Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegur forseti. Ég kem upp vegna þess sem hv. 4. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson sagði áðan. Ég verð að segja að mér hefur líkað vel við hans störf í þinginu, en mér fannst hann taka nokkuð mjúklega á Ríkisendurskoðun í umræðum áðan. Hún er ekki neinn dómstóll, Ríkisendurskoðun, eins og hún virðist vera að taka sér vald til. Þetta er endurskoðun og annað ekki. Í sambandi við það mál sem ég tók upp hér á dögunum eru það hreinir sleggjudómar sem þar koma fram. Ég er eiginlega undrandi á eins góðum þingmanni eins og hv. 4. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni að taka eins mjúklega á þessu máli og vera með afsakanir fyrir skýrslu sem hann með óbeinum orðum minntist á.
    Ég er búinn að leita til þriggja hæstaréttardómara til að ræða við þá um þetta mál og ég gat ekki annað heyrt á þeim en að þeir væru mér sammála í einu og öllu. Ég sýndi þeim þá ræðu sem ég flutti. Og ég ætlast til þess af forsetum Alþingis að ekki komi fyrir aftur vinnubrögð eins og koma fram í þessari umræddu skýrslu.