil miðstýringarlykt af því fyrirkomulagi. Hér er lagt til að það verði fjölgað um tvo í þessari skólanefnd og er það þá þannig að það verði tveir fulltrúar starfsmanna kosnir af starfsmannafundi og einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans. Ég held að það þurfi engum að blandast hugur um að tveir fulltrúar starfsmanna þýði tvo fulltrúa kennara. Hugsanlega gæti annar fulltrúinn verið námsráðgjafi eða bókavörður eða safnvörður eða eitthvað slíkt, en ég efast satt að segja um að það fyrirkomulag mundi verða ofan á og þess vegna er ég einmitt að vekja máls á því að ég álíti að tveir fulltrúar starfsmanna þýði í raun tvo fulltrúa kennara með einum eða öðrum hætti, hvort sem þeir gætu hugsanlega verið námsráðgjafar eða haft önnur slík störf með höndum. Ég efast um að annað fyrirkomulag verði á þessu.
    Það eru margar skýringar á því auðvitað. Hv. 11. þm. Reykv. nefndi ræstingarkonur. Ekki ætla ég að hafa á móti því að þær ættu aðild að slíkum nefndum, en ég býst ekki við að þær tengist oft með þeim hætti starfi skólans að þær mundu ná kosningu jafnvel þó þær gæfu kost á sér til slíkra starfa. En auðvitað útiloka ég það ekki. Ég er einungis að lýsa þeirri skoðun minni að þetta þýði í raun tveir kennarar.
    Þrír fulltrúar skulu síðan tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og er auðvitað hægt að fara í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut að þetta þýði fagurlega orðað að þetta séu fulltrúar fólksins. Það gefur auga leið að ef þessir
fulltrúar eru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eru þetta, þó með óbeinum hætti sé e.t.v., pólitískt kjörnir fulltrúar. Eitthvað reifuðu kvennalistakonur þá hugmynd hér í fyrra að það yrðu tveir fulltrúar sem væru kosnir í skólanefnd um leið og sveitarstjórnarkosningar færu fram. Það má líka minna á frv. sem hv. þm. Ragnar Arnalds flutti í fyrra um framhaldsskóla en í því frv. var einmitt lagt til að skólanefnd yrði kjörin beinni kosningu jafnhliða sveitarstjórnarkosningum.
    Hvort þetta er sá háttur á skólanefnd sem menn hefðu helst kosið er raunar vafasamt. Maður hlýtur að

spyrja t.d. hvað veldur vali þegar þrír fulltrúar eru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi. Sá fjöldi er ekki nægur til þess að fulltrúar allra stjórnmálaafla kæmust að í viðkomandi skólanefnd. Það nægir heldur ekki til að það komist að einn fulltrúi hvers sveitarfélags þar sem mörg sveitarfélög standa að skóla þannig að það er hreint ekki ljóst hvers vegna fjöldinn er sá sem hér segir. Þeim er ekki ætlað að hafa meiri hluta í nefndinni. Þá getur maður varpað fram þeirri spurningu líkt og ég gerði við hæstv. menntmrh. fyrir nokkrum dögum, sem hann lét ósvarað: Hvers vegna er þessi fulltrúi ekki bara einn, einhvers konar tengiliður þá á milli sveitarstjórnarinnar og skólanefndarinnar? Efast ég ekki um að það væri auðvelt að fylla þau pláss sem við það losnuðu og þá með betri hætti fulltrúa fólksins en gert er ráð fyrir í þessu frv. þannig að frá sjónarhóli okkar kvennalistakvenna er þetta ekki endilega sá kostur sem við hefðum valið í stað þess sem nú er.
