Framhaldsskólar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Hér er verið að ræða um að afgreiða sem lög frá Alþingi frv. sem mikill ágreiningur er um og menn hafa snúist í, jafnvel heilu flokkarnir. Sumir höfðu eina afstöðu í fyrra og aðra nú, auk þess sem er mikill ágreiningur um málið í flokki sjálfs hæstv. menntmrh. Meðal helstu ráðgjafa hins sama ráðherra að ég held eða a.m.k. þeirra sem hafa verið ráðgjafar flestra ráðherra við umfjöllun framhaldsskólamála, forustumanna Skólameistarafélagsins og manna með langa reynslu í skólameistarastarfi, er mikill ágreiningur um þetta mál. Breytingarnar eru fljótt á litið ekki þess eðlis að það sé auðvelt að sjá hvað það er sem gerir nauðsynlegt að koma því í gegnum Alþingi svo skömmu eftir að gildandi lög voru samþykkt.
    Ég vil sérstaklega nefna örfá atriði sem hv. 2. þm. Reykv. vék nokkrum orðum að og önnur sem ég held að hann hafi ekki nefnt í sinni ræðu, en við erum svo hjartanlega sammála um að málið er allt svo lauslega og illa úr garði gert sannast sagna að við teljum nauðsynlegt að vísa málinu frá og fá reynslu af þeim lögum sem nú eru í gildi.
    En það eru hins vegar nokkur efnisatriði, sem láta ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en fela í sér mikla afturför frá núgildandi lögum. Ég vil fyrst nefna ákvæðið um skólanefndir. Menn hafa viljað auka lýðræðið við stjórn skólanna og ég tel að þetta ákvæði dragi úr lýðræðinu. Ég tel tvímælalaust að það dragi úr lýðræðinu að rýra áhrif fulltrúa almennings í skólanefndinni, en núna koma fjórir af fimm skólanefndarfulltrúum frá sveitarfélaginu. Hér eftir á þetta atriði að breytast þannig að þeir fulltrúar sem frá sveitarfélagi koma geta verið í minni hluta í skólanefndinni og eru það að öllum líkindum oftast nær samkvæmt þessari frumvarpsgrein.
    Hlutfallið milli þeirra sem starfa í skólanum verður mjög einkennilegt í væntanlegri skólanefnd því að kennarar munu eiga tvo fulltrúa en nemendur einn. Nemendur hafa þó hagsmuni af rekstri skólans fyrst og fremst. Það eru þeir sem þjónustunnar njóta. Kennararnir hafa aftur á móti hagsmuni af því hvernig starfinu er hagað og leggja vissulega á ráðin um fagleg efni, en til þess er aftur á móti ákvæðið um skólastjórn þar sem þeir eiga sæti svo og kennarafundirnir. Það er því ljóst að þessi eini þáttur í stjórn skólans, sem átti að tryggja áhrif almennings annars vegar, þess almennings sem kostar þjónustuna, og hins vegar þess almennings sem eru forsvarsmenn nemenda skólans, er stórum rýrður og þar með er dregið úr lýðræðinu við stjórn skólanna. Auk þess var bent á það í morgun á nefndarfundinum af þeim sem reynslu hafa í stjórn skóla að breytingarnar sem í frv. felast munu gera skólameistara stjórn skólans enn þá örðugri en áður var. Þessi gestur nefndarinnar las upp úr frétt á 2. síðu Morgunblaðsins í dag og fyrirsögn frá formanni Hins íslenska kennarafélags þar sem haft var eftir: Við tökum ekki við fyrirskipunum frá stjórnendum skóla. Af þessum atriðum ályktaði þessi gamli skólamaður að það yrði mjög örðugt að fá

menn til skólastjórnar að breyttum lögum.
    Loks er ljóst að hér er mjög lauslega um hnútana búið í sambandi við ýmsa þá þætti sem eiga að hafa áhrif á stjórn og stefnu skólans. Allt á að ákveða í reglugerð. Meira að segja á að ákveða í reglugerð hvaða verkefni almennur kennarafundur á að hafa. Til hvers er nú það lýðræði hjá kennurunum að mega halda fundi og hafa áhrif á stefnu skólans ef ráðherra ætlar svo að skipa þeim fyrir í reglugerð hvað þeir megi segja og gera? Ég hélt að þarna væri fullt frelsi til þess að hafa veruleg áhrif. Það má vera að það sé ætlunin. Það hefur alls ekki verið skýrt, enda enginn tími verið til þess. Þetta er eitt af því sem er vítavert við undirbúning þessa máls.
    Síðan kemur næsta grein sem hv. 2. þm. Reykv. gerði svo glögglega grein fyrir í sambandi við breytingu á ráðningarkjörum kennara samskæmt frv. Daginn eftir að kjarasamningur er við þá gerður er gjörbreytt þeirra ráðningarkjörum að þeim fornspurðum. Ég vil sérstaklega nefna eitt atriði þar sem ljóst er að lögum samkvæmt mun þetta rýra stórlega kjör kennaranna. Við þekkjum það flest sem eitthvað höfum komið nálægt menntmrn. að það er mikið áhugamál og hagsmunamál kennara sem lengi hafa starfað að hafa rétt til launaðs orlofs, en það hafa þeir getað fengið á nokkurra ára fresti. Það hefur oft verið notað til að auka þekkingu og kennarahæfni eins og segir í 14. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla. Í 14. gr. núgildandi laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og ég mun tilfæra það vegna þess að það rekst á frv. nema beinlínis sé ætlunin að rýra kjör kennaranna daginn eftir að samið er við þá:
    ,,Hafi kennari starfað, settur eða skipaður, a.m.k. í fimm ár og óski að fá sérstakt orlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni skal hann senda skólanefnd og menntmrn. beiðni um orlof ásamt greinargerð um það hvernig hann hyggst verja orlofstímanum. Ráðuneytið getur veitt honum orlof, allt að einu ári á föstum embættislaunum.``
    Hér lýk ég tilvitnun. Þetta lagaákvæði hefur verið afar vinsælt og létt kennurunum erfið störf þeirra að miklum mun. En til þess að njóta þessa réttar þarf kennarinn að vera annaðhvort settur eða skipaður. Nú liggur fyrir
samkvæmt þeim upplýsingum sem menntmn. voru gefnar í morgun að skipun mun ekki eiga sér stað nema í undantekningartilvikum og setningin er afnumin. Hvað verður þá um þennan rétt kennaranna ef lögunum er ekki breytt? Ég sé ekki betur en að það liggi ljóst fyrir að annað af tvennu er að gerast: að það er vísvitandi ætlun ríkisstjórnarinnar að rýra kjör kennara að þessu leyti eða þá að ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að þessu verður breytt í snarhasti ef það er ætlunin að keyra þessi ósköp í gegn.
    Þetta vil ég leggja mikla áherslu á og hafi mér missýnst um þetta atriði óska ég eftir því að fá þetta skýrt því að svo margir hafa framfæri sitt af þessu starfi og eftirsóknin eftir þessu starfi hefur því miður rýrnað mjög á síðustu árum eða dregið úr þeirri aðsókn að starfinu sem við vildum að væri. Þetta

