Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Áður en lengra er haldið vil ég leyfa mér að biðja hv. þm. að þessari umræðu megi ljúka með fyrra fallinu. En til mín var áðan beint spurningu um hvort sú fullyrðing ætti sér stoð í raunveruleikanum að forseti sameinaðs Alþingis væri æðsti yfirmaður Ríkisendurskoðunar. Ég tel að lögin segi afdráttarlaust að forsetar Alþingis séu yfirmenn Ríkisendurskoðunar. ,,Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi``, segir í lögunum. ,,Það starfar á vegum Alþingis``, segir í 1. gr. Ég ætla að leyfa mér að lesa 2. gr. og fyrri mgr. 3. gr.:
    ,,Forsetar Alþingis ráða í sameiningu forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi. Ríkisendurskoðandi skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Launakjör hans skulu ákveðin af kjaradómi. Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsetar Alþingis geta að fengnu samþykki sameinaðs Alþingis vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.``
    Í fyrri lið 3. gr. er svo sagt: ,,Ríkisendurskoðandi nýtur sjáfstæðis í starfi sínu og er ekki bundinn af fyrirmælum um einstaka þætti þess. Forsetar Alþingis geta þó, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna, krafið hann skýrslna um einstök mál.``
    Það er alveg ljóst að til þess að ríkisendurskoðanda sé skylt að svara beiðni um skýrslu skal sú beiðni koma frá forsetum Alþingis. Ég hef engu við að bæta það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði áðan. Það er með öllu óþinglegt að einn fyrirspyrjandi sé að fara inn í fyrirspurn frá öðrum. Hv. þm. geta rétt ímyndað sér hvernig því yrði tekið ef við færum hér að biðja um viðbótarupplýsingar í fyrirspurnum samþingmanna okkar til hæstv. ráðherra.
    Ég held að undan því verði ekki vikist að þarna hafi Ríkisendurskoðun brugðist óþarflega skjótt við. Henni bar engin skylda til að svara hæstv. ráðherra og ekki undir neinum kringumstæðum í sama svari og hún sendi þeim sem um skýrsluna báðu. Eðlilegast hefði þá verið að gera aðra skýrslu handa hæstv. fjmrh.
    Ég held þess vegna að um þetta getum við öll verið sammála. Ég tek hins vegar undir það, sem forseti Nd. sagði áðan, að það er tiltölulega nýtt fyrirkomulag að Ríkisendurskoðun heyri undir hið háa Alþingi og ég geri ráð fyrir að báðir aðilar séu undir sömu sök seldir að við höfum e.t.v. ekki alveg lært á þau samskipti sem við þurfum að hafa. Hins vegar get ég fullvissað hv. þm. um að forsetar þingsins hafa margrætt þau samskipti og hafa verið mjög meðvitaðir um að þar þurfi að hafa ákveðnar línur. Ég vil jafnframt upplýsa að ríkisendurskoðandi hefur einnig sjálfur óskað eftir að hann hafi hreinar og skýrar línur varðandi verksvið hans. Ég held því að báðir aðilar séu mjög ákveðnir í því að þessi samskipti fari fram eins og sæmir. Það er með lög um Ríkisendurskoðun eins og aðra löggjöf að hún er ekki fullkomin og þar er ýmislegt óljóst sem þyrfti e.t.v. að skýra. Þessi umræða milli aðila mun svo sannarlega halda áfram.

    Ég skal ekki lengja þessar umræður, en ég vildi að þessi sjónarmið kæmu fram. Þrír menn eru enn á mælendaskrá og þar sem við eigum nú mikið verk fyrir höndum vildi ég gerast svo djörf að biðja menn að stytta mál sitt sem mest þeir mega, þar sem ég sé ekki að hér sé um ágreiningsatriði að ræða.