    Það er líka vert að gera að umræðuefni 7. gr. frv. þar sem mjög er breytt þeim hætti sem á skal hafður við ráðningu kennara. Í núgildandi lögum er það í verkahring menntmrh. að setja eða skipa fasta kennara að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara viðkomandi skóla. Hér mun menntmrh. eiga að skipa kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði en skólameistari ræður kennara að fengnum tillögum skólanefndar. Hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson lýsti því áðan hver er hin lagalega útskýring á muni þess að ráða, setja eða skipa og ætla ég ekki að fara að endurtaka það, en það er ljóst að þetta er mjög breytt tilhögun og fulltrúi ráðuneytisins sem í morgun kom til viðtals við menntmn. svaraði því til þegar hann var spurður hvenær menntmrh. mundi skipa kennara að það mundi verða í undantekningartilvikum þegar skólanefnd óskaði þess. Það er ekki nánar skilgreint hvaða ástæður munu ráða því að skólanefnd óski séstaklega eftir því að kennarar verði skipaðir.
    Það er með öllu óviðeigandi að gera slíkar breytingar án þess að nokkur kennari eða samtök þeirra hafi sagt álit sitt á breytingunum og vita allir hvað veldur því að þeir hafa ekki látið sitt álit í ljós. Það var beðið um í morgun þar sem verkfalli er nú lokið að það kæmi fulltrúi kennara á fund nefndarinnar, en það bárust skilaboð um að það yrði ekki framkvæmanlegt á þessum tíma þar sem alls staðar eru nú mikil fundahöld í skólum til þess að reyna að finna út úr því hvernig skólastarfi skuli hagað á næstu dögum.
    Í 9. gr. frv. eru síðan þær breytingar lagðar til að breytt verði 16. gr. núgildandi laga þar sem er fjallað um inntökuskilyrði. Í núgildandi lögum er sagt að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Þessi málsliður fellur niður og eins annars málsliður þar sem kveðið er á um að heimilt sé að setja lágmarkskröfu til inntöku í tiltekna námsáfanga. Rökin fyrir þessum breytingum munu vera þau að samkvæmt

lögum sé framhaldsskóli öllum opinn og því sé mótsögn í því að hafa þarna skilyrði, en því svaraði hæstv. menntmrh. til aðspurður fyrir nokkrum dögum. En ég get ekki fallist á að þetta stangist á vegna þess að í rauninni er þessi málsliður, sem verið er að fella þarna út úr 16. gr., ekki um það að meina fólki aðgang að framhaldsskólum heldur einungis um það hvernig skuli að því staðið þannig að þeir geti nýtt sér námið og ekki óeðlilegt að mínu mati að það séu gerðar einhverjar lágmarkskröfur. Það er sagt að auðvitað verði áfram fornám eða svokallaðir núlláfangar og nemendum boðið upp á þá. En þá hefur samt sú breyting orðið á, eftir því sem ég fæ best skilið, að það verður í raun á valdi nemandans sjálfs hvort hann kýs að nýta sér þetta fornám eða ekki. Að vísu stendur til að efla mjög námsráðgjöf og þó að það sé ekki komið til framkvæmda er í ráði að gera það á næstunni og ekkert nema gott um það að segja, en eftir stendur að það getur enginn skyldað nemanda til að leita til námsráðgjafa og enn síður getur nokkur verið skyldaður til þess að fara eftir því sem námsráðgjafi ráðleggur honum. Það er ekkert óeðlilegt að ungt fólk sem er að koma úr grunnskóla og er að hefja nám í framhaldsskóla og gerir sér kannski ekki fulla grein fyrir þeim mikla mun sem er á þessu námi og hvað kröfur aukast skyndilega á þessum tímamótum hugsi sem svo: Ég þarf ekkert á þessu að halda. Ég tek mig bara á og kemst í gegnum þetta allt saman, og þá hefur viðkomandi unglingur kannski eytt meiri tíma en hann ella þyrfti til þess að komast úr einum áfanga skólans í annan. Þess vegna sé ég ekki að það sé endilega nemendum til góða að taka út þessi ákvæði án þess að einhverjir slíkir þröskuldar séu settir í staðinn eða þessum haldið. Ef einhver atriði
eru þarna í lögum sem stangast á hlýtur að vera hægt að laga það með þeim hætti að við verði unað.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um greinar frv., en ætla þá þessu öllu til áréttingar að lesa upp nefndarálit frá 2. minni hl. menntmn. sem er að finna á þskj. 1290. Þar segir svo:
    ,,Frv. þetta felur í sér breytingar á lögum um framhaldsskóla sem tóku gildi 9. maí 1988.
