Manneldis-og neyslustefna
Föstudaginn 19. maí 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, aðeins segja örfá orð. Mig langar til að þakka hv. félmn. Sþ. fyrir hversu fljótt og vel hún hefur unnið að þessu máli. Málið var seint lagt fram og skammt síðan mælt var fyrir því hér í þinginu og þess vegna sé ég sérstaka ástæðu til að þakka nefndinni og þá kannski einkum og sér í lagi formanni hennar fyrir hversu vel hefur verið unnið að málinu og hratt.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar fram eru kannski fyrst og fremst breyttar áherslur í uppsetningu eða framsetningu tillögunnar. Hér er lagfært orðalag og tillagan gerð aðgengilegri og líklegri til þess að um hana geti skapast betra og víðtækara samkomulag. Mig langar aðeins til að lýsa því yfir að ráðuneyti heilbrigðismála hefur nú þegar hafið undirbúning að þessari stefnumótun með því að efna til ítarlegrar neyslukönnunar sem á að geta gefið mynd af næringarástandi þjóðarinnar eins og það er og verið undirstaða að áframhaldandi starfi. Ég tel að samþykkt þessarar stefnumótunar sé nauðsynlegt fyrsta skref í mikilvægri stefnumótun.