Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég hygg að þingflokkur Sjálfstfl. sé aðili að samkomulagi um að þingi ljúki á morgun og ég ætla þess vegna ekki að vera með sérstakar aðfinnslur. En það er ekki nokkur leið að komast hjá því að vekja sterklega athygli á þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð.
    Hér hafa menn verið að ræða skýrslu Byggðastofnunar og hafa komið fram núna í lok umræðunnar atriði sem ómögulegt er annað en að fjalla nokkuð nákvæmar um, ekki síst eftir yfirlýsingar hæstv. forsrh. Ég tek undir að það passar illa saman við þann mikla byggðaáhuga sem hér hefur nú gætt að reyna að skjóta vegáætlun inn á dagskrá til þess, eins og berlega hefur komið fram, að þingmenn gætu farið heim og þá væri hægt í nótt að tala um vegáætlun sem allir vita að er langsamlega stærsta byggðamálið sem við eigum til. Það á að gera á næturfundi þegar hávaðinn af Alþingi er farinn heim og hér er verið að gera sérstakar ráðstafanir í stjórn þessa fundar til þess að það sé hægt að ná fram afbrigðum til að koma þessari skýrslu á dagskrá. Það sjá allir menn að hér er um alveg óhæfileg vinnubrögð að ræða og ég hlýt að mótmæla þeim mjög sterklega.