Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að tefja þingstörf með því að ræða um þingsköp, en mér þykir þetta orðin hin furðulegasta umræða. Hér var hart deilt á ríkisstjórnina áðan fyrir það að láta undir höfuð leggjast að vinna að byggðamálum og marka þar stefnu og það er undarlegt ef ég má ekki svara því. M.a. var deilt á ríkisstjórnina fyrir að hún hefði ekki tekið á erfiðleikum dreifbýlisverslunar og ég leyfði mér að benda á að hæstv. viðskrh. hefði skipað nefnd í þessu skyni.
    Ég deili ekki á Byggðastofnun fyrir lánveitingar hennar. Ég hef aldrei sagt eitt orð um það. Hún hefur unnið þar gott verk. Og það er hárrétt að hún hefur verið að bjarga fyrir horn fjölmörgum fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum. Ég met það og þakka það. En við vorum að tala um stefnumörkun í byggðamálum, um að breyta þeirri þróun sem hefur orðið í byggðamálum. Ég tel að Byggðastofnun þurfi að hafa um það meira frumkvæði. Er ég að deila á hana þó að ég lýsi þeirri skoðun minni að hún eigi að hafa þar frumkvæði? Ég upplýsti m.a. að fyrrv. hæstv. forsrh. fól Byggðastofnun að gera úttekt á byggðaþróun í landinu og sú skýrsla er að koma fram. Það er ágætisskýrsla vona ég og var rétt hjá fyrrv. hæstv. forsrh. að gera það.
    En ég tel engu að síður afar æskilegt að Byggðastofnun hafi sem mest frumkvæði á hinum ýmsu sviðum þar sem hún telur að af einhverjum ástæðum þróist ekki á hinn rétta veg. Það er engin gagnrýni á Byggðastofnun.