mun, það er ég alveg fullviss um, mjög draga úr þeirri aðsókn. Mér er a.m.k. kunnugt um að þær mörgu konur sem sinna kennarastarfi hafa lagt afar mikið upp úr orlofsréttinum og ég er hrædd um að þær litu öðruvísi á málið ef búið væri að afnema þann rétt eins og mun gerast hjá stórum hópi kennara að þessu frv. samþykktu.
    Herra forseti. Það var reyndar eitt lítið atriði enn í sambandi við kjörin. Það er athugun á því að það sé fullt samræmi á milli ákvæðisins um beiðni um undanþágu frá ákvæðum laganna um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum og þess sem gert er ráð fyrir í 7. gr. frv.
    Í þriðja lagi langar mig til að nefna það atriði, sem mér þykir hvað alvarlegast. Úr núgildandi framhaldsskólalögum eru felld viss ákvæði sem hefur í för með sér að hætta er á því að það dragi úr gæðum þeirrar menntunar sem veitt er á framhaldsskólastigi. Hættan er fólgin í því að afnumin er úr núgildandi lögum skyldan til að hafa sérstakt undirbúningsnám fyrir nemendur sem hafa ekki náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi. Þetta nám, sem stundum hefur verið kallaður núlláfanginn af því að það tengist ekki neinum bekk eða árgangi, hefur verið mörgum nemendum mjög mikil hjálp og lyftistöng í námi. Við vitum að slakur árangur nemenda í grunnskóla þarf ekki að vera alfarið þeim sjálfum að kenna og ef ekki er skylda nemenda að sækja þess konar námskeið, eins og segir í núgildandi lögum, og það er afnumið, þá er það lágmarkskrafa borgaranna í landinu, og ekki síst forsvarsmanna þeirra nemenda sem ár eftir ár eftir ár hafa farið á mis við kennslu á viðkvæmasta tíma rétt fyrir vorprófin, að ríkisvaldið taki á sig þá skyldu að sjá fyrir því að boðið sé upp á slíkt fornám. Þetta tel ég sjálfsagða þjónustu við nemendur og geti hjálpað mörgum einstaklingnum til að líta tilveruna bjartari augum á þeim unglingsárum sem varið er í framhaldsskólanum. Það getur forðað mörgum frá því að vera að basla við verkefni sem þeir ráða ekki nægilega við vegna þess að undirstaðan hefur ekki verið nógu góð.
    Þetta vil ég eindregið leggja til að verði lagað. Einhver sagði reyndar á nefndarfundinum í morgun að þess þyrfti ekki, þetta væri heimilt og sjálfsagt yrðu þessir áfangar enn þá til þó að það sé búið að afnema lagaákvæðið um það og ekkert sett í staðinn nema þetta: ,,Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.`` Það er algjörlega óskilgreint hvað þetta þýðir og virðist helst vera höfðað til hópa í sérnámi sem krefjast skiptingar nemenda í smáa námshópa. Það er ekki orði vikið að undirbúningsáfanganum og ekki heldur að því að heimilt sé að krefjast tiltekins árangurs til inngöngu í tiltekna áfanga. Með öðrum orðum: Þetta felur í sér þá hættu að skólinn skili ekki hlutverki sínu á þann veg að út úr honum komi fólk með nægilega þjálfun og þekkingu miðað við þá getu sem hver einstaklingur hafði þegar hann kom inn í skólann og hefði getað nýtt með þeirri leiðbeiningu sem unnt væri að veita. Það er sem sagt dregið úr möguleikanum á því

skipulagi sem mundi leiða til þessa.
    Um þessi tvö atriði vildi ég sérstaklega fjalla, herra forseti, en hafði ekki hugsað mér að tefja umræður.