Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. sem er á þskj. 1273. Í þessu nál. er farið nokkuð í afstöðuna til þessa frv. og það nokkuð ítarlega þannig að ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta nál. sem hljóðar svo:
    ,,Með frv. þessu er ríkisstjórnin að efna nokkur þeirra loforða sem hún gaf til þess að greiða fyrir kjarasamningum Alþýðusambands Íslands við Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna um síðustu mánaðamót.
    Allar greinar frv. miða fyrst og fremst að bættum hag atvinnurekstrarins nema 6. og 7. gr. sem auka rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Svo réttmæt og sjálfsögð sem sú aðgerð er, þá má furðu sæta að enn sé talin ástæða til að vísa á Atvinnuleysistryggingasjóð sem ríkisvaldið hefur þegar svipt lögboðnu ríkisframlagi, a.m.k. næstu tvö ár jafnframt því sem líkur eru á verulegu og vaxandi atvinnuleysi á þessu ári.
    Í 1. gr. frv. er enn gripið til gamalkunnugs ráðs, þess að veita Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins heimild til lántöku til greiðslu verðbóta á freðfisk og hörpudisk. Lokamálsgrein 1. gr. mótast af fullkomnu óraunsæi þar sem reiknað er með endurgreiðslu sjóðsins á næstu þremur árum eftir að lánið er tekið. Engar líkur eru á því að hagur viðkomandi greina batni svo að þær geti staðið undir slíku og er flestum ljóst að frekari aðgerða er þörf þegar þessum sleppir. Þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar um einhverjar slíkar aðgerðir er ekki frekar af þeim að frétta í frv. né greinargerð.
    Í 5. gr. er kveðið á um hækkun jöfnunargjaldsins, en að öðru leyti er efni frv. fólgið í því að nema burt skatta sem lagðir voru á eða hækkaðir í lok síðasta árs og voru þá yfirlýstir óhjákvæmilegir með tilliti til stöðu ríkissjóðs. Nú er tæpast eytt orðum að áhrifum þessara aðgerða á stöðu ríkissjóðs.
    Sérstaklega ber að fagna niðurfellingu vörugjalds á ýmsum aðföngum og framleiðsluvörum húsgagna-, trjávöru- og málmiðnaðar sem lögð er til í 4. gr., en svo illa var staðið að undirbúningi lagasetningar um vörugjald í árslok 1988 að menn eru ekki enn búnir að átta sig á framkvæmdinni nú fimm mánuðum eftir gildistöku laganna. Afleitt er þó að ætla ákvæðum 4. gr. ekki að taka gildi fyrr en 1. september sem hefði í för með sér ómælda erfiðleika og samdrátt í fyrrgreindum iðnaði fram til þess tíma. Þess vegna leggur minni hl. til á þskj. 1274 að gildistaka þessa ákvæðis verði 1. júní nk.
    Fyrrgreind atriði eru öll mikilvæg fyrir atvinnureksturinn og auðvelda atvinnurekendum að standa við gerða kjarasamninga. Ekki er þó síður ástæða til beinna ráðstafana í þágu launafólks sem er gert að sætta sig við viljayfirlýsingar og loforð um nefndir og samráð. Hefði verið fullkomlega eðlilegt að gera með þessu frv. ráðstafanir til að draga úr sköttum á launafólk á sama hátt og hér er verið að létta atvinnurekendum róðurinn.

    Til þess að bæta lítillega úr þessari vanrækslu leggur minni hl. til breytingar á þskj. 1274 sem eru samhljóða 1. og 2. gr. frv. á þskj. 789 sem er 429. mál þingsins. Önnur brtt. á þskj. 1274 felur það í sér að einstæðir foreldrar geti nýtt ónotaðan persónuafslátt barna sinna, sem eiga hjá þeim lögheimili, á sama hátt og hjón eða karl og kona í sambúð geta gert. Í 3. brtt. á þskj. 1274 felst að við fráfall maka verði álagning eignarskatts áfram með sama hætti og um hjón væri að ræða meðan hann situr í óskiptu búi. Með því væri leiðrétt það óréttlæti í lögunum að hjón geta nú átt allt að 14 millj. kr. eign áður en þau lenda í hærra skattþrepi, en falli annað þeirra frá þarf hitt að greiða miklu hærri skatt af nákvæmlega sömu eign.
    Loks vill minni hl. árétta að verði gengi krónunnar breytt verulega er nauðsynlegt að rétta hlut launafólks enn frekar, t.d. með niðurfellingu eða lækkun skatts á matvæli.
    Að samþykktum tillögum á þskj. 1274 leggur minni hl. til að frv. verði samþykkt.``
    Undir þetta ritar auk mín hv. þm. Ingi Björn Albertsson.
    Virðulegi forseti. Ég tel kannski ekki ástæðu til að skýra miklu frekar þessar brtt. okkar á þskj. 1274 þar sem þær eru nokkuð ítarlega skýrðar í því nál. sem ég hef nú lesið. Sömuleiðis voru þær skýrðar í umfjöllun um það frv. sem til er vitnað, auk þess sem ég hef leyft mér að vekja enn frekar athygli á þessum tillögum með greinaskrifum í dagblað sem hv. alþm. lesa vafalaust sundur og saman og þekkja þá vonandi það sem að baki býr. Það er e.t.v. ástæða til að geta þess að mjög margir, sérstaklega reyndar konur, hafa haft samband við okkur kvennalistakonur eftir að frv. kom fram og hafa lýst eindregnum stuðningi við tillögur okkar og áhuga á því að þær nái sem fyrst fram að ganga. Nú hefur það reyndar gerst að hv. fjh.- og viðskn. hefur ákveðið að gera tillögu um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem hefur það í för með sér að eignarskattur af sömu eign hækkar ekki hjá eftirlifandi maka næstu fimm árin eftir lát maka eins og fram kemur á þskj. 1292 í brtt. frá nefndinni, þ.e. í 2. brtt. á því þskj., og fari svo að 3. brtt. á þskj. 1274,
þ.e. frá okkur sem myndum minni hl. nefndarinnar, verði ekki samþykkt mun ég að sjálfsögðu greiða 2. brtt. á þskj. 1292 atkvæði mitt.
    Ég vona, hæstv. forseti, að tillögurnar verði bornar upp í þeirri röð sem ég teldi rétt að athuguðu máli, þ.e. að 3. tillagan á þskj. 1274 verði borin upp á undan 2. till. á þskj. 1292 þar sem hér er fjallað um sama mál, en 3. till. á þskj. 1274 gengur lengra hvað þetta varðar. Vona ég að hæstv. forseti komist að sömu niðurstöðu við athugun málsins.
    Nákvæmnismenn geta auðvitað fundið að því að brtt. á þskj. 1272 skuli merktar nefndinni í heild en ekki meiri hl. aðeins, eins og eðlilegra hefði verið með tilliti til þessarar skörunar sem ég hef nú skýrt, og má þar eingöngu um kenna flaustri í þeim önnum sem hér eru en kemur þó varla að sök, enda styðjum við sem myndum minni hl. nefndarinnar í þessu máli

allar brtt. sem fjh.- og viðskn. ber fram á þskj. 1292, þótt við viljum ganga lengra í okkar tillögu en nefndin í heild var reiðubúin til hvað varðar eignarskatt eftirlifandi maka. Vona ég að þetta komi ekki að sök né beri vott um neina alvarlega hnökra á þingsköpum eða réttu vinnulagi.