Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að Byggðastofnun eigi að hafa meira frumkvæði í sambandi við stefnumörkun varðandi atvinnurekstur úti á landi og varðandi það hvernig við viljum halda á þeim málum. Það sem veldur Byggðastofnun hins vegar erfiðleikum er að það er búið með lögum að skipa tvær yfirstjórnir yfir Byggðastofnun: Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og hlutabréfasjóð. Svo vill til að hlutabréfasjóður hefur ekki skilað tillögum um eitt einasta fyrirtæki í sjávarútvegi enn þann dag í dag. Svo vill til að t.d. Rafmagnsveitur ríkisins hafa haft uppi hótanir og fullan vilja til að stöðva frystihús úti á landi í síðustu viku og aftur í þessari viku og borið það fyrir sig að engar tillögur eru uppi um það frá hlutabréfasjóði hvernig eigi að bregðast við vanda þeirra fyrirtækja sem stjórn hlutabréfasjóðs hefur sagt að sitji í fyrirrúmi og séu fyrstu fyrirtækin sem hlutabréfasjóður muni taka afstöðu til.
    Það liggur enn fremur fyrir að hlutabréfasjóður ... ( Forseti: Má ég minna hv. þm. á að nú þykir mér komið út í efnislega umræðu sem þingmanninum er að sjálfsögðu heimilt að ræða í almennri umræðu en tæplega umræðu um þingsköp.) Ég er sammála hæstv. forseta um að ég er í efnislegum umræðum, en ég er að svara ummælum hæstv. forsrh. og mér hafði fundist að hæstv. forseti hefði átt að gera athugasemd við orð hæstv. forsrh. áðan, en ég hlýt að svara þeim ummælum sem hæstv. forsrh. viðhafði í þessum umræðum.
    Það liggur fyrir að Fiskveiðasjóður muni ekki halda fund fyrr en eftir einhverjar vikur að mér er sagt. Nú getur vel verið að ég hafi fengið rangar upplýsingar, en þá leiðréttir forsrh. En fyrr en þessi fundur verður haldinn mun ekki liggja fyrir hvernig Fiskveiðasjóður muni taka á erfiðleikum þeirra fyrirtækja sem hlutabréfasjóður er nú að fjalla um. Það liggur með öðrum orðum fyrir að þau fyrirtæki, sem hæstv. forsrh. talaði um að hann mundi halda uppi stöðugri varðstöðu um þegar hann talaði á Kópavogsfundinum skömmu eftir myndun ríkisstjórnarinnar, standa nú frammi fyrir því dag eftir dag að þau vita ekki við hverju þau mega búast. Ég spyr hæstv. forsrh. út af því sem hann sagði hér áðan: Er það hans mat að það standi upp á Byggðastofnun eða er það hans mat að það standi upp á hlutabréfasjóð eða er það hans mat að það standi upp á Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina? ( Forsrh.: Fiskveiðasjóð.) Standi upp á Fiskveiðasjóð. Það vill svo til að Fiskveiðasjóður er sennilega eini sjóðurinn af þessum fjórum sem ekki heyrir undir hæstv. forsrh. Það heyrir undir hæstv. sjútvrh. Hvar er hann? Er ekki hægt að kalla hæstv. sjútvrh. í þingsalinn og spyrja hann að því hvort hann sé sammála forsrh. að það standi upp á sjútvrh. í þessum málum?
    Annars verð ég að segja, hæstv. forseti, að það er sagt um köttinn að það sé alveg sama hvað sé stutt til jarðar og hann sé öfugur, hann komi alltaf undir sig fótunum. Eins er það um hæstv. forsrh. í þessu máli.

Hann er eins og kötturinn. Þó það standi upp á Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, þó það stundi upp á hlutabréfasjóðinn skal það vera hæstv. sjútvrh. að kenna að þessi fyrirtæki fái ekki svar og hæstv. viðskrh. af því að Landsbankinn hefði ekki gefið svar. Þetta er, hæstv. forsrh., ekki nægileg röksemd. Ég held að hæstv. forsrh. verði að gera gleggri grein fyrir því hvernig þessi mál standa. Ef það er mat hæstv. forsrh. að það standi upp á Fiskveiðasjóð í sambandi við það að útflutningsfyrirtækin fái viðunandi afgreiðslu í sjóðakerfi, sem hæstv. forsrh. hefur sett upp, verður hæstv. forsrh. að gera grein fyrir því hér. En á hinn bóginn vitum við að það er þannig að forsrh. mun bara svara í fjölmiðlunum á morgun. Hann mun ekkert koma í þingsalinn og svara hér. Það er hans háttur að tryggja sér viðtalstíma hjá sjónvarpsfréttamönnum og svara ekki þinginu.