    Það var þá þegar löngu tímabært að sett yrði rammalöggjöf um framhaldsskólastigið. Fulltrúar Kvennalistans höfðu þó ýmsar athugasemdir við það frv. sem varð að lögum síðastliðið vor og lögðu því fram töluvert margar brtt.
    Stærstu agnúana á frv. var að mati Kvennalistans að finna í stjórnunarkafla þess, þar sem pólitískt kjörnum fulltrúum voru færð óeðlilega mikil völd og áhrif um þróun skóla, innra starf, námsbrautir og rekstur.
    Brtt. Kvennalistans varðandi stjórnunarþáttinn hnigu því í þá átt að tryggja að faglegra sjónarmiða skyldi gætt, m.a. með því að ætla fulltrúum kennara og nemenda, deildarstjórum og faggreinafélögum stærri hlut við mótun skólastarfsins. Aðrar brtt. Kvennalistans lutu að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna og aðbúnaði nemenda svo sem aukinni

námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og stofnun mötuneyta við hvern framhaldsskóla.
    Veigamestu breytingarnar sem fram koma í þessu frv. ríkisstjórnarinnar felast í því að skilgreina nánar og útvíkka verksvið samstarfsnefndar framhaldsskólastigsins, sbr. 3. gr., breytta skipan skólanefnda, sbr. 4. gr., og breytta útreikninga við rekstrarkostnað skólanna svo og gerð samninga milli hvers skóla og menntamálaráðuneytis um greiðslur til skólanna af fjárlagalið þeirra. Efni frv. í heild fer að nokkru leyti saman við hugmyndir og brtt. Kvennalistans frá síðasta ári. Því hefði e.t.v. legið nokkuð beint við að styðja frv. með nokkrum brtt. eftir eðlilega umfjöllun.
    Allar greinar frv. snerta dagleg störf kennara í framhaldsskólum landsins og mikilvægt er að útfærsla þess og framkvæmd sé í fullu samráði við þá. Auk þess eru í frv. ný ákvæði um hvernig staðið skuli að ráðningu kennara. Samkvæmt núgildandi lögum skal menntmrh. setja eða skipa kennara, en í frv. er lagt til að skólameistari ráði þá. Hér er um mjög veigamikla breytingu að ræða sem óverjandi er að gera án þess að nokkuð liggi fyrir um afstöðu kennara.
    En eins og nú háttar til hlaut frv. ekki þá faglegu umfjöllun sem nauðsynleg hefði verið vegna kjaradeilu kennara í Hinu íslenska kennarafélagi við fjmrn. 2. minni hl. nefndarinnar leggur áherslu á nauðsyn þess að hafa samráð við og fá umsagnir frá þeim sem daglega er ætlað að starfa eftir lögunum og glæða þau lífi og anda, ekki síst nú þegar nýlokið er langri og erfiðri kjaradeilu og því mikilvægt að gera allt sem hægt er til að stuðla að góðri samvinnu kennara og þeirra ráðuneyta sem þeir hafa mest samskipti við.
    2. minni hl. telur það ekki málinu til framdráttar að hraða því í gegnum þingið við þær aðstæður sem nú ríkja auk þess sem deila má um það ráðslag að gera veigamiklar breytingar á svo nýsettum lögum. Þá er hætta á að það skapi óöryggi hjá skólafólki ef von er á of örum breytingum í stað þess að láta á lögin reyna og breyta síðan, ef með þarf, í ljósi reynslu.
    Með tilvísan til þessa telur 2. minni hl. sér ekki fært að taka þátt í afgreiðslu málsins.``