Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessi skýru svör sem ég er nákvæmlega sammála og vonast til þess að slíkt hendi ekki aftur því að þetta getur skapað fordæmi sem orðið getur til þess að skýrslubeiðendur mega búast við því að einstakir þingmenn biðji um að lagt sé mat á tiltekna þætti skýrslu eða jafnvel um alls óskylda þætti sem koma skýrslunni ekki við. Það þarf að ríkja jafnræði á milli þingmanna og það geta allir þingmenn samkvæmt þingskapalögum og reyndar samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun óskað skýrslu. En allir þurfa að standa jafnt að vígi.
    Ég þakka hæstv. forseta þessar upplýsingar. Þær hafa í sjálfu sér ekki komið neitt á óvart, en mér þykir leitt að þessi umræða skuli eiga sér stað í fjarveru hæstv. fjmrh. Nú stendur svo á að þingi fer bráðum að ljúka með þinglausnum á þessu vori og ég taldi þess vegna eðlilegt að álit hæstv. forseta á þessu máli kæmi í ljós. Því áliti er ég sammála.