Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Hæstv. forseti hefur tekið af mér ómakið. Ég ætlaði að koma inn á stöðu ríkisendurskoðanda gagnvart Alþingi. Hæstv. forseti hefur lýst því og ég hef engu þar við að bæta og er algerlega samþykkur því sem þar var sagt.
    Ég vil aðeins leggja áherslu á að lögin um Ríkisendurskoðun og framkvæmd þeirra laga og sú breyting sem hefur orðið á stöðu ríkisendurskoðanda gagnvart Alþingi kemur alls ekkert þingsköpum við, breytir engu í þingsköpum. En það er grundvallaratriði í þingsköpum eins og við komum að áðan að þeir sem hafa forræði á málum, bera fram þingmál, ráða því í hvaða formi það er. Þess vegna skiptir það ekki máli sem hv. 2. þm. Vestf. sagði, að hann hefði það álit að það hefði verið eðlilegt að hafa inni í skýrslugjöfinni þau atriði sem hæstv. fjmrh. bað um. Það kann að vera að það hefði verið eðlilegt. En hvort sem það var eðlilegt eða óeðlilegt var ekki hægt að taka tillit til þessa. Þá hefði ég t.d. með sama rétti getað óskað eftir því þegar hv. 2. þm. Vestf. bæri næst fram fsp. að það yrði gerð þar grein fyrir tilteknu atriði sem ég teldi að væri eðlilegt að láta þar koma fram. En ég hef ekki heimild til þess.
    Ég vona að þetta sé nægilegt til þess að aðalatriði þessa máls liggi skýrt fyrir, að lögin um ríkisendurskoðanda og framkvæmd þeirra laga breyta í engu þingsköpum.