Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og fram kemur í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. skrifa ég undir nál. með fyrirvara. Það er vitaskuld margt í frv. sem ég og við sjálfstæðismenn erum sammála um. Í sambandi við 1. gr. frv. erum við sammála um að leggja fram fjármuni til frystiiðnaðarins og til framleiðslu og vinnslu á hörpudiski, en hins vegar erum við ósammála um að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins sé að taka þetta lán með ríkisábyrgð og við erum mjög ósammála því að það sé fest í lög að það sé endurgreitt af tekjum sjóðsins af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það er tekið. Að öðru leyti á það að falla á ríkissjóð. Við erum fyrir fram sannfærðir um að Verðjöfnunarsjóðurinn getur ekki greitt þetta lán aftur og þar erum við sammála hæstv. sjútvrh. sem lýsti því yfir á sl. hausti í sambandi við 800 millj. sem teknar voru með þessum hætti samkvæmt bráðabirgðalögunum sem hæstv. núv. ríkisstjórn gaf þá út. Það hefur ekkert breyst síðan. Þess vegna liggur alveg ljóst fyrir að hér er um blekkingu að ræða. Allir vita að þetta fær ekki staðist. Því segjum við að það á að ganga hreint til verks og viðurkenna þá staðreynd sem liggur augljóslega fyrir.
    Í framhaldi af þessu leyfi ég mér að flytja brtt. við 1. gr., að síðasta málsgr. orðist þannig að lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skuli undanþegið stimpilgjaldi og greiðast úr ríkissjóði. Þetta er í samræmi við það sem allir sjá og allir vita að kemur til með að ske og þetta er líka í samræmi við yfirlýsingar sjútvrh. frá sl. hausti. Hins vegar hefur fjmrh. lýst aftur öðru yfir og það er leitt að hann skuli ekki vera viðstaddur hérna. Það var ekki þornað blekið á pennanum þegar búið var að skrifa undir kjarasamningana við háskólamenn að fjmrh. var farinn úr landi til London og hann hefur því ekki sést hér síðan, en væri þó skemmtilegra að ráðherrar og þá ekki síst fjmrh. gætu eytt einhverjum tíma í Alþingi þessar síðustu stundir. En kannski hefur verið fast að honum sótt að koma til Bretlands til að kenna Bretum hvernig eigi að ganga til kjarasamninga því að það er tekið upp í þessum samningum alveg nýtt ákvæði eins og að borga mönnum fyrir að fara í verkfall. Þetta hafa Bretar ekki þekkt og hafa sennilega beðið fjmrh. að koma til að kenna sér hvernig eigi að fara að þessu. Það er margt sem hægt er að læra af Íslendingum og hæstv. ríkisstjórn. Hins vegar held ég að það væri skemmtilegra fyrir ríkisstjórnina að reyna að vera meira heima en raun ber vitni.
    Í 2. gr. frv. er ákvæði um að endurgreiða skal gjöld af erlendum lánum sem tekin hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, en hafa þó ekki enn verið endurlánuð. Ég tel tvímælalaust að það eigi að taka af allan vafa. Þetta er líka í fullu samræmi við það sem hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað lýst yfir að eigi að gera. Ég skil ekki í því af hverju er verið að hafa á móti þessu.
    Í 3. gr. er lagt til að lækka sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og í 4. gr. er niðurfelling vörugjaldsins. Þetta eru skattar sem

ríkisstjórnin píndi í gegnum þingið í desembermánuði, en núna eru þeir að snúa ofan af, núna eru þeir að viðurkenna það, sem við sjálfstæðismenn héldum fram þá, að hér hefði verið farið rangt að á öllum sviðum að hækka þessa skatta með þessum hætti og það í miðri verðstöðvun. Það hefði því mátt gera hlé á þinginu í desember í staðinn fyrir að streitast mestallan desembermánuð við allar þessar skattahækkanir bæði hvað snertir skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og sömuleiðis hækkun á vörugjaldinu.
    Við leggjum til að í stað ,,Frá 1. sept. 1989 [sem nú er orðinn 1. júní] falli eftirtalin tollskrárnúmer brott úr A-lið 3. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald`` komi: Eftirtalin tollskrárnúmer falla brott úr A-lið 3. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, sbr. 1. gr. laga nr. 95/1988. Vitaskuld hlýtur að myndast þarna eyða í innflutningi því að þegar menn vita að ákveðnar innflutningsvörur lækka á ákveðnum degi hætta menn að flytja þær inn og þá verður skortur á þeim. Það verður þá líka minni vinna í sumar en ella en kemur ekki til með að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs að öðru leyti en því að það er verið að skapa ákveðna eyðu sem kemur illa við flesta að gert sé. Því tel ég að 3. brtt. á þskj. 1271 sé bæði sjálfsögð og nauðsynleg.
