Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið hreyft mjög þýðingarmiklu máli varðandi framkvæmd þingskapa. Ég vil taka það strax fram að ég er alveg sammála skoðunum hæstv. forseta um þetta efni, en vildi með örfáum orðum leggja áherslu á þetta:
    Við þurfum að hafa í huga að það skiptir engu máli fyrir framkvæmd þingskapa hvort ríkisendurskoðandi heyrir undir Alþingi og þingforseta eða ekki. En það er grundvallaratriði í þingsköpum að þeir sem bera fram þingmál hafa forræði málsins. Í því liggur að það hafa engir aðrir heimild til þess að ráða nokkru um það í hvaða formi málið er lagt fyrir. Ef það væri og ef það væri heimilt að gera það sem fjmrh. gerði og ætlaðist til og eins og það var framkvæmt værum við í miklum vanda staddir. Þá gæti t.d. hvaða þingmaður sem er óskað eftir þessu varðandi skýrslubeiðni. Hann gæti óskað eftir breytingum á fyrirspurnum, skriflegum eða munnlegum. Við sjáum að slíkt getur ekki gengið.
    Ég sagði að ég væri sammála skoðun hæstv. forseta um þetta efni. En við stöndum frammi fyrir því að það skeði slys þarna. Hæstv. forseti sagði að hún hefði skrifað ríkisendurskoðanda bréf út af þessu máli og tekið fram í bréfinu að hún ætlaði ekkert að aðhafast frekar í málinu. Ég er ósammála þessu. Það hefði einmitt þurft að taka fram við ríkisendurskoðanda að þetta væri ekki þingleg meðferð og honum bæri ekki að verða við beiðni fjmrh.