Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 4. þm. Austurl. vil ég minna hann á að það er ekki við forseta að sakast hversu lengi vegáætlun var í hv. fjvn. Nefndarálit bárust ekki fyrr en á allra síðustu dögum. Þess vegna var ljóst að gera yrði allt sem í mannlegu valdi stæði til þess að vegáætlun yrði útrædd og afgreidd frá þinginu fyrir þinglok. Þinglok hafa verið ákveðin kl. 2 á morgun og þess vegna hlýtur forseti að reyna að leitast við að halda þessari umræðu áfram uns yfir lýkur. En ég hlýt að hafa leyfi til að tryggja að sú umræða megi fara fram og til þess þarf ég leyfi þingsins. Þess leyfis ætlaði ég nú að leita. Síðan verða menn að sýna áhuga sinn á byggðamálum og vegáætlun með nærveru sinni hér. En forseti getur ekki fyrirskipað mönnum að vera hér. Ég held að það hljóti að vera skiljanlegt að afbrigða verði leitað sem fyrst.