    Í 5. gr. er um að ræða tillögu um að hækka jöfnunargjaldið úr 3% í 5%, en ég óskaði eftir því í fjh.- og viðskn. að fá upplýsingar um það hvaða áhrif þessir kjarasamningar hefðu í fyrsta lagi á ríkissjóð og í öðru lagi á atvinnureksturinn í landinu. Það kom svar um það í morgun að Þjóðhagsstofnun væri ekki tilbúin með sínar upplýsingar um hvaða áhrif frv. hefði á atvinnureksturinn í landinu fyrr en eftir helgi eða einhvern tíma í næstu viku, en hins vegar fengum við þær upplýsingar hvaða áhrif frv. hefði á afkomu ríkissjóðs vegna kjarasamninga og þær voru þessar: Tekjutap ríkissjóðs: niðurfelling gjalda af erlendum lánum 100 millj. kr., lækkun á skatti á verslunarhúsnæði 100 millj. kr., niðurfelling vörugjalds á ýmsum vörum 350 millj. kr., eða samanlagt áætlað tekjutap upp á 550 millj. kr. En tekjuaukningin var aftur 250 millj. kr. sem leiðir af hækkun jöfnunargjaldsins eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Kemur þá í ljós að kostnaður ríkissjóðs
vegna þessara breytinga í heild er 300 millj. kr. Ég stend að þeirri brtt., sem frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. lýsti, um niðurfellingu vörugjalds skv. 4. gr.
    Ég hef áður lýst yfir áhyggjum mínum af Atvinnuleysistryggingasjóði. Hér er verið að auka útgjöld hans, en hins vegar hangir allt í lausu lofti hvað varðar greiðslu ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs þrátt fyrir ótryggt vinnuástand allvíða. Niðurfelling framlags ríkissjóðs á þessu ári er flestum hugsandi mönnum áhyggjuefni nema þá helst ríkisstjórninni sjálfri.
    Þar sem þetta frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga er í bandormslíki eins og kallað er fannst mér eðlilegt að flytja fleiri tillögur við það en fram koma frá hendi ríkisstjórnarinnar og tók því upp úr nokkrum frumvörpum sem lágu fyrir nefndinni og

ekki höfðu fengist þaðan afgreidd. Ég lagði fram strax á þeim fundi er fjallað var um þetta frv. mínar hugmyndir um breytingu á frv. og meðal þeirra breytingar sem ég lagði til og fékk nefndarmönnum í hendur var frv. sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir ásamt þremur öðrum þingmönnum Sjálfstfl. flytur um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt með síðari breytingum. Markmið þess frv. var að stíga skref til að draga úr því ranglæti sem hin nýju eignarskattsákvæði skattalaga höfðu í för með sér. En samkvæmt lögunum sem nú gilda og sett voru að tillögu ríkisstjórnarinnar á sl. vetri getur fráfall maka haft það í för með sér að ekkja eða ekkill þarf að greiða af sömu eign meira en tvisvar sinnum hærri eignarskatt en gert var fyrir andlát makans. Ákvæðið um 2,7% eignarskatt af 7 millj. eignarskattsstofni veldur því að fjöldi ekkna og ekkla sem lenti neðar á skattstiganum áður, meðan eignir skiptust á milli hjóna, þarf nú allt í einu að greiða af eignarskattsstofni sínum tvöföldum, t.d. ef viðkomandi situr í óskiptu búi, og þar við bætist hækkun á eignarskattsstofni um 2,5 millj., en það er sú upphæð sem er eignarskattsfrjáls hjá hverjum greiðanda. Þessi frádráttur, sem var tvöfaldur fyrir hjón, verður nú allt í einu einfaldur og verður því skyndileg hækkun á skatti af sömu eign. Þetta teljum við sjálfstæðismenn brýna nauðsyn að leiðrétta eins og lagt er til í frv. Ragnhildar Helgadóttur o.fl. og því tók ég þessa tillögu upp í nefndinni með þeim árangri að meiri hl. nefndarinnar fellst á þessa tillögu með því skilyrði að þessi ákvæði gildi í allt að fimm ár. Ég féllst á þetta þó að ég hefði viljað ganga lengra og stend því við mitt samkomulag við meiri hl. nefndarinnar. Ég taldi hyggilegra að hafa þann hátt á að taka upp samvinnu á þessu sviði til að ná þarna árangri eins og mér sýnist að nauðsynlegt og sjálfsagt sé að gera svo að ég flyt enga tillögu umfram þetta eins og var verið að lýsa áðan af hv. 10. þm. Reykv. Ég tel betra að ná þessum árangri að þessu sinni þó að ég hafi ekki fallið frá þeirri skoðun að þetta eigi að vera almennt.
