Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Virðulegi forseti. Ég held að okkur hljóti öllum að vera ljóst að Ríkisendurskoðun er að stíga fyrstu skrefin sem stofnun sem heyrir undir Alþingi og þau geta stundum verið erfið. Það hefur nú gerst á seinustu dögum, þetta er trúi ég í annað sinn, að hér kemur nokkuð til umfjöllunar hvernig Ríkisendurskoðun stendur að sínum málum. Mér þykir rétt af þessu tilefni að geta þess að forsetar þingsins hafa rætt það nokkuð sín í millum hvert verklag væri eðlilegt að því er Ríkisendurskoðun varðar og þegar átt um það lítils háttar viðræður við ríkisendurskoðanda. Ég held að það ríki fullur skilningur á milli forsetanna og ríkisendurskoðanda um að setja þurfi fastari reglur um hvernig með skuli fara, hvernig aðdragandi sé að skýrslugjöf og á hvaða formi hún sé.
    Ég segi þetta út frá því að við erum hér með nýja og unga stofnun sem er að stíga fyrstu skrefin og það er kannski ekki óeðlilegt að menn þreifi sig svolítið áfram til að byrja með. En það er fullur skilningur á því, bæði af hálfu forseta þingsins og af hálfu ríkisendurskoðanda eftir því sem ég hef skilið það, að koma þessum málum í fastari farveg en kannski fyrstu skýrslugerðirnar gefa til kynna. Þetta tel ég nauðsynlegt að þingmönnum sé ljóst.