Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það, sem hefur komið fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Stefáni Guðmundssyni, að það er gersamlega fyrir neðan allar hellur að það eigi að afgreiða jafnstór mál og Byggðastofnun eða vegáætlun á næturfundi. Hér er verið að fjalla um grundvallaratriði í afkomu fyrirtækja í strjálbýlinu, um byggðastefnu, byggðaþróun og það hefur komið fram gagnrýni af hálfu forsrh., sem er aðalábyrgðarmaður Byggðastofnunar, með þeim hætti að það er óviðunandi að Alþingi fjalli ekki um þessi mál með þeim hætti sem óskað hefur verið eftir af hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Það getur vel verið að það séu hér hv. þm. sem líti þannig á að þetta sé ekki stórmál í þeirra augum, en í augum fólksins sem býr í strjálbýlinu, í augum þeirra sem búa við það að eiga allt sitt undir sjávarútvegi og fiskiðnaði þarf ekki annað en líta á skýrslu Byggðastofnunar til að sjá að hér er um meginmál að ræða fyrir alla þá sem búa utan við Stór-Reykjavíkursvæðið. Þess vegna verð ég að segja að vegna Alþingis er nauðsynlegt að Alþingi fjalli um þessi mál með viðunandi hætti og hér fari fram þingfundir eftir helgi um þessi stórmál. Ég óska eftir því og krefst þess eins og hv. þm. Skúli Alexandersson að það verði sérstakir fundir um þetta eftir helgi.
    Það skiptir engu máli hvort einhverjir hv. þm. hafi komið sér saman um að þeim liggi svo mikið á að ljúka störfum á þingi að því þurfi að ljúka kl. 2 á morgun. Við erum ekki á Alþingi Íslendinga til að flýta okkur að ljúka þingstörfum. Ég segi það sem einn af þeim mönnum sem hafa tekið þátt í íslensku atvinnulífi, í sjávarútvegi og fiskiðnaði, að ef þessi mál fá ekki viðunandi umfjöllun á Alþingi Íslendinga er verið að bregðast fólkinu í strjálbýlinu, þá er Alþingi að bregðast því hlutverki að fjalla um þessi grundvallaratriði í íslensku atvinnulífi. Ég krefst þess að Alþingi Íslendinga sinni þeim málum og þeim verkefnum sem það er kjörið til.