    Það er mikið rætt um nauðsyn á aðgerðum til að hvetja til aukinnar eiginfjármyndunar fyrirtækja með þátttöku almennings og því voru flutt a.m.k. ein þrjú frumvörp af Friðrik Sophussyni, mér og fleiri sjálfstæðismönnum í þessu efni. Fyrsta frv. var um hækkun á fjárhæð umfram frádráttarmörk sem sett eru hlutafjáraukningu í hlutafélagi eða lögð til hlutafjárkaupa við stofnun hlutafélags. Það var flutt í tengslum við þáltill. sem er nr. 599 og er um það að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði. Í lögunum frá 1984, sem eru nr. 9, er einstaklingum sem kaupa hlutabréf í hlutafélögum heimilt að draga kaupverð þeirra frá skattskyldum tekjum sínum að vissu marki. Það er skilyrðið að hlutafélögin séu með hlutafé yfir ákveðna fjárhæð og að hluthafar séu a.m.k. 50 og að engar hömlur séu á viðskiptum með hlutabréf. En með framlagningu þessa frv. er lagt til að frádráttarheimildina megi flytja á milli ára og skilyrðin fyrir frádráttarheimild eigi ekki við að öllu leyti þegar um ný hlutabréf er að ræða sem mér finnst eðlilegt og

sjálfsagt. Það er ekki ástæða til að halda sig endilega við þessa hámarkstölu, 50 hluthafa. Þetta gengur við stóru hlutafélögin eins og Eimskip, Flugleiðir og fleiri, þessi stærstu, en alls ekki þegar komið er í hin smærri byggðarlög. Þess vegna eiga þau alltaf að sitja við annað borð en þau stóru. Hvers vegna má ekki sýna þeim fyllstu sanngirni hvað þetta snertir? Þess vegna tek ég upp efni bæði þessa frv. og eins efni annars frv. um frádrátt af skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri þar sem hámarksfjárhæðir miðað við lögin frá 1988 breytast frá 1986 úr 45.900 í 250.000 og úr 91.800 í 500.000 kr. sem er eðlilegt. Af meðfæddri hlédrægni kunni ég ekki við að flytja brtt. við frv. Guðmundar G. Þórarinssonar sem hann flutti í vetur og er sama eðlis og þetta, en það er þess efnis að fyrir stimplun hlutabréfa sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð skuli greiða 1 / 2 % af fjárhæð bréfanna í stað 2% sem núna er. Á sama tíma og ríkisstjórnin hvetur til þess að fyrirtæki auki hlutafé og þar með eigið fé sitt á ríkisstjórnin og Alþingi að koma til móts við þessar óskir, bæði með samþykkt á tillögunum sem ég flyt og sömuleiðis með samþykkt á tillögu þeirri sem Guðmundur G. Þórarinsson flytur í sérstöku frv. þó að það hafi ekki komið fram við þessar ráðstafanir af því að ég kunni ekki við að vera að grípa þannig mál annars manns úr öðrum flokki og sérstaklega af því að hann var fjarstaddur þegar þetta mál var fyrst til umræðu. En þó var það mál
alveg jafnþarft og þau mál sem ég hef verið að ræða hér um.
    Þetta eru skýringarnar á þeim tillögum sem ég flyt og eru númer 4, 5 og 6 og þarf ég því ekki að hafa um þær fleiri orð.
    Ég ætla ekki að ræða ítarlega um þetta. Ég hef skýrt þessar brtt. þannig að þær liggja fyrir. Það er á valdi þeirra sem hér hafa meiri hluta hvort þeir meina að þeir ætli að greiða fyrir því að fá aukið fjármagn í fyrirtæki sem nú skortir stórkostlega fjármagn og þá er það fyrst og fremst gert með því að ríkið sé ekki að skattleggja óhóflega það fjármagn sem annars kæmi inn í fyrirtækin. Nú segja sumir: Þetta má bíða til haustþings. En það er misskilningur því það bráðliggur á slíku fjármagni inn í fyrirtæki á landinu. Ef menn vissu núna að það væri von á því með þessari löggjöf færu þeir að láta meira fjármagn í fyrirtækin og þar með auðvelda rekstur margra fyrirtækja í landinu. Þess vegna er nauðsyn á því að taka þessa ákvörðun nú þegar í lok þessa þings og eru síðustu forvöð að gera það í sambandi við frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga.